Sunnudaginn 13. júní er guðsþjónusta kl. 11.00 í Hallgrímskirkju. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Sönghópur undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar syngur.
Hér er hús Guðs, hér er hlið himinsins" sagði Pétur Sigurgeirsson biskup í vígsluorðum sínum þegar Hallgrímskirkja var vígð 1986. Við guðsþjónustu sunnudagins verða þessi orð túlkuð í tónum og orðum. Við heyrum sálminn Heyr himnasmiður" eftir Kolbein Tumason og Þorkel Sigurbjörnsson sunginn og Björn Steinar Sólbergsson organisti leikur verkið Himnasmiður" eftir Sigurð Sævarsson við lok guðsþjónustunnar. Guðspjall dagsins sem prédikunin varpar ljósi á, eru orð um heimboð og gestrisni himnasmiðsins, sköpun hans, fyrirhyggju manneskjunnar og köllun til framtíðar.
Sálmar sunnudagsins:
Gakk inn í herrans helgidóm (214)
Nú skrúða grænum skrýðist fold (719)
Nú heilsar vorsins blíði blær (718)
Guðspjall sunnudagsins:
Lúk 14. 25-35
Mikill fjöldi fólks var Jesú samferða. Hann sneri sér við og sagði við mannfjöldann: Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur og enda fram yfir eigið líf. Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér getur ekki verið lærisveinn minn.
Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? Ella má svo fara að hann leggi undirstöðu en fái ekki lokið við og allir, sem það sjá, taki að spotta hann og segja: Þessi maður fór að byggja en gat ekki lokið.
Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? Sé svo ekki gerir hann menn á fund andstæðingsins meðan hann er enn langt undan og spyr um friðarkosti. Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn nema hann segi skilið við allt sem hann á.
Saltið er gott en ef saltið sjálft dofnar með hverju á þá að krydda það? Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.