Hvað er mikilvægast alls?
Hjálparráð heimsins Hvað er mikilvægast alls ?, Að þessu voru fermingarungmennin sem sækja saman fermingarfræðslu í Dómkirkjunni og Hallgrímskirkju spurð að í liðinni viku í tengslum við jólin og aðdraganda þeirra. Og svörin þeirra sem tekin voru saman í kjölfar fræðslunnar voru falleg, skynsamleg, viturleg, báru vott um samkennd og samlíðan, kærleika: “Vera ánægð þakklát, muna fæðingu Jesú, finna samkennd með þeim sem eiga bágt. Muna vináttu, gleði, eiga samveru með fjölskyldunni. “ Eiga innihaldsrík tengsl og samveru með þeim sem við elskum. Finna hamingju, kærleika, umhyggju, lífið, örlæti, tengsl, Þetta var mikilvægast alls.
Aðventan er tími sem kallar fram skala af tónum og litum. Sorgin verður dýpri, einmannaleikinn nöturlegri, fátæktin sárari, gleðin dýpri, tengslin mikilvægari og gjafmildin sterkari. Tengsl eru svo mikilvæg um leið og einmannleiki er meinsemd í okkar samtíma. En svör unga fólksins voru fallegri en allt annað og það er ljúft að vita til að þetta er mynd barnanna okkar, komandi kynslóða, ömmu- eða afa barna, sem eru að taka út þroska á leið til fullorðinsára.
Um leið og við hugleiðum þetta þá renna fyrir sjónum okkar heimsmyndir kynslóða, ógnvænlegar oft. Guðspjall dagsins í dag leiðir okkar því í orðum þess eru dregnar upp táknmyndir sem lýsa einhverri ógn en um leið huggun. Himintungl og sól, angist þjóða, ráðaleysi. Margt er ekki að breytast í veröldinni. Okkur verður tíðrætt um ótta og ógnir, hræðslu, kvíða, öryggisleysi.
Öryggi sem trúin vill miðla og frelsari heimsins er í miðpunkti aðventunnar, þorsti eftir von. Ekkert af þessu er nýnæmi og tengir okkur við liðnar kynslóðir. Vonarboðskapur er lífinu eins og vatn þyrstri manneskju. Og boðskapur guðspjalls dagsins í dag birti mynd af Jesú sem talar við þau sem voru beygð, hrópuðu á réttlæti, voru jaðarsett eða leitandi undir ofríki Rómverja og heimsherra þess tíma. Með þessum orðum sínum og svo mörgum öðrum leysti hann væntingar manna úr viðjum fordóma og svartsýni. Og mundi þín heimsmynd, ófrið og ógnir, breytingar. Já manstu þína heimsmynd á fermingarári. Ég man mína og vendipunkta í lífi minnar kynslóðar það ár. Kvennfrídagurinn fyrsti, vonir og söngur Víetnamstríðið tók enda eftir áratuga stríð og ótrúlega illsku. Já,stríð tóku enda en önnur urðu til. Borgarastríð hófst þetta árið í Líbanon, Falangistar, PLO og fleiri börðust og nöfnin urðu eins og heimilisföst í reglubundnum fréttum útvarps og sjónvarps. Jörðin fór sína leið þetta árið við “dunur hafs og brimgný” Súezskurðurinn opnaður, fyrsta konan leiddi Íhaldsflokkinn í Bretlandi, byrjun á örtölvubyltingu, Kröflueldar hófust, upptaktur varð til að mannréttindasáttmála fatlaðra, Shakarov fékk friðarverðlaun Nóbels, svarthvítt sjónvarp varð að lit sem enginn vildi reyndar því stundum er betra að veröldin sé í svart hvítu, eða hvað ? Hver var þín heimsmynd á fermingarári ? Það er gott að rifja upp, reyna að muna og vafalaust hefur dýptin aukist í svörum. En eins og okkar eigin fermingarmynd, þegar við undrumst og hneykslumst að hafa litið svona út þá þurfum við að muna að veröldin var í raun á þessum stað þá og ekki fyrir svo ýkja löngu síðan. Og enn óttumst við að kraftar himnanna muni riðlast, heyrum stormandi brimgný og drunur hafs, erum kvíðin og óttaslegin. En orð Krists eru: Réttið úr ykkur og berið höfuðið hátt.
Kirkjan ber boðskap aðventunnar inn í líf kynslóða og samtíma. Við lögum okkur að ljósinu, ljósi heimsins sem skín og kallar á að við réttum úr bökum okkar, væntum vors eftir vetur þegar fíkutréin í suðrinu fara að bruma. Að það komi sumar að loknum vetri. Við eigum að ganga til móts við kærleika Guðs sem sigrar allt að lokum. Það eru einu endamörkin á leið vonda óttans sem hleypir að okkur hrollkulda um kynslóðir Annarri spurningu var beint til ungmennanna og hún hljóðaði svona: “Hvað finnst þér mikilvægast um jólin? “ Og svörin voru: “Samvera og góður matur, vera með fjölskyldunni, fæðing Jesú, samvera með fjölskyldunni, gleði og jólaskap, hvíld og sættir. “ Síðasta orðið er lykilorðið að svo mörgu. Að sættast og vera sátt. Eins og skaparinn sættir veröldina við sig, biður jörðinni friðar og sköpuninni allri. “Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.”
Förum með þetta fyrirheit út í lífið, um lífið og til lífsins. Að hjarta okkar slái í takt við von sem tekur frá ótta við afdrif okkar, en skapar gleði yfir að við eigum hvert annað að, kynslóðirnar og okkur birtist heimsins hjálparráð.
Úr prédikun annan sunnudag í aðventu. Irma Sjöfn Óskarsdóttir
Guðspjall annars sunnudags í aðventu er úr Lúkasarguðspjalli 21.kafla:
Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.