Hraðpróf og streymi í helgihaldi jólanna

22. desember 2021
Fréttir
Jól í Hallgrímskirkju

Streymt verður á netinu beint frá athöfnum í Hallgrímskirkju um jólin á heimasíðu kirkjunnar og mbl.is. Aðeins 400 komast í hverja messu á aðfangadag og jóladag.

Á aðfangadag verður hægt að fylgjast með streymi frá aftansöng klukkan sex og guðsþjónustu á jólanótt klukkan hálf tólf. Einnig verður streymt frá hátíðarguðsþjónustu jóladags klukkan tvö. Hægt verður að nálgast hlekk á athafnirnar með því að fara inn á heimasíðu Hallgrímskirkju, www.hallgrimskirkja.is. Einnig verður www.mbl.is með hlekk á streymið frá helgihaldinu í Hallgrímskirkju.

Um tvö þúsund manns sækja Hallgrímskirkju að jafnaði fyrstu jóladagana ár hvert. Vegna sóttvarna getur Hallgrímskirkja einungis tekið á móti takmörkuðum fjölda í kirkjuna yfir hátíðarnar að þessu sinni. Með streyminu er öllum boðið að vera með í jólamessunum hvar sem dvalið er um jólin, á Íslandi, Tenerife eða annars staðar í heiminum.

Á aðfangadag, í aftansöng og miðnæturmessu, auk hátíðarmessu á jóladag, þarf að framvísa neikvæðu hraðprófi við kirkjudyr og rúmast þá 400 manns í kirkjunni miðað við sóttvarnarreglur, 200 í hólfi. Í fjölskylduguðþjónustu klukkan tvö annan dag jóla komast 100 en þá er ekki krafist hraðprófs.