Hreinsun

16. september 2020
Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson prédikaði í Hallgrímskirkju 13. september 2020. Hér má lesa prédikun hans sem var útlegging á Esekíel 47.8-9. „Og þá verður saltvatnið heilnæmt og allt sem lifir og hrærist, hvar svo sem fljótið streymir, mun lifa."

Í okkar íslenska samhengi kemur manni kannski fyrst í hug, þegar talað er um vatn, að það sé nóg af því – eða í það minnsta göngum við út frá því sem vísu. En er það holl afstaða? Það er líklega fágætt á heimsvísu að ganga þannig að vatnsgæðum sem vísum eins og við gerum og það getur leitt til heimtufrekju og vanþakklætis að ganga að því, sem gott er, sem vísu. Og við sjáum það í fréttum hvern einasta dag að hið góða er langt í frá sjálfsagt. En ef eitthvað ætti að skipast í flokk með þeim fyrirbærum sem safna mætti saman undir yfirskriftinni „hið góða“ væri vatnið líklega þar efst á blaði sem tilvistarleg forsenda lífsins sem slíks. Enda telja jú vísindin fullvíst að þróunarsögulegt móðurlíf alls sem lifir sé að finna í hafinu og þegar stjarnvísindamenn leita lífs á öðrum hnöttum leita þeir fyrst vísbendinga um tilvist vatns á þeim.

Nú, á tímum loftslagsbreytinga, er aðgangur að vatni orðinn það atriði sem margir sérfræðingar á sviði öryggismála telja að verði framar öðru kveikjan að átökum á milli þjóða og þjóðflokka, einkum í fátækari löndum heimsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu World Wide Fund for Nature um ástand lífríkis Jarðarinnar, sem fjallað var um í fréttum fyrr í vikunni. En það er ekkert nýtt. Í 1Mós er frásögn af því þegar upp koma deilur á milli fjárhirða Abrahams og fjárhirða Lots, frænda hans, deilur, sem gera má ráð fyrir að hafi snúist um beitiland og aðgang að vatnsbólum.

Þannig hefur aðgangur að góðu og heilnæmu drykkjarvatni víðast hvar og á öllum tímum verið takmörkuð gæði og maðurinn hefur á öllum tímum gert sér grein fyrir mikilvægi vatnsins fyrir viðhald og vörslu lífsins. Í gjörvöllum Miðausturlöndum til forna var litið á vatnið sem frumefni sköpunarinnar og lífsins. Ef það skorti, hafði það dauða og tortímingu í för með sér, en ef það var til staðar, tryggði það líf og frjósemi.

Á sama tíma og mikilvægi vatnsins duldist engum, voru hætturnar sem í því fólust mönnum jafn ljósar. Tengsl vatnsins við storma og eldingaveður urðu snemma til þess að því voru eignuð bæði guðlegt eðli og guðlegur máttur, máttur sem auk þess að færa frjósemi og lífgjöf gat einnig verið tortímandi og í andstöðu við þá reglu sem nauðsynlegt var að ríkti í sköpuninni. Þess vegna verður sjávardrekinn, sem heitir Tíamat í mesópótamísku sköpunarsögunni, og endurspeglast í sjávarskrímslinu Levjatan í Gamla testamentinu, tákn fyrir óreiðuna, „kaosið,“ sem ógnar reglunni, „kosmosinu.“ Sagan af Nóaflóðinu og hinar ævafornu flóðsögur sem liggja henni til grundvallar tjá vel þessa ógn sem stafað getur af vatni sem ekki er haldið í skefjum. Þetta mótsagnakennda eðli sjávarins var til skamms tíma afar lifandi og raunverulegur veruleiki dag hvern í íslenskum sjávarþorpum, þar sem feður og synir leituðu fangs í matarkistunni, sem hafið var, en sem gat á augabragði breyst í lífshættulegt sjávarskrímsli.

Þetta eðli vatnsins, sem goðsagnirnar tjá að gefnu tilefni, er ekki síst íhugunarvert í ljósi aðstæðna dagsins í dag, á tímum loftslagsbreytinga, þar sem þessar andstæður verða æ öfgafyllri og hin tortímandi hlið vatnsins sýnir sig með æ meira offorsi, ekki síst í tengslum við fellibylji og flóð, svo ekki sé minnst á hækkun yfirborðs sjávar. Því það er oftar en ekki svo, þegar maður nálgast goðsögulega texta með opnum huga, að manni skilst að veruleiki mannsins og náttúrunnar á þessari Jörð hefur lítt breyst í eðli sínu um árþúsundir, þrátt fyrir miklar breytingar á yfirborðinu. Og manni skilst einnig að goðsögur eru ekki ævintýri, eða bábiljur, ellegar aðeins fánýtur hugarburður, sumpart saminn til skemmtunar, sumpart til skýringar á hlutum sem fáfróð, vísindasnauð manneskjan skyldi ekki. Miklu frekar skyldi líta svo á að goðsögur lýsi bláköldum veruleikanum en ekki á hreinan vísindalegan hátt, sem leitast við að vera hlutlaus og lýsandi, heldur á sinn goðsögulega hátt sem innifelur í sér trúarlega sýn á eðli tilverunnar og þar með á gott og illt. Það var þannig sameiginleg sýn fornaldar að tilveran væri sköpun, sköpuð af guðum eða guði og sú sýn kemur skýlaust fram í Speki Salómons að sú sköpun sé góð og tilgangur hennar sé viðhald lífsins. Höfundur ritsins orðar þetta þannig: Guð er ekki valdur að dauðanum og gleðst ekki yfir að líf deyr. Guð skapaði allt til þess að það lifði. Þessa jákvæðu sýn á frumtilgang sköpunarinnar held ég megi staðhæfa að spekihefð G.t. eigi sameiginlega með allri trúarhugsun miðausturlanda til forna.

En þó að eðli samspilsins á milli manns og náttúru og þess jafnvægis sem þar þarf að ríkja hljóti ávallt að vera hið sama, þá er það því miður svo að á því hefur, á síðustu tveimur öldum eða svo, orðið svo alvarlegt ójafnvægi að það ógnar allri sköpuninni með afleiðingum sem fólk fyrri tíma hefði aðeins getað ímyndað sér í samhengi heimsslitahugmynda af ýmsu tagi, sem t.d. hafa fundið sér farveg í flóðsögum sem fyrr voru nefndar. Því ber þó að halda til haga í þessu samhengi að tilgangur flóðsagnanna er alls ekki neikvæður heldur þvert á móti – a.m.k. á meðal annars – að boða von um nýja tíð, nýtt upphaf, upprisu sköpunarinnar.

Slíkur vonarboðskapur þarf þó ekki að vera bundinn við „heimsslit“ í bókstaflegum skilningi, eins og lexía dagsins úr spádómsbók Esekíels sýnir. Esekíel hafði reyndar, ásamt samfélagi Júdamanna, upplifað heimsslit í vissum skilningi þegar Babýloníuher lagði Jerúsalem í rúst og leiddi megnið af yfirstéttinni í útlegð til Babýlon árið 586 f. Kr. Heimurinn, eins og þau þekktu hann, hrundi og hversu margt fólk í hverri kynslóð hefur ekki upplifað slík heimsslit um árþúsundin og gerir enn í dag. En hrunið fólst ekki aðeins í því að fólkið væri svipt búseturéttinum í sínu eigin landi; í huga Esekíels, sem var prestur sjálfur, sem og annarra fólst skelfingin aðallega í því að musterið í Jerúsalem var einnig lagt í rúst og í því sáu margir tákn um að Drottinn, Guð Júda og Ísrael, hefði yfirgefið þjóðina og selt hana í hendur í óvinum sínum.

Í trúarlegri heimsmynd Esekíels er musterið í Jerúsalem miðpunktur eða öxull sköpunarinnar. Þetta er algengt í trúarbrögðum, að litið sé á einhvern einn stað sem hinn allra heilagasta miðpunkt sköpunarverksins, oftar en ekki í tengslum við opinberun guðdómsins á þeim stað. Nú hafði þessi heilagasti staður sköpunarinnar verið vanhelgaður og þar með var heimurinn sem slíkur kominn í ójafnvægi út frá trúarlegum sjónarhóli Esekíels því að heilagleiki Jerúsalem, sem hvíldi á návist Guðs í musterinu, var forsendan fyrir tilvist, velferð og hamingju þjóðarinnar. Í lexíunni, sem tilheyrir vitrun Esekíels um endurreisn musterisins, fær von hans um endurreisn sáttmálans við Guð „kosmíska“ eða sköpunarlega vídd, þar sem Esekíel sér vatn koma undan þröskuldi musterisins, sem flæðir síðan stríðum straumum í Dauðahafið og gerir saltvatnið heilnæmt, eins og segir í textanum, svo heilnæmt reyndar að fjöldi fiskanna í því verði eins og í Miðjarðarhafinu. Þetta er mjög róttæk draumsýn því vatnið í Dauða hafinu er svo salt að þar þrífst ekkert líf utan bakteríur.

Það er ljóst að hreinsun vatnsins í vitrun Esekíels er hvorki efna- né líffræðilegs eðlis enda rennur ferskvatn án afláts í Dauða hafið úr ánni Jórdan án þess að seltan minnki við það. Við vitum ekki hvort Esekíel hafi búist við því að þessi umskipti Dauðahafsins myndu eiga sér stað í bókstaflegri merkingu en það er þó ekki útilokað í trúarlegri heimsmynd hans. En hreinsun Dauðahafsins og umbreyting þess í matarkistu er fyrst og fremst tákn fyrir endurreisn á sambandi Guðs við þjóðina og hún á sér stað fyrir tilstilli helgunar sem aftur hvílir á þeirri staðreynd að uppspretta ferskvatnsins er í musterinu. Það að fylla Dauðahafið lífi er því hluti þess að Guð birti Ísraelsmönnum heilagleika sinn (sbr. Esek 39.27).

Hugmyndin um hinn lífgefandi, guðlega mátt vatnsins kom einnig fram í helgisiðum fornaldar, þar sem vatnið hafði það hlutverk og virkni að helga bæði hluti og fólk, þ.e.a.s. að hreinsa það þannig að það yrði hæft til þess að nálgast guðdóminn. Þetta hlutverk vatnsins er til staðar í guðspjallinu þegar Jesús segir hinum sjúku mönnum að fara og sýna sig prestinum, því skv. kröfu laganna urðu þeir, sem prestur lýsti hreina, að halda sig eftir það út af fyrir sig í sjö daga og þvo klæði sín, raka allt hár af líkamanum og baða sig í vatni á fyrsta og sjöunda degi. Vatnið er hér ekki aðeins til hreinlætis heldur aðallega til helgunar.

Í skýrslu World Wide Fund for Nature, sem áður var nefnd, er hnignun á líffræðilegum fjölbreytileika aðalumfjöllunarefnið. Þar kemur fram að líffræðilegur fjölbreytileiki leiki m.a. lykilhlutverk í því að hafa stjórn á veðurfari, vatnsgæðum, mengun, frjóvgun og flóðavörnum. Mikill fjölbreytileiki geti einnig hjálpað til við að viðhalda heilbrigðum jarðvegi, frjóvga plöntur, hreinsa vatn, og veita vörn gegn öfgafullum veðurfarsfyrirbrigðum.

Það er íhugunarvert að á meðan Esekíel sér fyrir sér að hreinsun vatnsins leiði til líffræðilegs fjölbreytileika, þá kemst náttúrufræðin að þeirri niðurstöðu að ekki aðeins sé hreint vatn forsenda fyrir líffræðilegum fjölbreytileika heldur einnig geti fjölbreytileikinn tryggt hreinleika vatnsins. Þannig geta nútímavísindi sýnt með nákvæmum hætti fram á hve samofið allt lífkerfið er og hve jafnvægi sköpunarinnar er viðkvæmt.

En fornmaðurinn gerði sér einnig grein fyrir mikilvægi jafnvægisins; reyndar snerist öll hans tilvera og ekki síst trúarlíf hans um að viðhalda jafnvæginu í tilverunni. Egyptar kölluðu þetta grundvallarjafnvægi Maat, Hebrear kölluðu það sedaqa, „réttlæti“. Og þetta jafnvægi er nauðsynlegt til viðhalds sköpuninni, það er í eðli sínu heilagt, því það er guðlegt grundvallarlögmál, og það að vinna að því er því heilög skylda mannsins. En hinn iðnvæddi maður hefur gleymt þessu. Hann getur smíðað öll möguleg og ómöguleg tæki og tól og byggt hundrað Babelsturna hvern ofan á annan en hann hefur gleymt tilgangi sínum á þessari jörð, sem er að vernda og viðhalda hinu viðkvæma jafnvægi lífríkisins sem „Guð skapaði til þess að það lifði.“

Sýn Esekíels um lífgun Dauðahafsins byggði ekki á verkfræðilegri þekkingu hans á afsöltun vatns heldur á heimssýn sem gerir ráð fyrir heilagleika lífsins því að lífið sé sköpun heilags Guðs. Með arðráni sínu hefur neyslusamfélagið lyft sinni eigin eftirsókn eftir hégóma á guðlegan stall og um leið vanhelgað sköpunina. Guð gefi að mannkyninu í heild – okkur öllum þar með töldum – takist að snúa af þeirri leið en til þess þarf raunverulega umskurn hjartans.

Prédikun dr. Jóns Ásgeirs Sigurvinssonar
í Hallgrímskirkju 14. sunnudag e. þrenningarhátíð, 13. sept. 2020

Lexían: Esekíel 47.1-10; pistillinn Gal 5.16-24; guðspjallið: Lúkas 17.11-19. Ritningarlestrar dagsins fylgdu ekki að öllu leyti hinni hefðbundnu textaröð yfirstandandi kirkjuárs; lesturinn úr G.t. var sérvalinn með tilliti til sérlegs umfjöllunarefnis septembermánaðar í Hallgrímskirkju, sem er vatnið.