Hátíðarmessa kl. 11:00. Karl Sigurbjörnsson biskup prédikar. Auk hans þjóna í messunni biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, vígslubiskupinn í Skálholti, Kristján Valur Ingólfsson, sr. Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur, dr. Sigurður Árni Þórðarson, séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir, dr. Sigurður Pálsson, sr. Birgir Ásgeirsson og messuþjónar.
Mótettukór Hallgrímskirkju syngur í messunni undir stjórn Harðar Áskelsson og orgelleik annast Björn Steinar Sólbergsson. Inga Harðardóttir hefur umsjón með barnastarfinu. Eftir messu er afmælismessukaffi í suðursal kirkjunnar.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Strax eftir messu er útgáfu bókarinnar ,,Mínum Guði til þakklætis, saga Hallgrímskirkju" fagnað. Dr. Sigurður Pálsson, fyrrverandi sóknarprestur kirkjunnar, ritaði bókina en hún er 232 bls. og ríkulega myndskreytt.
Sálmar:
Nr. 209 Þá þú gengur í Guðs hús inn (inngöngusálmur)
Kórsöngur á milli lestra: Drottinn minn hirðir held ég þig, eftir Hallgrím Pétursson. Lag eftir Halldór Hauksson
Nr. 41 Víst ertu Jesús kóngur klár
Kórsöngur eftir prédikun: Bænin má aldrei bresta þig, eftir Hallgrím Pétursson. lag eftir Þorkel Sigurbjörnsson.
Nr. 47 Gegnum Jesú helgast hjarta
Kórsöngur undir útdeilingu: O vos omnes, eftir Pablo Casals og Bogoroditse, eftir Sergei Rachmaninoff
Nr. 56 Son Guðs ertu með sanni
Eftirspil: Toccata - Tu es petrus, eftir Henry Mulet.
Lexía: Slm 91.1-4
Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.
Pistill: 1Kor 3.6-9
Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn. Sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu. Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.
Guðspjall: Jóh 4.34-38
Jesús sagði við þá: Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.