Hugleiðing á Pálmasunnudegi

05. apríl 2020


Kuldalegur Elliðaárdalurinn heilsaði göngufólki dagsins.  Fuglarnir eins og korktappar á floti við árstífluna.  Verðandi lauftréin eiga langt í græna litinn sinn.  Það er svo langt í margt á einhvern máta og kannski verður ekkert eins og áður þó okkur finnist lífið færast aftur í fyrra horf.  Þetta er líf þversagna og andstæðna og framundan er kyrravika, kannski sú kyrrasta af öllum áður.

Hverfum aftur um aldir.
Mynd  úr barnsminni  af kyrtilklæddum meistaranum á gráum asna.  Fæturnir námu næstum við jörðu og það er allt undirlagt af gleði og elskan svo mikil. Túlkun listafólks á frásögum kyrruviku er hið dýrmæta tungumál, hafið yfir aðskilnað þjóðtungna.  Það miðlar Kristi augans og barnsminnis líka. Myndir sem miðla gleði og elsku en eru um leið kall á leiðsögn, áræði, nýja tíma.
Og um leið og myndin rifjast upp þá heyrum við hrópin og köllin sem blandast upprifinni spenntri gleði í samstöðugöngu og rykið þyrlast upp undan fótsporum hundraðanna.  Karlar, konar og börn leggja á götuna klæði sín og pálmagreinar.

En  í ár er allt eitthvað svo öðruvísi, engar greinar, engin hátíð, ekkert fólk samankomið.   Hósanna bíður næsta árs .
Pálminn sem kúrir við kórtröppurnar hér í Hallgrímskirkju, kirkjupálminn, minnir okkur á greinarnar sem lagðar voru fyrir fætur frelsarans við undirleik hósannahróps fjöldans.
Í 71 ár hefur hann átt bústað hér í kirkjunni.  Pálminn sem gefin var af velgjörðarkonu Hallgrímskirkju  Guðrúnu Ryden þegar kapellan var vígð undir kór kirkjunnar árið 1949.  70 ára líf í kirkjunni og rétt meira.  Eins og vaktmaður í húsi Guðs.   Gaman væri ef hann hefði mál og gæti deilt með okkur öllu því sem hefur átt sér stað hér og þar í kirkjunni frá upphafi.

En ekki um stund
Þögnin í kirkjunni er eins og til að undirstrika að ekkert er sem áður.
Okkur langar ekki að hrópa hósanna eða nokkuð annað. Helst vildum við læðast um veröldina, láta vorið bíða, fresta sumrinu og lífinu meðan við höldum okkur heima og bíðum þess að okkur sé óhætt.

En þrátt fyrir upptaktinn, stuðið og mannfjöldann í  lýsingu á innreið Jesú þá skipast fljótt veður í lofti og áður en vikan er á enda, áður en greinarnar sölna á götunni og klæðin veltast um í  rykinu, þá verða sömu göturnar vettvangur krossfestingar og skelfilegra atburða .  Kyrravika

Pálmsunnudagur segir okkur frá innihaldi og fegurð samstöðunnar í hrópum fólksins en svo var samstaðan rofin áður en greinarnar misstu lit og líf á rykurgri götunni.  Þessi fallega samstaða fólksins um vonir og væntingar, bjartari framtíð varð að engu eða hvað...framhald sögunnar liggur um næstu viku á leið til páskanna og þangað höldum við  skiptum út þögn fyrir von, framtíð fyrir vonleysi..

Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér í okkar eigin lífi, þjóðar eða veraldarinnar en við treystum að framtíðin sé Guðs og framundan er vonarljós upprisuhátíðarinnar, páskanna.

En fyrst er það ganga  inn á við, ferð um herbergi og víddir bæði gleði og sorgar,  ótta og öryggis, skugga og ljóss.
Ganga til lífs í vorinu sem kemur og laufið fær litinn sinn og fuglarnir frið til að sinna framtíðinni og syngja lífinu lof.
Því þú Guð átt orð, huggun og nýtt líf
Lífið sem færir hlýju í orðin okkar, jákvæðni í hugsun okkar, öryggi og merkingu í daglegt líf.

 

Bæn á Pálmasunnudegi:
Guð ljóssins og lífsins
Vek með okkur samstöðu, skilning, þolinmæði og þrautsegju.
Við biðjum fyrir þeim sem hafa veikst sökum covid faraldursins.   Við biðjum fyrir þeim sem standa vaktina til að hjúkra og hjálpa, hjúkrunarfólki, læknum og þeim sem stunda rannsóknir í okkar þágu, sinna almannvörnum, Við biðjum fyrir þeim ótalmörgum sem gera okkur lífið bærilegra og betra á þessum dögum .  Hugga þau sem eiga um sárt að binda.  Styrk þau sem eru óttaslegin og kvíðin.  Amen

Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.