Hvað svo ?

14. apríl 2020


Hvað svo ?  Þegar banni léttir, þegar sumarið heilsar ?  Þegar grasið verður grænt, lauftréin skrýðast ?  Þegar þegar við hættum að ganga á jöðrum göngustíganna til að gefa tvo metrana, sprittþurrar hendur má  leggja í annarra hendur, veifum afa og ömmu ekki lengur norpandi fyrir utan gluggann þeirra ?
Þegar skólaári lýkur, þegar samkomubanni léttir ?  Þegar, þegar, þegar   hvað þá ?  Hvernig leggst svo framtíðin ?   Hvað fylgir okkur inn í framtíðina ?  Hver fylgir okkur inn í framtíðina ?

Gleðilega páska, gleðilega upprisuhátíð.
Hefði manni komið til hugar að vorið 2020 yrði helgihald í tómum kirkjum í heilsuverndarskyni.

Við skulum staldra við stutta stund, páskamorgunn liðinn en gleðidagar páskanna taka við fram til Hvítasunnu.
Reynum að velta fyrir okkur og  finna samhljóm í sögu Markúsar við okkar eigið líf, okkar páska, okkar samtíð og veruleika.  Flókinn veruleika í samkomubanni.

Konurnar sem gengu þétt saman út að gröfinni forðum voru með sín áform.  Ræddu hvernig þær gætu tekið steininn stóra frá gröfinni til að votta Jesú sína hinstu virðingu.   Þær lögðu framtíðarplön í spjallinu á veginum út að gröfinni, voru andstuttar og sorgin sat  í hálsi þeirra, kökkurinn og saknaðartárin sviðu í augun.  Af hverju fór allt á þennan veg.  Lífið sveik væntingar þeirra, krossinn hafði tekið frá þeim von um breytingu, byltingu.

Þær læddust að gröfinni til að kanna framtíðina þá sat hann þarna, gröfin tóm, steinninn kominn til hliðar og hvítklæddur ungur maður sagði þeim að leggja plönin til hliðar, því framtíðin er í hendi Guðs.

Guðspjall páskanna um konurnar þrjár sem komu að gröfinni og Markús segir frá í sínu guðspjalli endar í þögn.  Þrunginni þögn svo tóku meistrara næstu áratuga að bæta ögn við.  Þau lifðu sannarlega framtíðina eftir þögnina.
Rifjum upp niðurlagið:
„ Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótt og ofboð var yfir þær komið.  Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar."

Við erum enn að segja söguna af ótta þeirra og undrun. Og Markús heyrði söguna frá þeim sem þekktu Jesú og hún barst  áfram þegar þau sem voru sjónarvotta hurfu. Frásagan er skilin eftir fyrir okkur að ljúka, halda áfram, lesa úr ótta þeirra og undrun.  Hefja ferðina eins og vinkonurnar gerðu með hinum upprisna Kristi og bera boðskapinn inn í framtíðina.

Því heimur Guðs er okkar gjöf, jörð sem við elskum og þarfnast elsku okkar og virðingar.
Okkar stærsta hlutverk er að spinna áfram úr þögninni framtíð veraldarinnar á ferð með frelsara sínum.  Vera manneskjur, sinna veröldinni, réttlætinu, umburðarlyndinu,
Sjá til himins sem er eins og tákn um samstöðu okkar.
Sami himinn sem er yfir Kína, Spáni og sá sami sem nú blasir heiður við yfir endurheimtri fjallasýninni til Himalayafjalla.

Páskafrásaga Markúsar samtvinnast deginum í dag.  Óvissan, breytingar, spurningar og léttur djass í lífinu þar sem alltaf er dansað á brúninni en reynt að ýta lengra og spinna.

Af því eins og guðspjall Markúsar segir þá var óvissa vinkvenanna sem komu að gröfinni að morgni dags yfirþyrmandi, þær sáu ekki, heyrðu ekki og skildu ekki.

Könnumst við ekki við þessar tilfinningar ?
Takk fyrir félagsskapinn góða, ótta ykkar og trúmennsku ,kæru vinkonur og hvernig þið minnið okkur á að páskamorguninn færir okkur nýtt upphaf, ný tækifæri til að túlka veröldina, skoða okkar eigin tilveru  - við höfum enn og áfram opnar dyr inn í framtíðina.

En inn í hina óræðu framtíð færir boðskapur upprisunnar von sem samtvinnast og hvílir í þessum gulbjörtu tónum páskanna og væntingum vorsins.  Færir okkur von til þess að við getum breytt veröldinni af því henni var breytt fyrir okkur.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er ekkert ljósara í dag en í fyrra eða þegar konurnar komu að gröfinni forðum eð þegar við sungum saman hér í Hallgrímskirkju á páskum liðinna ára.   Við þurfum að treysta forsjón Guðs, treysta hvert öðru, treysta yfirvöldum sem vilja svo vel og gera svo vel.

Og frásagan af upprisunni, óttinn, undrunin, allt hið óvænta skilur eftir sig rúm fyrir þína sögu, þitt líf.  Rúm fyrir spurningarnar, óvissuna, allt það sem við getum ekki vitað en vildum vita.  Fyrir vorið í lífinu, fyrir sumarið sem kemur eins og stendur í páskasálmi Sigurbjörns Einarssonar:
Gef oss þitt sumar
sólu þinni frá.
Kristur, kom og sigra,
kom þú og ver oss hjá.

 

Guðspjall: Mrk 16.1-7
Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“