Hvenær endar þetta eiginlega?

11. október 2020
Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael... ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema - er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Meðfylgjandi mynd sendi Ragnar Th. Sigurðsson, Arctic Images.

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“