Eru sumir dýrmætari en aðrir? Er verðmiðinn mismunandi? Eru einhverjir dreggjar samfélagsins og verðminni en hin sem eru mikils metnir borgarar. Fólk er vissulega flokkað í hópa eftir stöðu, efnahag, menntun og samkvæmt ýmsum stöðlum. En getur verið að við þurfum að gera okkur grein fyrir að manngildi er allt annað en verðgildi. Þú ert svo dýrmætur og dýrmæt að gildi þitt verður ekki metið til fjár. Gildi hjá Guði eru ofar peningagildi manna.
Samtalið
Jesú var boðið í mat. Símon gestgjafi var líklega góður karl, sem vildi tala um pólitíkina og trúmálin við Jesú Krist. Þetta var opið boð, svipað hádegisfyrirlestri og allir voru velkomnir. Fólk í nágrenninu mátti koma og hlusta á það, sem gesturinn hafði að segja.
Fundarstíllinn var af því tagi, sem Sókrates var kunnur fyrir. Þetta var algengur samkomuháttur í þessum heimshluta á þessum tíma, ekki aðeins meðal grískra menntamanna heldur líka gyðinglegra. Gestgjafinn og pallborðsfólk spurði og meistarinn svaraði. Síðan var rökrætt, dæmi tilfærð eða gátur lagðar fyrir. Sögur voru sagðar og gagnspurningar flugu og það sagt sem gæti þjónað málstað eða glætt skilning.
Hið einkennilega var að Jesús brá út af öllum venjum og siðum samfélagsins. Hann leyfði mellu að koma nærri sér, sem þótti ekki bara illt afspurnar, heldur siðferðilega og samfélagslega rangt. Hann leyfði henni líka að þrífa fætur sína, smyrja og nudda. Símon hefur örugglega orðið pirraður yfir að Jesús skyldi leyfa þessari borgarskömm að þjónusta sig og varpa þar með skugga á samkvæmið. Vegna tilfinningaviðbragðanna sagði Jesús Símoni sögu um tvo skulduga menn, sem fengu skuldaniðurfellingu. Annar fékk niðurfelldar fimm milljónir en hinn fimmtíu. Hvor ætli hafi verið þakklátari? Símon kunni hlutfallsreikning og svaraði því augljósu dæminu.
Í svona sögum af Jesú er oftast dramatískur viðsnúningur. Í þessari sögu beinir Jesús athyglinni að partískandalnum, að konunni alræmdu og byrjar að tala um mál hennar og stöðu, að hún hafi verið stórskuldug við Guð en hún iðrist einlæglega. Henni sé því fyrirgefið. Því sé hún þakklát og bregðist við með svona látum og yfirfljótandi þakklæti í fótanuddinu. Jesús gengur lengra og bendir Símoni veislustjóra á, að hann hafi lítið þakkað, gert lítið fyrir boðbera himins, lítils vænst, verið algerlega innan marka hins venjulega. Hann sé því ekki auðmjúkur gagnvart gjöfum lífsins og Guðs.
Auðvitað var þetta hastarlegt og rosalegt af Jesú. Símoni var vorkun. Hann var bara venjulegur maður sem vildi gera vel, efna til settlegra viðræðna sem gætu orðið til að bæta og efla fólk. Hann vildi siðsemi og vildi forðast að alræmd kona flekkaði heimili hans og blettaði æru hans. En Jesús bar hann saman við konuna á botni samfélagsins og hún fékk betri dóm! Hvers konar réttlæti er það? Og að baki er spurningin um manngildi og mannsýn.
Að tortryggja og endurmeta
Við getum haft alls konar skoðanir á að heimili sé flekkað af liði sem kemur utan af götunni óboðið? En aðalmálið er hvort við erum tilbúin að endurmeta hið mikilvæga og verðmæta.
Jesús þorði að spyrja erfiðra spurninga og fór stundum út fyrir hefðbundin mörk til að fá menn til að opna augu, eyru, hjörtu og líf gagnvart hinu mikilvæga. Og spámenn og skapandi hugsuðir þjóna hinu sama. Uppskurður fordóma er eitt, en hvað kemur svo í kjölfarið er annað og líka mikilvægt. Paul Ricoeur, franski heimspekingurinn, minnti á að meistarar tortryggninnar kenndu okkur að sjá fólk og málefni með nýjum hætti. Meistarar tortryggninnar eru þau, sem þora að efast um viðtekin sannindi, andmæla því, sem ekki stenst skoðun og leggja til aðrar log betri túlkunarleiðir en hinar hefðbundnu. Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullri einurð. En aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar.
Fólk í plús og fólk í mínus
Og þá aftur til hórunnar, Símonar og Jesú á tali um afstöðu og fólk. Í samtali gestgjafans og Jesú opinberar meistarinn, að Símon er á villigötum í afstöðu sinni því hann skilur ekki að jafnvel bersyndug kona er heilög. Símon var háður ákveðnum hugmyndum um hvernig tilveran ætti að vera og hvernig ekki. Kona, sem væri á kafi í sukkinu og saurlifnaðinum væri einfaldlega ekki þess verð að vera í samfélagi heiðarlegs og venjulegs fólks. Hún átti sér engrar bjargar von í þjóðfélaginu. Konan væri fyrir neðan mennskuna, ekki þess verð að vera boðið og allra síst þess verð að fá að nálgast þá félaga, trúarleiðtogana og guðsmennina. Þar kom í ljós að Símon aðhylltist mínus-mannskilning.
Jesús bendir hins vegar á að einmitt vegna þess, að konan hefði verið í hræðilegum málum og iðraðist væri hún meðtekin - henni væri fyrirgefið mikið af því hun hefði iðrast gerða sinna. Í þessari afstöðu Jesús kemur plús-mannskilningur Jesú berlega fram. Í hans huga, í afstöðu hans og ræðu kemur í ljós að manneskjan er heilög og á alltaf möguleika ef hún vill vaxa og breytast. Engu máli skipti hvað konan hafi gert ljótt af sér, hún eigi séns gagnvart Guði. Manngildið er grunnatriði og ef fólk tengir sig við líf og Guð sé mál þess endurskoðað og fólkið náðað, sem heitir réttlætt á máli Biblíunnar. Og það er þessi mannsýn í plús, sem er afgerandi. Fólk er guðdómlegt og hefur eilíft gildi. Manneskjur eru stórkostlegar, líka þau sem hafa hrapað á botninn, þau sem eru lítilsvirt, hötuð og hræðileg. Af því að fólk er heilagt á það alltaf að eiga séns og við eigum að skipa málum svo það geti fengið að rísa upp og ná að gera sín mál upp.
Þegar við förum að skoða með augum trúarinnar, með augum Jesú breytist sýn. Við megum gjarnan vera tortryggin um samfélag og tískur þess en við verðum framar öllu að halda í markmið og leiðir ástar Guðs. Öll, sem þú mætir, eru guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér, handan við fordóma og grillur. Allar mannverur eru ásjóna Guðs í þessum heimi. Manneskjan er heilög og við þurfum alltaf að æfa okkur í þessu partíi, sem mannlífið er, að sjá Guð birtast á óvæntan hátt.
Guð sér þig og elskar. Hvernig horfir þú á fólk er það með mínus eða í plús? Eigum við að setja verðmiða á fólk eða sjá strikamerki Guðs í sál allra manna?
Amen.
Textaröð: B
Lexía: Slm 32.1-7 (-11)
Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda. Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela) Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni. Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela) Biðji þig þess vegna sérhver trúaður meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi nær það honum eigi. Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði.
(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga,?ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Verið eigi sem skynlausar skepnur, hestar og múldýr; með beisli og taumi þarf að temja þær, annars koma þær ekki til þín. Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)
Pistill: 1Jóh 1.5-10
Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum. Ef við segjum: Við höfum samfélag við hann, og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: Við höfum ekki synd, þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: Við höfum ekki syndgað, þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.
Guðspjall: Lúk 7.36-50
Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.?Jesús sagði þá við hann: Símon, ég hef nokkuð að segja þér.?Hann svaraði: Seg þú það, meistari. Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira? Símon svaraði: Sá hygg ég sem hann gaf meira upp. Jesús sagði við hann: Þú ályktaðir rétt. Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið. Síðan sagði hann við hana: Syndir þínar eru fyrirgefnar. Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: Hver er sá er fyrirgefur syndir??En Jesús sagði við konuna: Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.