Að tapa í vítaspyrnukeppni er hluti af fótbolta en kynþáttaníð er það ekki. Evrópukeppninni í knattspyrnu lauk um síðustu helgi. Hundruð milljóna fylgdust með og horfðu á útsendingar. Margt var eftirminnilegt. Mörg lið spiluðu stórkostlegan bolta og gæði keppninnar voru mikil. Besta Evrópukeppnin til þessa, líka betri en 2016 þegar Íslendingar tóku þátt. Margir leikmenn blómstruðu og mörg lið hrifu. Ég ætla þó hvorki að nefna mína uppáhaldsleikmenn né lið. En mig langar til að tala innræti og manngildi og ástæðan er tvennt sem tengt er Evrópukeppninni. Í fyrsta lagi rosaleg viðbrögð við vítaspyrnukeppni lokaleiks keppninnar. Og hins vegar atburðir í fyrsta leik Dana. Hvort tveggja sláandi viðburðir sem höfðu afleiðingar.
Kynþáttaníð
Lokaleikur Evrópukeppninnar milli Ítala og Englendinga var æsispennandi. Vítaspyrnukeppnin í lok leiks var eftirminnileg og lauk með sigri Ítala. Ég ætla ekki að dvelja við hvaða þjóð sigraði heldur við eftirköstin. Þrír stórkostlegir knattspyrnumenn klúðruðu vítunum sem þeir tóku. Ástæðurnur voru margvíslegar og hefur verið rifist um þær í fjölmiðlum og fótboltagryfjum heimsins. Það sem vakti athygli flestra og skelfingu var að kynþáttahatur blossaði upp meðal margra sem héldu með Englandi. Þeir sem klúðruðu voru allir svartir. Þrátt fyrir áherslu knattspyrnusambanda heimsins, líka hins enska, að kynþáttamismunun skuli ekki liðin, var hellt úr skálum reiðinnar yfir þessa ólánssömu fótboltasnillinga. Stór mynd af einum þeirra, Marcus Rashford, sem er í Manchester var skemmd. Netmiðlarnir bólgnuðu af kynnþáttaníði og urðu um tíma eins og klóakstofnæðar. Hinir tapsáru opinberu alla veikleika sína í tapæðinu og helltu öllu því versta sem í þeim bjó yfir þrjá knattspyrnumenn sem voru svona ólánssamir að skora ekki. Engin mannvirðing, engin sjálfsvirðing - bara fordómar af verstu tegund. Ekki bætti úr að Boris Johnson, forsætisráðherran í London, sagði fordómamönnunum að skríða undir steinana sína þaðan sem þeir hefðu komið. Innanríkisráðherra tjáði að fótboltamenn ættu að æfa sig í íþrótt sinni en sleppa því að skipta sér af pólitík. En Marcus Rashford hefur beitt sér fyrir stuðningi við fátæk börn í Englandi og hlotið lof og medalíu fyrir. Kynþáttafordómarnir, sem voru opinberaðir, sýndu hve kynþáttasýkin er svæsin. Grunnt á illvígum fordómum. Enska knattspyrnusambandið hefur tekið vel á þessu máli. Enska landsliðið er einhuga í samstöðu sinni og landsliðsþjálfarinn axlar ábyrð og talar af mannvirðingu. Sem sé leikmenn og samband hafa unnið framúrskarandi með vandann. Að tapa í vítaspyrnukeppni er hluti af fótbolta en kynþáttaníð er það aldrei. Nú þarf að skjóta boltanum inn í netmöskva fordómanna og vinna hrottana í vítaspyrnukeppni mennskunnar.
Manndómur og töfrar í tánum
Í fyrsta leiknum sem Danir léku á mótinu féll Christian Eriksen skyndilega niður í fyrri hálfleik. Enginn var í nágrenni við hann svo hann meiddist ekki í samstuði. Öllum sem horfðu á leikinn var ljóst að eitthvað alvarlegt hafði gerst og að hann væri í lífshættu. Hann virtist missa meðvitund og hræðslan í andlitum leikmanna danska liðsins sannfærði mig og milljónirnar, sem horfðu, að hann hefði fengið hjartáfall. Landsliðsmennirnir Simon Kjær og Kasper Schmeichel gerðu sér strax grein fyrir aðstæðum, brugðust snarlega við þrátt fyrir djúpa angist. Þeir stilltu upp félögunum og mynduðu skjöld umhverfis deyjandi félaga þeirra meðan hjúkrunarfólkið mundaði hjartastuðtæki og vann að endurlífgun Christian Eriksen. Þeir, Kjær og Schmeichel, tóku utan um þá sem voru bugaðir, tóku konu Eriksen í fangið og veittu henni skjól og styrk. Þessir menn sýndu manndóm, siðvit, visku og þroskað innræti. Viðbrögð lækna og hjúkrunarfólksins á Parken í Kaupmannahöfn björguðu lífi Eriksens og danska liðið slípaðist við áfallið og spilaði betri fótbolta en búist hafði verið við þrátt fyrir að missa einn sinna bestu manna. Innræti Kjær og Schmeichel kom í ljós. Þeir sýndu hvað raunverulega skiptir máli. Að hafa töfra í tánum er mikilvægt í fótbolta en mikilvægast er að hafa töfra hið innra, hafa unnið með ótta og veikleika til að umvefja og styrkja fólk. Innræti er áunnið.
Það sem fer inn í okkur hefur áhrif
Því minnist ég fordóma og manndóm að textar þessa sunnudags eru um forsendur og innræti. Lexían talar um dýpri víddir manna sem Guð nærir, andlegt fóður sem er engu síður mikilvægt en hið líkamlega. Í pistlinum er talað um það sem er hið innra og knýr manninn áfram, annars vegar til góðs og einnig til ills. Þegar innrætið er vont verða verkin vond. Þegar unnið er með innri mann og hjarta mannsins verður eitthvað gott. Slæmt innræti og fordómar skadda fólk og umhverfi.
Svo er það guðspjallstexti dagsins sem er birtur í sálmaskránni. Jesús talar um súrdeig og flækja eða plot sögunnar varðar að Jesús var ekki að tala um brauð eða fiska eða hvaða brauðgerð menn iðkuðu og hvers konar súrdeig væri notað heldur að máli skipti hvað menn settu inn í sig, hverju menn leyfðu að flæða inn í huga og líf og sökkva til dýpta og móta. Við erum ekki bara skepnur og efnakerfi sem gerum allt samkvæmt eðlisávísun. Við erum meira. Við ráðum hvað fer inn í okkur, hvað stýrir okkur og hvernig við bregðumst við. Við ráðum hvort þessir fordómar eða hinir stýra tengslum okkar. Þrátt fyrir allt áreitið að innan og utan, forskriftir gena okkar og skothríð auglýsinga og áhrifa erum við samt frjáls um svo margt. Mannvísindin hafa opinberað vel að við erum hluti menningar, sem mótar. Að okkur er haldið hvað sé gott, hvaða gildi við ættum að virða og haugar af fordómum læðast að okkur og inn í okkur, taka sér bólfestu hið innra og verða eins og englar til góðs eða púkar sem stýra. Innræti kynþáttahatara kom berlega fram í æðinu og soranum eftir vítaspyrnurnar. Þar voru ekki bara einstaklingar sem ældu yfir fótboltasnillingana og síðan yfir allt og alla. Þar var líka rasísk menning sem átti fulltrúa og talsmenn í hrokagikkjum. Það er hlutverk okkar sem einstaklinga, hópa og þjóða að vinna með hið slæma og illa og laða fram og styrkja hið góða.
Guð og mannást
Jesús Kristur hafði jákvæða afstöðu gagnvart lífinu. Hann taldi að hlýðni við reglur væri ekki vænleg eða aðalmálið. Hann benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form, siðferði og kerfi manna. Jesús áleit að meginmálið værimannvirðing og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Það er þetta með ástartvennuna að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. og náunga þinn eins og sjálfan þig.
Krossinn sem tákn um okkar líf
Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú fyrir fótbolta, heimilislíf, vinnustaði, tengsl fólk og mannkyn. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.
IHS
Ísabella Helga Seymour, IHS, var fermd í dag. Hennar verkefni er að ganga þroskaveg, læra margt í skólanum til að hún hafi möguleika að nýta hæfileika sína vel í lífinu. Hennar verkefni er líka að þroskast sem manneskja, vinna með forsendur sínar og fordóma, læra að virða sjálfa sig, en líka að virða aðra mikils og læra að vinna með fordómana. Hún þarf í lífinu að ákveða hvað gerir henni gott og hvað sé illt og læra að leyfa aðeins því góða að fara inn og móta sig svo henni líði vel og geti tekið ákvarðanir til góðs fyrir sig og alla aðra. Hún þarf að læra að fótboltahæfni hefur ekkert með húðlit að gera og við erum öll elskuð óháð kynþætti, trú, kynferði og öðrum þáttum. IHS þarf að vera frjáls í jákvæðu sambandi við Guð.
Andlegt fóður, það býðst okkur í tengslum við Guð. Þegar við játumst Guði er okkur boðið að læra að horfa á heiminn með augum elskunnar. Læra að iðka kærleikann, leyfa hinu góða að fara inn í okkur og móta - og þora að vera.
Amen
2021 18. júlí, 7. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hallgrímskirkja. Ísabella Helga Seymour var fermd í messunni. Matthías Harðarson var orgelleikari dagsins. Frábær kvartett söng. Og Matthías spilaði Ungi vinur Oddgeirs Kristjánssonar sem útspil, sem hefur aldrei áður verið spilað sem eftirpil í áttatíu ára sögu Hallgrímskirkju. Söfnuðurinn var kominn í gírinn við útidyr. Það hefur áhrif á okkur það sem kemur til okkar og við hleypum að okkur!
Lexía: Am 8.11-12 Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn Guð,
að ég sendi hungur til landsins,
hvorki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni,
heldur eftir orði Drottins.
Þá munu menn reika frá einu hafi til annars,
flakka frá norðri til austurs
og leita að orði Drottins
en þeir munu ekki finna það.
Pistill: Heb 13.1-6 Bróðurkærleikurinn haldist. Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. Minnist bandingjanna sem væruð þið sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða þar eð þið finnið til eins og þeir.
Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.
Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. 6 Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Guðspjall: Matt 16.5-12 Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. Jesús sagði við þá: Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og saddúkea. En lærisveinarnir ræddu sín á milli að þeir hefðu ekki tekið brauð. Jesús varð þess vís og sagði: Hvað eruð þið að tala um það, trúlitlir menn, að þið hafið ekki brauð? Skynjið þið ekki enn? Minnist þið ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Hvernig má það vera að þið skynjið ekki að ég var ekki að tala um brauð við ykkur? Varist súrdeig farísea og saddúkea. Þá skildu þeir að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði heldur kenningu farísea og saddúkea.