Júlía og jurtirnar

25. apríl 2021


Í dag mun ég skíra stúlku sem býr í húsinu í grænmetisgarðinum hennar mömmu við Tómasarhaga í Reykjavík. Garðurinn var gróðurvin hverfisins frá miðri tuttugustu öld og frægur fyrir gæðakál, ofurrófur og gulrætur sem krakkarnir í nágrenninu laumuðust í. Mamma skammaðist ekki yfir rófnastuldi heldur taldi þvert á móti mikilvægt að koma vítamíni í ungviðið. Svo var í garðinum ræktað alls konar vel ilmandi krydd og fjöldi kartöflutegunda því mamma var tilraunakona eins og góðir ræktunarmenn eru. Hún hreifst af fjölbreytileika og litríki gróðurs og mannlífs. Þegar mamma hafði ræktað í garðinum í hálfa öld seldi hún lóðina, fylgdist svo með húsbyggingu og blessaði framtíðaríbúa. Mér þykir vænt um að fá að skíra fallega stúlku sem þar býr nú, ausa hana vatni, biðja henni blessunar sem og fjölskyldu hennar. Hún er óskabarn.




Garðrækt mömmu vakti athygli og Þjóðviljinn flutti þá fregn, að kona í Vestubænum ræktaði dýrustu karftöflur á Íslandi. Blaðið birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð við Tómasarhagann og því augljóst að konan var mamma. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu í röðum og báðu um lóðina. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð. Og enn vísaði pabbi á mömmu. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kál-ræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt, þetta er jú byggingarlóð?“ „Nei,“ sagði mamma ákveðin. „En gætuð þið ekki fengið betra garðaland hjá borginni?“ spurðu þeir enn. „Nei,“ svaraði mamma alveg skýrt. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað byggingamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Garðurinn var ekki falur fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta, sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.




Við pabbi og Kristín systir vorum vön atlögum hinna lóðargírugu og kipptum okkur ekki upp við áganginn. En svo komst ég að því að nágrannarnir gerðu grín að mömmu. Krakkarnir báru þessar fréttir og miðluðu af kostgæfni böðulsins. „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær út í búð eins og mömmur okkar? Eða kálið? Það fæst líka í KRON.“ Þegar við systkin bárum upp þessi eineltisefni settist mamma niður með syni og dóttur við eldhúsborðið og skýrði málið. Mamma var eldri en flestar hinar mömmurnar og hún hafði líka þroskað með sér stefnu og lífsleikni. Hún tilkynnti okkur slök og með hlýju í augum að henni væri alveg sama um hvað fólki fyndist um svona ræktun. Hún skýrði út að fólkið í sumum húsunum við götuna héldi að það væri fínna að vinna ekki moldarvinnu og vera ekki eins og fólkið í sveitinni. En því miður hefði það bara ekki skilið meira og verið þroskaðra en þetta. Svo hló mamma bara að Þjóðviljanum og nágrannaviljanum. Hún væri ræktunarkona sem hefði gaman af jurtunum og að auki væri það gott fæði sem hún byggi til. Hún væri frjáls, veldi sér atvinnu, sparaði heimilinu peninga sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál.




Þá var það skýrt og klárt. Mamma notaði tækifærið til að kenna eðli smáborgaraháttarins, mikilvægi góðrar næringar, neysluvenjur, rekstur heimilis og mikilvægi frelsis og sjálfstæðis. Svo ræktaði hún sitt dýra kál, seldi í KRON og Sölufélag garðyrkjumanna og sauð niður afganginn til vetrarins. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði, sem skapar og elskar fólk sem ræktar og hefur áhuga á lífríkinu. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinu þegar haustaði, ekki til að breyta hugsun þeirra, heldur af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims. Ræktun er siðlegt mál og félagslegt.




Svo var ramakvein og harmað á Tómasarhaganum þegar mamma nálgaðist nírætt og treysti sér ekki lengur til rækta í öllum 500 fermetrunum eins og áður. Þá tók hún skrefið og seldi garðinn. En hún átti enn horn í gömlu lóð afa míns og ömmu, Litlabæjarlóðinni. Mamma tók svo upp úr þremur kartöflubeðum síðasta haustið sem hún lifði! Grænt er sálarvænt.




Guðspjall dagsins varðar ræktun. Jesús boðar ræktunarguðspjall og að mannlífið væri tengt lífgjöf Guðs. Mamma þekkti gleðiboðskap Jesú að lífið þarfnast næringar og alúðar. Plöntur og menn þarfnast heilbrigðs samhengis. Menn þrífast best þegar flæði lífsnæringar er óheft. Guð ræktar vel og mennirnir njóta. Skírnarþegi dagsins er alinn upp í ræktuðu samhengi garðsins hennar mömmu. Í moldinni urðu máttarverk, allt ræktaðist vel og hluti af áburðinum voru elskulegar bænir móður minnar. Júlía Ósk er blessuð í dag og fjölskylda hennar líka. Ég held að græn elska mömmu lifi enn og bænirnar hennar skili enn blessun. Já blessun fylgi Júlíu sem er óskabarn og öllu hennar góða fólki. Ræktunin heldur áfram.

Myndin er af beðum móður minnar sem þá var á tíræðisaldri.