Jólin hans Hallgríms

21. nóvember 2016
Það er gaman að fara með börnunum í Hallgrímskirkju á aðventunni. Sýningin „Jólin hans Hallgríms“ verður opnuð í kirkjunni sunnudaginn 27. nóvember og stendur til 6. janúar. Þar er gömlu jólunum gerð skil, eins og þau voru þegar Hallgrímur Pétursson var lítill strákur á 17. öldinni.

Baðstofa hefur verið gerð á pallinum aftan við orgelið í Hallgrímskirkju. Þar er hægt að vitja jóla fortíðar. Sýningin, sem hentar börnum á öllum aldri, byggir á samnefndri bók Steinunnar Jóhannesdóttur og myndum Önnu Cynthiu Leplar. Í baðstofunni eru myndir og textar úr bókinni ásamt munum sem vísa til sögunnar. Gestir geta strokið lambi, leikið sér að leggjum og skeljum eins og Hallgrímur og systkini hans gerðu fyrir 400 árum og hlustað á jólasálminn vinsæla, Nóttin var sú ágæt ein, sem Hallgrímur lærir í sögunni.

Börnum á aldrinum 3 til 10 ára er boðið að koma í skóla- eða hópheimsókn. Tekið er á móti hópum með stuttri endursögn úr bókinni, börnin fá að skoða baðstofuna og leikföngin og vinna verkefni sem henta þeirra aldri. Hægt er að koma í hópheimsókn virka daga frá 28. nóvember og til jóla frá kl. 9 til 14 nema á fimmtudögum. Hver heimsókn tekur u.þ.b. klukkustund. Hópar geta bókað heimsókn með því að senda tölvupóst til Ingu Harðardóttur, æskulýðsfulltrúa Hallgrímskirkju. Netfang hennar er inga@hallgrimskirkja.is. Aðgangur er ókeypis.

Þótt margt hafi breyst á fjórum öldum er ýmislegt kunnuglegt við undirbúning jólanna hjá heimilisfólkinu í Gröf á Höfðaströnd þar sem Hallgrímur átti heima. Þá eins og nú kviknar ljós í hjörtum mannanna þótt myrkrið grúfi yfir.

Eru einhvern börn eða barnahópur sem þú vilt dekra við og fara með í eflandi ævintýraferð? Það er gaman að fara með börnin í bæinn á aðventunni og Hallgrímskirkja býður ykkur velkomin.

lambid

 

Sigurður Árni Þórðarson