Jónas Þórir á tónleikum á fimmtudaginn 16. ágúst kl. 12
14. ágúst 2018
Fimmtudaginn 16. ágúst kl. 12 leikur organisti Bústaðakirkju, Jónas Þórir, frjálsa tónsmíð sem nefnist Rhapsodía og er spunnin út frá helstu verkum George Gershwins, m.a. Rhapsody in Blue.
Miðaverð er kr. 2.000.
Miðasala hefst í anddyri kirkjunnar klukkustund fyrir tónleikana, en einnig er hægt að kaupa miða á midi.is.
Jónas Þórir (1956) byrjaði ungur að læra á fiðlu hjá Birni Ólafssyni konsertmeistara en orgelið og píanóið átti hug hans og hjarta. Hann lauk tónmenntakennaranámi og nam píanóleik hjá Halldóri Haraldssyni og tónsmíðar hjá Atla Heimi Sveinssyni. Jónas Þórir byrjaði að læra á orgel hjá Marteini H. Friðrikssyni og síðar hjá Herði Áskelssyni og Birni Steinari Sólbergssyni. Hann lauk kantorsprófi úr Tónskóla þjóðkirkjunnar og var við nám hjá Karsten Askeland í Bergen í Noregi. Jónas Þórir er mikilvirtur undirleikari hjá söngvurum og hefur einnig samið og útsett mikið. Hann starfar sem organisti í Bústaðakirkju.