Klikk, kikk og áramótaheit

03. janúar 2015
Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía: 4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: ?„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:? Drottinn blessi þig og varðveiti þig,? Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,? Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.? Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.