Íkón Íslands

25. október 2020

Ég byrja reisu mín,

Jesú, í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði.




Þessa ferðbæn orti Hallgrímur Pétursson. Fólk bað hana í upphafi ferða og þegar farið var  á sjó. Margt af því sem Hallgrímur samdi var á vörum fólks og til stuðnings lífinu. Svo hefur kirkjan á Skólavörðuholti fengið nafn hans og nú er hún orðin tákn. Hallgrímur var íkón þjóðarinnar um aldir og boðskapur hans flæddi um menningu okkar. En nú hefur kirkjan sem við hann er kennd líka orðið tákn. Myndir af kirkjunni hafa verið í auglýsingum í dagblöðum, í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Kirkjan eða útlínur hennar hafa verið á rútum og strætisvögnum. Kuku-campers var með Hallgrímskirkju á bílum sínum í sumar. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa notað kirkjuna sem baksvið fyrir auglýsingar s.s. Flugleiðir, Landsbankinn, Toyota og nú síðast líka Arionbanki. Ný púsl með glæsilegum Reykjavíkurmyndum notar Hallgrímskirkju sem meginefni. Kirkjan hefur birst á bókarforsíðum innlendum og erlendum. Þegar sýna á eitthvað stórkostlegt er kirkjan gjarnan í bakgrunni. Bílum er stillt nærri kirkjunni til að baksviðið sé flott. Ofurtrukkar líta jú betur út með Hallgrímskirkju í baksýn en við venjuleg íbúðarhús? Kvikmyndaframleiðendur bíða í röðum að fá að nota kirkjuna, úti og inni. Viðburðastjórar og auglýsendur virða og nýta táknmátt Hallgrímskirkju. Enginn staður landsins er vinsælli fyrir myndatökur en Hallgrímstorg og sjálfurnar sem teknar eru fyrir framan kirkjuna eru risabálkur í myndasafni alheimsins. Hallgrímskirkja rís eins og tákn úr náttúru og menningu Íslands og er orðin stórtákn í menningu heimsins. Hallgrímskirkja teiknar ekki aðeins sjónarrönd borgarlandslagsins heldur eru hún orðin íkón fyrir Ísland.

En fátt benti til þess þegar kirkjan var byggð. Hallgrímssókn er áttræður öldungur. Alþingi stofnaði sóknina árið 1940. Fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldar var byrjað á byggingu kirkjunnar. Fyrst var gerður safnaðarsalur, sem er nú hluti kórsins. Veggir kirkjuskipsins voru síðan steyptir upp en ákveðið var að bíða með flókna bogahvelfinguna og þakið þar til síðar. Það voru klókindi sóknarnefndar að fullgera ekki kirkjuskipið heldur ljúka turninum fyrst. Ef það hefði ekki verið gert hefði turninn líklega aldrei verið byggður. Árið 1974 var hægt að messa í Suðursal turnvængsins og tólf árum síðar, 1986, var kirkjan svo vígð 26. október. Kirkjan er síðan orðin í hugum útlendinga samnefnari þess sem íslenskt er, tákn fyrir þjóð og land. Íkón Íslands.

En nú eru engir ferðamenn. Coronaveiran hefur gerbreytt samfélagi okkar, stúkað okkur af í heimssamfélaginu. Við prestarnir finnum að kvíði fólks vex. Þráðurinn er styttri hjá fólki og afkomuáhyggjur ógna. Æ fleirum er orðið ljóst að heimurinn er breyttur. Í færslum samfélagsmiðlanna kemur fram að mörgum finnst ástandið orðið biblíulegt, í merkingunni mjög alvarlegt. Ástandið er vissulega skrítið, aðstæður mörgum skelfilegar, já biblíulegar því við þurfum að leita djúpt og skoða gildi okkar. Hvað gerum við gagnvart vá? Saga okkar Íslendinga er litrík saga um hvernig gert var í voða, vanda og þraut eins og segir í ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Úr reynslunni var unnið og til varð sjóður visku sem við megum gjarnan nýta okkur. Viska kynslóðanna á undan okkur er menning okkar og eiginlegur viskubrunnur sem við megum ausa af okkur til lífs og gagns.

Um aldir hefur fólk á Íslandi glímt við vá af ýmsum gerðum sem hefur haft áhrif á sjálfsskilning, samfélagsanda og trúarviðhorf. Jarðskjálftar, eldgos, háfísár, uppskerubrestur, barnadauði, sjávarháskar, myrkur og kuldakrumlur langra vetra höfðu áhrif. Íslendingar fengu ofurskammt erfiðleika. Nærri einn þriðji hluti hrauna sem runnið hafa í heiminum síðustu fimm hundruð árin eru íslensk. Á aðeins einum degi í mars árið 1700 létust 165 sjómenn hér á landi. Ef Bandaríkjamenn dæju í sama hlutfalli á einum degi myndu fjöldinn vera hátt í sjö hundruð þúsund Bandaríkjamenn. Blóðtakan var því mikil. Farsóttir gengu yfir þjóðina um allar aldir og fjöldi fólks dó. Samanburður á mannfjöldaþróun á Íslandi og í Noregi skýrir glögglega hve íslensk náttúra var fólki erfið. Í lok 11. aldar voru Íslendingar um 70 þúsund talsins en á sama tíma voru Norðmenn um 250 þúsund. Nærri aldamótunum 1800 hafði Íslendingum fækkað niður í 47 þúsund en á sama tíma hafði Norðmönnum fjölgað í átta hundruð og áttatíu þúsund. Fangbrögðin við líf og land tóku skelfilegan toll en menningin slípaðist, andinn fór á flug og viska þjóðarinnar varð til. Íslensk menning var þríeyki aldanna, almannakerfi andans, hjálp til að lifa. Lífsviskan spratt fram þrátt fyrir kröpp kjör og sorg. Líf þrátt fyrir dauða.

Eftir að ég lauk guðfræðinámi á Íslandi fór ég að læra trúfræði, heimspeki og guðfræðisögu í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Það var skemmtilegt að kynnast Suðurríkjunum á níunda áratugnum og hlusta á sögur fólksins úr öllum menningarkimum. Það var skelfilegt að kíkja inn í byssuskápa hinna herskáu, hörmulegt að hlusta á þjáningarsögur hinna jaðarsettu, en hrífandi að hlusta á pólitíkusa framtíðarinnar æfa sig á háskólalóðinni. Í minningunni lifir munur ofurríks yfirstéttarsamfélags og skelfilega fátækrar lágstéttar. Söguljóð kántrítónlistarinnar fengu merkingu í þessu teygða samfélagi misskiptingar.

Allt blandaðist þetta inn í guðfræðina og hugmyndasöguna sem ég var að lesa. Þegar maður fær nýja sjónarhól og fer að sjá menningu sína úr fjarlægð er hægt að endurmeta gildi og gæði. Ég fór að lesa klassísk rit íslenskrar menningar með nýjum hætti, ekki bara fornbókmenntir okkar, goðafræðina, Íslendingasögur og þjóðsögur heldur líka kristnisöguna. Sagnarfurinn og líka klassískir höfundar eins og Jón Vídalín, Hallgrímur Pétursson og síðari höfundar töluðu til mín með nýjum hætti. Mér fannst ég uppgötva hjartslátt landsins í andvörpum menningarhefðar Íslands. Og gerði mér grein fyrir að margt af því sem fólk orkti eða talaði um – lifði í munnmælum eða var sett á blað – voru viðbrögð við vá og dauða. Þetta voru lífstjáningar um hvað væri til gagns í lífsbaráttunni. Þetta var lífsleikniefni fortíðar, speki og almannavarnaefni. Í bland við góðar sögur og dásamlegt skemmtiefni var hægt að greina hvernig uppeldið var, mótun fólks og hvaða gildum var miðlað til að bregðast við náttúruvá, samfélagsmálum, lífi og dauða.

Allt fólk leitar merkingar og skýringa á lífi sínu og sinna. Og það er uppistaðan í vefnaði menningarinnar. Fólk Íslands glímdi við fæðuskort, sjúkdóma, ógnir náttúru og óréttlæti. Mér sýnist að Íslendingar hafi búið til merkilega menningu, sem hjálpaði fólki við að greina mörk, vá og samfélagsskipan. Þessa menningu kalla ég mæramenningu. Þetta reddast-hugsunin á Íslandi er ekki afstaða kjánans heldur á sér dýpri rætur í lífsreynslu kynslóðanna í erfiðum aðstæðum. Það er líka skýr siðfræði í þessari viskumenningu okkar á mærum. Allir skyldu þjóna öðrum. Einstaklingurinn var einn af mörgum og ætti að vera til hags samfélagi sínu. Hinn kristni boðskapur fléttaðist að lífsreynslu fólks og var túlkaður inn í aðstæður. Samábyrgð, kærleikur, hófstilling, trúmennska og auðmjúk ráðsmennska var til stuðnings í almannavarnahugsun fortíðar. Þegar augum látinna barna var lokað í hinsta sinn féllu tár en þá voru líka sögð huggunarorð um elsku himinsins og eilífðarfang Guðs.

Og hvað kemur svo þessi lífsviska íslenskrar menningar okkur við í covid-fári? Jú, við erum allt í einu að lifa biblíulega tíma kreppu, mæranna. Við ættum að staldra við og hugsa um voða vanda og þraut. Æ fleiri íhuga hvort coronaveiran sem nú hefur kvíað veröldina svo skelfilega sé afleiðing röskunar á jafnvægi náttúrunnar. Nútímalandbúnaður hefur skaddað náttúrujafnvægi sem þróast hefur í milljónir ára. Fæðuval hefur breyst og veirur smitast fremur á milli kerfa nú en áður. Víða hafa mörk ekki verið virt. Vatni hefur verið spillt í heiminum. Gengið er á vatnsbirgðir og vatnsstreitan vex. Og átök um vatn hefur og mun leiða til stríða og mannfalls ef fram heldur sem horfir. Lofstslagsvandi hefur á síðustu árum orðið ofurvandi okkar allra. Í viskuhefð okkar Íslendinga eru fyrirmyndir um hvernig á að taka á áföllum og vanda, hvernig eigi eða megi lifa við mæri og lifa af með reisn.

Klassísk menning og heildarhugsun vestrænna þjóða hefur rofnað. Afleiðingar eru siðferðisglundroði og mengaður samfélagsandi. Einstaklingshyggja og sérgæska er á kostnað heildarhyggju og samúðar. Þeir ríku og sterku reyna bara að tryggja hag sinn og er sama um hvort einhverjir líða út af í kjölfarið. Slík afstaða er algerlega þvert á mæramenningu Íslendinga. Sóunarafstaða einstaklingshyggjunar er þvert á visku okkar þjóðar.

Covidtíminn nú opinberar okkur mikilvægi þess að standa saman, verja hvert annað, passa upp á hin veikustu, axla ábyrgð og að við setjum ekki heilsukerfi okkar á hliðina. Við erum vissulega öll almannavarnir. En við þurfum sem samfélag að endurskoða hvernig við lifum og hver gildi okkar eru og lífsafstaða. Við höfum ekki óskertan rétt heldur ber okkur að elska og virða. Okkur eru gefnar miklar gjafir. Okkur er boðið til veislu eins og segir í texta dagsins. En þegar við virðum ekki gjafir lífsins, ríkidæmi náttúrunnar, gæði menningarinnar og velferð heimsins þá segjum við okkur úr lögum við það sem máli skiptir, töpum tengslum, upp, út og niður. Á máli trúleysingjans er það að sinna ekki siðferðisskyldu sinni. En á máli trúmannsins er það að bregðast kalli Guðs til hins góða lífs. Guð kallar okkur til veislu í lífinu, að njóta lífsgæðanna og að virða mörk og þarfir manna og náttúru. Við erum kölluð til að rækta tengslin við hið góða, siðlega, ábyrga og gleðilega. Við erum kölluð öll til veislu – boðið í partí sem er svo gott að það fer ekki úr böndum. En nú læðist kvíðinn um og mörkin færast nær. Æ fleiri upplifa þrengingar og hætt er við að veturinn verði mörgum þungbær. Þá er komið að tíma vitjunar. Við þurfum að þora að endurskoða, að ganga í okkur sjálf, meta gildi okkar og tengsl.

Hallgrímssöfnuður á afmæli. Hallgrímskirkja er ekki bara sjónarrönd eða íkón Íslands og aðalmarkmið ferðamanna, heimshelgidómur. Erindi þessarar kirkju, helgihalds hennar og menningarlífs er að segja góða sögu gegn allri vá heimsins. Það var verkefni Hallgríms Péturssonar með Pássíusálmunum. Hallgrímur hafði meiri áhuga á lífinu en dauðanum. Í eigin lífi hafði hann reynt að vonin lifir í þessum heimi af því Guð elskar og kemur til að veita líf. Að vita í von er að trúa. Meðan byggð helst í þessu landi verða sagðar sögur í helgidómum og á heimilum þessarar þjóðar um að lífið er sterkara en dauðinn. Að dauðin dó en lífið lifir. Meðan byggð helst í landi og heimi teiknar þessi helgidómur himinlínu Reykjavíkurborgar og turnspíran mun benda beint upp í himininn. Boðskapur þessa húss, erindi presta, djákna, organista, kórs og inntakið í hvísli helgidómsins er að Guð stendur með lífinu. Guð kemur og veitir von til lífs. Coronaveirur munu fara um heiminn, heimsbyggðin er við ýmis mörk sem verður að virða. En vonaróður lífsins verður tjáður og sunginn áfram í þessari kirkju meðan lífið lifir. Mæramenning Íslendinga er til lífs. Guð er nærri. Hallgrímur Pétursson segir í öðru erindi ferðabænarinnar sem reyndar verður sungin á eftir:

Í voða, vanda og þraut

vel ég þig förunaut,

yfir mér virstu vaka

og vara á mér taka.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru englaliði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Hallgrímskirkja, útvarpsguðsþjónusta, 25. október, 2020. Hljóðskrá á vef RÚV verður aðgengileg í einhvern tíma. Hljóðskráin er að baki þessari smellu.

Mynd SÁÞ.