Kór Hallgrímskirkju glansar á jólatónleikum

17. desember 2021
Fréttir
Jólatónleikar Kórs Hallgrímskirkju 16. desember 2021. Stjórnandi Steinar Logi Helgason.

Á jólatónleikum Kórs Hallgrímskirkju 16. desember kom í ljós að öflugur kór er orðinn til á stuttum tíma. Kórinn var stofnaður í september síðastliðnum. Kórinn, aðeins þriggja mánaða gamall, hefur þegar eigin óm og hljóm. Stjórnandi er Steinar Logi Helgason.

Dagskrá tónleikanna var sambland af klassískum jólasálmum, Maríuversum og latneskum texta- og tónlistararfi. Söngurinn var fágaður og flutningurinn “nýsköpun innan hefðarinnar.” Skipulag tónleikanna var hrífandi og vakti athygli heimamanna í Hallgrímskirkju. Kórinn nýtti alla kirkjuna í flutningi kvöldsins og í því var líka nýsköpun á grunni hefðar. Tónleikarnir hófust með söng kórsins að baki orgelinu, sem ekki hefur verið reynt áður. Ómurinn sem barst til eyrna tilheyrenda var með allt öðrum blæ en þegar kórar syngja í forkirkju og ganga síðan í kirkju. Snjallt. Augljóst er að kórinn nýtur skapandi „kóreógrafískrar“ snilldar. Tilfærslur í rýminu voru ekki aðeins frumlegar heldur gengu upp. Milliverk, sem Steinar Logi hafði samið fyrir tónleikana, lék Baldvin Oddsson, trompetleikari, af svölum orgelsins. Jóna G Kolbrúnardóttir, einsöngvari kvöldsins, söng með glæsibrag hvort sem var í víxlsöng móti kór í hinum hluta kirkjuskips eða í miðjum hópi.

Björn Steinar Sólbergsson, tónlistarstjóri Hallgrímskirkju, og Steinar Logi, söngstjóri, eiga mikið hrós skilið fyrir hve þeir hafa unnið af mikilli elju og yfirvegun að tónlistarmálum kirkjunnar á óvissu- og pestartímum. Kraftaverk. Þökk sé öllum þeim sem unnu að framkvæmd tónleikanna og leystu flókið verk með prýði við hinar nýju sóttvarnaraðstæður. Til hamingju Hallgrímssöfnuður með fullþroskaðan og metnaðarfullan kór og glæsilega frumraun.

mynd sáþ