Kór Hallgrímskirkju tekur þátt í 75 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands

07. mars

Kór Hallgrímskirkju tekur þátt í 75 ára afmælistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Kór Hallgrímskirkju ásamt Kór Langholtskirkju og Sinfóníuhljómsveit Íslands á 75 ára afmælistónleikum sveitarinnar í Eldborg í Hörpu frumfluttu í gær Darraðarljóð eftir Jón Leifs. Í kvöld verða aðrir tónleikar hljómsveitarinnar fyrir fullum sal Eldborgar, en einnig var leikið fyrir fullu húsi í gær. Önnur verk tónleikanna eru frumfluttningur á Glaðaspraða sem er nýr hátíðarforleikur eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur. Einleikari á tónleikunum er Víkingur Heiðar sem flytur fimmta píanókonsert Beethovens og lýkur tónleikunum með flutningi á Ein Heldenleben eftir Richard Strauss. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen.

Ef þið hafið áhuga á að horfa á tónleikana í beinni útsendingu í kvöld, föstudaginn 7. mars kl. 19:30 er hægt að fylgja þessari smellu á heimasíðu RÚV.

Hér að neðan er texti um Darraðarljóð Jóns Leifs eftir formann Kórs Hallgrímskirkju, Svanhildi Óskarsdóttur.

Íslenskar fornbókmenntir veittu Jóni Leifs (1899–1968) innblástur alla starfsævi hans. Þekkt er Sögusinfónían, þar sem kaflarnir fimm heita eftir þekktum persónum úr Íslendingasögum, en eddukvæði voru Jóni ekki síður hugfólgin. Í einu af elstu verkum sínum, frá 1924, tónsetur hann þrjár vísur úr Hávamálum, og þegar kom fram á fjórða áratuginn hófst hann handa við óratóríuna Eddu og lauk fyrsta hluta hennar, Sköpun heimsins, í ársbyrjun 1939. Rúm tuttugu ár liðu þar til raunverulegt framhald varð á smíðinni; annar hluti, Líf guðanna, var fullgerður árið 1966 en Jón lést frá lokahlutanum, Ragnarökum. Edda er sannkallað stórvirki, allir hlutar hennar langar og viðamiklar tónsmíðar. Samhliða vinnunni við seinni tvo hlutana, samdi Jón fleiri verk tengd fornbókmenntum en smærri í sniðum. Eitt af þeim er Darraðarljóð, samið fyrir blandaðan kór og hljómsveit með rausnarlegu slagverki. Textinn er kvæði undir edduhætti sem kemur fyrir undir lok Njáls sögu og því má segja að það brúi bilið milli Íslendingasagna og eddukvæða.
 
Í sögunni segir frá því að á föstudaginn langa, sama dag og Brjánsbardagi er háður á Írlandi (árið 1014), verður sá atburður á Katanesi í Skotlandi að maður, sem nefndur er Dörruður, gengur út og sér tólf menn ríða til dyngju einnar og hverfa þar inn. Hann fer á eftir þeim og leggst á glugga dyngjunnar. Inni sér hann konur sem hafa fært upp vef sem gerður er úr hauskúpum og þörmum manna. Þær kveða vísur sem hafa fengið heitið Darraðarljóð þótt kvæðið sé nafnlaust í sögunni. Í því er blóðugri orrustu lýst frá sjónarhorni valkyrja sem fylgja ungum konungi, sigursælum. Tónverkið túlkar þessa sýn í æsilegum rokum. Tónmálið er kunnuglegt úr öðrum verkum Jóns frá sama tíma, ekki síst þáttunum Valkyrjur og Einherjar í Eddu II; stíllinn hogginn, með sterkum áherslum, fimmundir og áttundir áberandi í hljómfærslu ásamt sjöundarstökkum, og raddsvið mannsraddarinnar þanið til hins ítrasta.
 

Starfsfólk og kór Hallgrímskirkju óska Sinfóníuhljómsveit Íslands til hamingju með afmælið! 

Myndir: SB

HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN STAÐUR!