Kórperlur með Schola cantorum á Allra heilagra messu í Hallgrímskirkju - sunnudaginn 4. nóvember 2018 klukkan 17

01. nóvember 2018

Kórperlur með Schola cantorum á Allra heilagra messu í Hallgrímskirkju


sunnudaginn  4. nóvember 2018 klukkan 17



Schola cantorum og Hörður Áskelsson


Efnisskrá:


MEDIA VITA  eftir John SHEPPARD 


MISERERE  eftir James MacMILLAN


REQUIEM eftir Kjell- Mörk KARLSEN


 


Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, heldur tónleika í Hallgrímskirkju sunnudaginn 4. nóvember á Allra heilagra messu, líkt og undanfarin ár. Að þessu sinni flytur kórinn þrjú áhrifamikil kórverk, Media vita eftir John Sheppard, Miserere eftir James MacMillan og Missa defunctorum eftir Kjell Mörk Karlsen. Stjórnandi er Hörður Áskelsson. 


Tónleikar Schola cantorum á Allra sálna messu undanfarin ár, þegar látinna er minnst, hafa notið mikilla vinsælda í kertum prýddri kirkjunni, þ.s. a cappella söngur kórsins nýtur sín einkar vel í hljómburði kirkjunnar.


Miðaverð: 3500 kr. Miðasala á midi.is og við innganginn 1 klst. fyrir tónleika.

Endurreisnartónskáldið John Sheppard (d. 1558) var uppi á Englandi á fyrri hluta 16. aldar. Hann skrifaði mikið af fjölradda kirkjutónlist. Eitt þekktasta verk hans er Media vita, 6 radda kórverk, sem er tvinnað í kring um gregorgst andstef við lofsöng Símeons, Nunc dimittis, “Nú lætur þú Drottinn, þjón þinn í friði fara”.

Skoska tónskáldið James MacMillan (f. 1959) hefur skipað sér sess sem einn fremsti höfundur kirkjulegrar kórtónlistar nú á dögum. Kórverkið Miserere frá 2009 fyrir 4-8 radda kór án undirleiks, er í senn aðgengilegt og krefjandi bæði fyrir flytjendur og áheyrendur. Texti verksins er 51. Davíðssálmur, um miðbik verksins hljóma 4 vers tónsett við sama stef og hið margfræga Miserere eftir Allegri byggir á.

Norska tónskáldið Kjell Mörk Karlsen (f. 1947) skrifaði Sálumessu fyrir kór án undirleiks til minningar um eiginkonu sína og var frumflutt fyrir þremur árum. Schola cantorum flutti verkið á allra sálnamessu 2016, hrifningin á verkinu kallaði á annan flutning í ár. 

Tónleikar þessir voru fyrirhugaðir á Allra sálna messu í fyrra, en fella þurfti tónleikana niður vegna óveðurs í Reykjavík.

 

Schola cantorum hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og mikið lof fyrir söng sinn bæði hérlendis sem erlendis. Kórinn var m.a. valinn "Tónlistarflytjandi árins" á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017.