Kvöldkirkja í Hallgrímskirkju 30. mars

28. mars 2023
Fréttir

Það verður kvöldkirkja í Hallgrímskirkju á fimmtudaginn kemur, 30. mars kl. 20-22. Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundnu helgistundirnar, sem fólk hefur áður upplifað. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur hefur möguleika að ganga um kirkjurýmið, setjast niður, færa sig og finna nýjan stað. 

Kvöldkirkjan er óhefðbundin stund að formi og innihaldi. Andrúmsloftið er óformlegt og afslappað. Kirkjan er lýst með kertaljósi og stuttar íhuganir og tónlist er í bland við alltumliggjandi þögn rýmisins. Við bjóðum þér að hugleiða, biðja, kveikja á kertum, fara á milli mismunandi stöðva í kirkjunni, skrifa niður hugsanir þínar eða bænir eða bara sitja í bekkjunum eða hvílast á dýnum í ró og kyrrð kirkjunnar.

Það verður altarisganga kl. 21.00. Tónlistarmaðurinn Futuregrapher spilar tónlist. 

Verið hjartanlega velkomin í kvöldkirkju.