Legg mér Drottinn ljóð á tungu - Messa, sunnudaginn 16. febrúar í Hallgrímskirkju

19. febrúar
Prédikanir og pistlar, Prestar

Legg mér Drottinn ljóð á tungu
Messa, sunnudaginn 16. febrúar í Hallgrímskirkju

Við upphaf messunnar: Í söfnuði sem á sér langa sögu, byggingarsögu, tónlistarsögu, sálmasögu og prédikunarsögu sem mótuð er af svo mörgum af eldmóði og krafti sem Guð blæs í brjóst. Það er í anda virðingar og þakklætis að muna þau sem á undan okkur eru gengin en gáfu svo margt inn í framtíðina.

Sr. Karl Sigurbjörnsson þjónaði hér í Hallgrímssöfnuði um 23 ár eða þar til en hann var vígður til embættis Biskups Íslands árið1997. Hann gengdi því embætti um 14 ára skeið en þjónaði síðar um tíma sem prestur í Dómkirkjunni í Reykjavík.

“Legg mér Drottinn, ljóð á tungu.
ljóð sem bjartir englar sungu”
Yfirskrift messunnar hér í dag í Hallgrímskirkju er einmitt þessi ljóðlína úr einum sálma sr. Karls úr sálmbók íslensku kirkjunnar (707)
Við heiðrum minningu sr. Karls með því að syngja sálma hans hér í dag og endum á að syngja sumarsálminn góða- “Nú skrúða grænum skrýðist fold “ (nr. 766a í sálmbókinni) og ræsum aðeins vorið í hjarta okkar um leið. Það á líka vel við þegar við finnum að magn dagsbirtunnar eykst með hverjum degi.

Blessuð sé minning Karls Sigurbjörnssonar og þakkir fyrir arfleifð hans hér í Hallgrímskirkju og meðal Hallgrímssafnaðar.

Tökum vel undir í sálmasönginn og látum kirkjusönginn óma.

Orðum mínum til áherslu vitna ég í hirðisbréf Karls, Í birtu náðarinnar:
“Þegar söngurinn fyllir helgidóminn þá óma tré og steinn eins og feginsandvarp allrar sköpunarinnar …..
Og mannshjartað lýkst upp, það hjarta sem var skapað til að svara ávarpi Guðs.
Englar og menn, himinn og jörð mætast og fagna saman í birtu náðar Guðs.“

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir