Prédikunarstóllinn: 1. febrúar 2025 / Leggjum á djúpið!

06. febrúar
Prédikanir og pistlar

Leggjum á djúpið!

Prédikunarstóllinn: 1. febrúar 2025 / 4. sunnudagur eftir þrettánda

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Sólin hækkar á lofti og birtutíminn lengist dag frá degi. Það er Kyndilmessa og hér fyrr á árum var því veitt athygli hvernig sæist til sólar á þessum degi og þá var talið að hægt væri að segja til um veðurlagið í farmhaldi. Hvort eitthvað raunhæft sé til í því skal ósagt látið. Hins vegar vitnar þetta um það hversu mikilvægt veðrið og veðurfarið var í lífi og lífsbaráttu forfeðra okkar. Þar gat brugðið til beggja vona, milli lífs og dauða hvernig seinni hluti vetrar og vorið yrði, bæði fyrir menn og búpening.

Þær hafa því ekki verið ófáar bænirnar fyrir veðrinu sem beðnar hafa verið frá innstu hjarta rótum hér á landi.

Guðspjallið segir einmitt frá einni slíkri bæn sem beðin var í mikilli angist og raunverulegum lífsháska. Þetta er eins og við heyrðum lesið hér áðan, hin alkunna frásögn af því einstaka kraftaverki Jesú að lægja bæði vind og vatn. Hana er að finna í öllum þremur samstofna guðspjöllunum.

Þarna sjáum við dæmi þess að á augnabliki hafa aðstæður breyst þannig að fólk er í alvarlegum lífsháska. Og hvað gerir fólk þá? Það biður fyrir sér. Staðreyndin er sú að það gera víst flestir, jafnvel þótt þeir að öðru leyti gefi trú ekki mikinn gaum.

Getur verið að undirliggjandi í þessari frásögn sé að finna spurninguna um hugleysi og kjark. Í orðinu hugleysi má segja að felist að það vantar eitthvað mikilvægt það skortir skarpa hugsun og úrræði frammi fyrir aðsteðjandi vanda. Þetta er einmitt alþekkt fyrirbæri að í hættulegum aðstæðum þá getur það gerst að óttinn nær yfirhöndinni, fólk missir einbeitingu, finnur ekki hvað hægt er að gera svo afleiðingin verður verra tjón en það hefði þurft að vera.

Kristur ávítar þá félaga sína áður en hann vinnur hið undursamlega kraftaverk, hví eruð þið hræddir? Spyr hann þá. Nú skyldi enginn halda að hér sé verið að halda því fram að ekki sé oft á tíðum full ástæða til þess að vera hræddur og raunar er það nauðsynlegt til að skynja hættur og gera sig ekki sekan um fífldirfsku og vanmat á aðstæðum.

Það sem um er að ræða er mikilvægi þess að halda ró sinni og einbeitingu þegar hættulegar aðstæður koma upp og þá er bænin mikilvæg og vitundin um æðri mátt. Ekki til að vinna verkin fyrir sig heldur til þess að finna sig í öruggu skjóli á andlegan hátt. Og í hættulegum aðstæðum er trúin óendanlega mikilvæg.

Kraftaverk Jesú er dýrmætt tákn um kærleika Guðs. Og það er einmitt kærleikurinn sem er lykilhugtak trúarinnar.

Við heyrðum þetta áréttað í pistli dagsins þar sem Páll postuli talar um trúna á Jesú Krist og hvernig hún birtist okkur: Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað.

Þetta eru hvorki mörg orð né flókin en við vitum öll að það er ekki einfalt að fylgja þeim, það er satt að segja eitt það flóknasta sem hægt er að takast á við. Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein þess vegna er hann uppfylling lögmálsins. Í raun er hann að segja að það sé engin þörf fyrir flókna og langa lagatexta um það sem má og má ekki, langar runur af boðum og bönnum. Ef við aðeins getum haldið okkur við þetta góða lögmál sem birtist í Gullnu reglunni. Að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Þannig er þetta með boðskap frelsarans Jesú Krists að leiðsögn hans er í senn einföld og skír um leið og hún er líka flóknari og dýpri en svo að nokkur mannlegur hugur geti náð utan um hana til skilnings í heild sinni.

Við settum sem yfirskrift þessarrar messu þessi orð: „Leggjum á djúpið.“ Margir kannast við fallegan sálm sem víða var sunginn í fermingum því þar er meðal annars að finna erindi sem byrjar svona: „legg þú á djúpið, þú sem enn ert ungur og æðrast ei þótt róður lífs sé þungur.“

Nútímalíf leggur mikla áherslu á þægindi. Allt á að vera auðvelt og notalegt og einfalt. Auglýsingarnar dynja á okkur um hið einfalda, þægilega líf sem hægt er að kaupa, nýr stóll, nýtt rúm, nýr bíll alltaf eitthvað sem er einfaldara, auðveldara og betra en áður. En er það endilega það eftirsóknarverðasta að hafa allt svona einfalt og auðvelt? Erum við ekki einmitt þannig gerð flest að við viljum mæta einhvers konar áskorunum og mótstöðu, við viljum hafa fyrir hlutunum og vinna okkur fyrir hvíld og góðum bita. Til þess þarf að þjálfa með sér þrautseigju og þolgæði og getu til að láta á móti sér.

Við þurfum að rækta með okkur hugrekki og kjark til að þora að vera við sjálf. Þora að standast áreiti og úrtölur og freistingar. Það þarf kjark til að tala máli kærleikans frammi fyrir valdhöfum líkt og við sáum í sjónvarpi frá Ameríku nýlega. Og það var eins og almenningsálitið hrykki við. Það er eitthvað að finna í hinum kristna boðskap sem skiptir máli og talar inn í raunverulegar aðstæður. Sú tilhneiging sem lengi hefur verið við lýði að afgreiða kristindóminn sem gamaldags og úrelta orðræðu og forða sjálfum sér þannig frá því að horfast í augu við sjálfan sig og alla sína eigin breyskleika, hún var allt í einu ekki svo sjálfsögð.

Það er engum til góðs að hrekjast endalaust til og frá undan vindum tíðarandans og rétt aðeins snerta yfirborðið á sérhverri hugsun og orðræðu. Og það sem meira er það er líka innantómt og gelt.

Við þurfum meira innihald meiri kjarna meiri dýpt. Og til þess þarf einmitt kjark og þor og dug til að leggja á djúpið og búa sig undir að fá á sig kaldar öldur beint í andlitið, búa sig undir það að þurfa að ausa og andæfa upp í vindinn og taka svo saman á árum þegar færi gefst samtaka og samhuga. Þannig sóttu forfeður okkar björg í greipar ægis á þunnum bátsskeljum og sættu færis milli öldutoppa að komast heilu höldnu með feng sinn upp í fjöru.

Samfélag þar sem hver hönd er uppi á móti annarri, hver orðræðan ætluð til að fella þá næstu er eins og sérhver ræðari veifi sinni ár eftir eigin geðþótta, ekkert gerist, en lífið er að veði þegar næsta brot ríður yfir. Þá getur það gerst að brimaldan moli árablöðin og hvolfi bátnum. Það hefur gerst og getur sannarlega gerst aftur en það er hægt að afstýra slysum. Með góðum vilja, með velvild og kærleika um fram allt samstöðu þá er hægt að vinna kraftaverk.

Tími kraftaverkanna er nefnilega ekki liðinn. Þau eiga sér stað í stóru sem smáu allt um kring. Við komum ekki alltaf auga á þau eða jafnvel leiðum þau hjá okkur því það fellur ekki inn í hina stöðluðu lífssýn að viðurkenna slíkt.

Trúin á Krist kallar okkur til þess að leggja á djúpið í fleiri en einu samhengi, hún hvetur okkur til þess að leggja lið sannleikanum og réttlætinu í stóru sem smáu. Hún hvetur okkur líka og ekki síður til þess að kafa í okkar eigin hugarfylgsni og horfast í augu við tilfinningar okkar, sögu okkar og ákvarðanir í lífinu, ekki til að banda því frá okkur og kveikja á næstu afþreyingu heldur til að vinna með það, horfast í augu við það og finna raunverulegar lausnir og ráð.

Þá er gott að vita af Jesú Kristi um borð í bátnum með okkur til að lægja öldur og stilla vind. Í Jesú nafni amen.

 

Sr. Eiríkur Jóhannsson, prestur í Hallgrímskirkju

Lexía: Jes 40.25-31

Við hvern ætlið þér að líkja mér,
hver er jafningi minn? spyr Hinn heilagi.
Hefjið upp augun og horfið til himins.
Hver hefur skapað allt þetta?
Það er hann sem kannar her stjarnanna, allan með tölu,
nefnir þær allar með nafni.
Þar sem hann er mikill að mætti og voldugur að afli
verður engrar vant.
Hvers vegna segir þú, Jakob,
hvers vegna talar þú svona, Ísrael:
„Vegur minn er hulinn Drottni,
Guð minn skeytir ekki um rétt minn.“
Veistu ekki eða hefur þú ekki heyrt
að Drottinn er eilífur Guð
sem skapaði endimörk jarðar?
Hann þreytist ekki, hann lýist ekki,
viska hans er órannsakanleg.
Hann veitir kraft hinum þreytta
og þróttlausum eykur hann mátt.
Ungir menn þreytast og lýjast,
æskumenn hnjóta og falla
en þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft,
þeir fljúga upp á vængjum sem ernir,
þeir hlaupa og lýjast ekki,
þeir ganga og þreytast ekki.

Pistill: Róm 13.8-10

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Guðspjall: Matt 8.23-27

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“