Breytingar verða á helgihaldi, barnastarfi, fræðslu og öðru starfi Hallgrímskirkju næstu fjórar vikur í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda um samkomubann vegna Covid-19.
Allt helgihald, fræðsla, barna- og unglingastarf fellur niður samkvæmt tilmælum frá biskupi. Það felur í sér að messur falla niður á sunnudögum og miðvikudagsmorgnum. Barna- og unglingastarfið fellur niður sömuleiðis. Engar fræðslusamverur verða heldur. Bænastundir falla niður á þriðjudögum sem og kyrrðarstundir á fimmtudögum. Þá verða engar kóræfingar meðan á samkomubanninu stendur.
Kirkjan er opin alla daga
Hallgrímskirkja verður áfram opin kl. 9-17 alla daga fyrir þá sem þangað vilja sækja hvort sem er til bæna, íhugunar eða til að njóta fegurðar kirkjunnar og útsýnisins úr turninum. Þó með þeim fyrirvara að ekki séu fleiri en 100 manns í kirkjunni á hverjum tíma þar sem að lágmarki er haldið 2ja metra fjarlægð og munu kirkjuverðir hafa yfirsýn yfir það.
Allt kapp er nú lagt á hreinlæti. Handsótthreinsir er staðsettur víðsvegar um kirkjuna, þó sér í lagi við verslun og lyftu auk allra snyrtinga. Þá er strokið af öllum helstu snertiflötum reglulega yfir daginn með sóttheinsandi efni s.s. posa, lyftu, handriðum, hurðarhúnum og fleira.
Sérstök tilmæli eru gerð til ferðafólks sem heimsækir kirkjuna um að deila ekki turnlyftunni með öðrum, nýta kort eða síma til að greiða með í stað seðla, halda tveggja metra fjarlægð milli sín og annarra og nota handsótthreinsi.
Kirkjuvörðum hefur verið skipt í tvær vaktir sem munu ekki skarast í þessar fjórar vikur. Er þetta gert til að auka líkurnar á að Hallgrímskirkja haldist opin meðan veiran gengur yfir.
Við munum endurskoða þessa áætlun reglulega í samræmi við þróun mála í samfélaginu.
Með kærleikskveðju frá starfsfólkinu í Hallgrímskirkju