Ljósverk Sigurðar Guðjónssonar

04. febrúar 2023
Fréttir
Fuser Sigurðar Guðjónssonar

Vetrarhátíð 2023 var sett við Hallgrímskirkju 2. febrúar. Að venju var hátíðin opnuð með ljósverki á kirkjuveggnum. Í ár er það Fuser, verk listamannsins Sigurðar Guðjónssonar, sem liðast eftir vegg kirkjunnar. Sigurður var fulltrúi Íslands á Feneyjabienalnum á síðasta ári. Hann hefur einnig sýnt í Hallgrímskirkju. Í janúar-mars 2015 sýndi hann magnþrungin vídeoverk í forkirkjunni sem nefndist Tenging. Nöfn sýninga Sigurðar í og við kirkjuna tjá laðandi og kitlandi framvindu. Tenging sem var hefur nú - átta árum seinna - orðið að einingu – Fuser! Ljós á kirkju og ljós í kirkju.

RÚV gerði opnun vetrarhátíðar góð skil. En vegna veðurs guðuðu sjónvarpsmenn á glugga kirkjunnar og óskuðu eftir að fá að sjónvarpa beint innan úr kirkjuskipinu. Leyfið var veitt og hópur dansara voru að baki Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur, Kastljósi, sem kynnti dagskrá vetrarhátíðar. Það er gott kirkjuskjólið í Hallgrímskirkju.

t/m sáþ