Mannaborg - Guðsborg

06. júlí 2015


Listsýning Rósu Gísladóttur í forkirkjunni og á Hallgrímstorgi nefnist Borg Guðs. Það hefur verið gjöfult að skoða og íhuga þessa sýningu. Borg Guðs – heitið minnir á rit Ágústínusar kirkjuföður, kastalaborgir miðalda og rómantískar draumborgir 19. aldar bókmennta. Og minnir líka á þann rismikla sálm Marteins Lúthers: Þú Guð, ert borg á bjargi traust.

Verk Rósu eru fjölbreytileg. Á einum veggnum er gullglansandi helgiskrín sem vekur margar spurningar. Síðan eru tvær svífandi, samsettar himinborgir eða helgiheimar hangandi í loftinu. Þessar upphöfnu veraldir hafa hrifið ferðamennina sem príla upp tröppur til að skoða og taka myndir.

Annars vegar er tvenna klausturs í Armeníu og bæjarins á Keldum á Rangárvöllum. Nokkrir Armenar komu í heimsókn í kirkjuna fyrir skömmu og spurðu óðamála hvað þetta ætti eiginlega að þýða að setja líkan klaustursins, sem þau þekktu svo vel, með þessum ókunna bæ. Þeir róuðust þegar þeir fengu að vita að ermskir (armennskir?) guðsmenn hefðu komið í kirkjuerindum til Íslands fyrir öldum.

Hinum megin gangsins er þrenna stíliseraðra helgihúsa, mosku og sýnagógu í Berlín og Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þessi samsetta þrenna minnir á sameiginlega rót fléttu trúarbragða gyðingdóms, Islam og kristni. Öll hafa sprottið úr hinum hebreska átrúnaði og ritum.

Þegar fólk hefur beðið eftir að komast í lyftuna upp í turn hefur sýningin orðið mörgum þeirra dásamleg uppljómun. Það eru forréttindi að standa í röð með svo elskulega krefjandi listaverk allt í kring.

Spegillinn


Eitt verka Rósu er úti og fyrir framan kirkjuna. Það er hringspegill sem fólk gengur að og sér sjálft sig og alveg sama hvernig það hreyfir sig, sjálfsmyndin er þarna. Eins og Guð væri að horfa: „Þarna ertu, ég sé þig, þú ert fyrir augliti mínu, ég er þér svo nærri sem þú vilt, eða fjarri sem þú óskar.“ Marteinn Lúther notaði setninguna Coram Deo til að minna okkur menn á að við værum alltaf fyrir augum Guðs, frammi fyrir ásjónu Guðs. Og ein bóka Sigurbjarnar Einarssoar, sem einu sinni þjónaði þessum söfnuði, heitir Coram Deo - fyrir augliti Guðs.

Sýning Rósu hefur vakið þanka um návist hins guðlega í lífi fólks, spurningar um hvað geti verið og sé borg Guðs og hvernig. Ég gleðst þegar listaverk vekja viðbrögð en er hvað þakklátastur þegar þau kveikja tilvistarspurningar, bæta í menningarvefinn og stækka veröld fólks.

Fólk á ferð


Fólk kemur í þessa kirkju og sækir landið heim. Íslendingar eru á ferð um land og heimsbyggð. Fólk er á ferð. Söngsveinar, drengir, frá Fjóni í Danmörk koma til að gleðja okkur með söng sínum. Í samræmi við ferðagleði tímans er á dagskrá þessa messudags ferðatexti úr Nýja testamenntinu. Jesús er á ferð til Jerúsalem. Við heyrum lýsingu einhvers sem hafði orðið vitni að biblíulegu uppþoti í ferðahóp Jesú. Ferðafélagarnir höfðu ólíkar skoðanir. Jesús tjáði stefnu sem Pétur, vinur hans, var ósamála. Pétur skammaði m.a.s. Jesú og vildi umsnúa honum. Og hvað var svona skammarlegt? Ekki að Jesús væri á ferð til borgar Guðs, Jerúsalem, heldur ferðarerindið. Jesús talaði um að hann að myndi deyja.

Það var sú dauðastefna sem gekk fram af Pétri. Hann vildi skiljanlega Jesú fremur lífs en látinn. Hann batt vonir sínar við menningarlegan, trúarlegan og pólitískan frama Jesú og skildi hlutverk hans sínum skilningi og vænti mikils. Því bæði reiddist hann og hræddist ferðaplan Jesú Krists. Orð Jesú um að hann færi til borgarinnar til að láta lífið taldi Pétur ekki aðeins lélegan húmor, heldur óábyrgt tal.

Vík burt Satan


Pétur var allt í einu kominn í hluverk fjölmiðlaráðgjafa sem bannaði aðalmanninum að tala frjálst. Jesús var á leið til borgar Guðs með dauða í huga og hjarta – en Pétur var hornóttur og skömmóttur. Viðbrögð Jesú eru mikil og hann segir við sinn besta vin og félaga: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Pétur - þessi sem Jesús útvaldi til að verða hornsteinn heimskirkjunnar – er allt í einu kominn í hlutverk djöfulsins – orðinn hið illa. Það er rosalegt, sjokkerandi og íhugunarvert. Eigum við að afskrifa þetta sem pirring Jesú? Var hann bara í örgu skapi og skeytti sér á þeim sem næstur var? Eða var annað og meira að baki?

Ég held ekki að Jesús hafi allt í einu álitið að Pétur væri djöfullinn. Ég held ekki heldur að hann hafi verið fúll og skeytt skapi sínu á vini sínum. Ég álít að þetta hafi verið ígrunduð setning og afstaða, sem varðar ekki einn karl í fornöld heldur líka okkur sem erum á ferð í þesari kirkju öldum síðar, alla ferðalanga sem hingað koma, öll þau sem horfa á Guðsborgarverk Rósu, mannabörn heimsins. „Vík frá mér Satan“ er setning sem á við okkur öll, er eins og sjónskífa Rósu úti fyrir kirkjunni. Við erum fyrir ásjónu Guðs. Viltu vera á réttum vegi? Tekur þú sönsum?

Möguleiki til djöfulskapar


Satan er ekki goðsöguleg vera sem sprettur einstaka sinnum fram í vondu fólki. Við þurfum að temja okkur lifandi sýn varðandi hið illa og veruleika þess. Goðsagan er óþörf en mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir möguleika okkar allra til ills. Satan er tákn, safntákn fyrir allt það sem hindrar líf, gæsku, gleði, hamingju og trú fólks í þessum heimi. Ég get orðið Satan þegar ég set sjálfan mig í gegn Guðs góða vilja og að fólk og líf fái notið sín. Þú getur orðið Satan þegar þú horfir of smátt á sjálfa þig eða sjálfan þig, vilt ekki njóta þess góða sem Guð gefur þér alla daga, hindrar hið góða vegna eigin hags, þegar þú vilt ekki horfast í augu við að Guðsríkið skiptir mestu máli í öllu lífi, öllum heimi – líka þínum.

Val okkar alla daga


Við höfum tilhneigingu til að einfalda orð og verk Jesú Krists og taka einfeldningslega því sem hann sagði. Við gleymum oft að orð hans skírskota til lífs allra manna á öllum öldum, líka mín og þín. Erindi hans í texta dagsins varðar ekki aðeins Pétur í líki örvæntingarfulls fjölmiðlafulltrúa, heldur þig í þínum aðstæðum. Viltu hlusta á erindi Guðs við þig? Ef þú hugsar smátt, vilt bara þínar aðferðir, skilur of þröngt - ertu í svo alvarlegum aðstæðum að þær eru djöfullegar. Við getum í afskiptaleysi eða eigingjörnum aðgerðum orðið Satan í lífi fólks. Hið illa er ekki goðsöguvera heldur lifnar í sjálfhverfu fólks og öllum smásálarskap eða hroka. Guð er Guð lífsins en hið djöfullega eyðir lífi. Guðsborgin er borgin þar sem lífið fær að blómstra.

Verkin hennar Rósu eru hvatar til menningarlesturs og sjálfskoðunar. Orð Jesú eru vakar til lífs. Þú getur gotið augum til listaverkanna, horft á þig í speglinum og skellt skollaeyrum og látið þig litlu varða. Þú getur einnig afskrifað orð Jesú sem pirring og fýlutal – en þá ferðu jafnvel á mis við lífið og þitt eigið sjálf. Má bjóða þér að horfa, hlusta og upplifa hið merkilegasta?

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“

Þannig mælir Jesús Kristur. Lifir þú í Guðsborginni eða aðeins í mannaborg? Það er hin róttæka spurning hvers dags í lífi okkar.

Amen.

Prédikun Sigurðar Árna Þórðarsonar í Hallgrímskirkju, 5. júlí, 2015.

Textar fimmta sunnudags eftir þrenningarhátíð. Textaröð B.

Lexía: Jer 15.19-21

Þess vegna segir Drottinn:

Viljir þú snúa við sný ég þér

svo að þú getir aftur þjónað mér.

Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg

skaltu vera munnur minn.

Þá leita menn til þín

en þú mátt ekki leita til þeirra.

Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg

til að verjast þessu fólki.

Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig

því að ég er með þér,

ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.

Ég bjarga þér úr höndum vondra manna

og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

 

Pistill: Post 26.12-20

Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

 

Guðspjall: Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?