Þennan sunnudag sem er fimmti sunnudagur eftir páska er messa og barnastarf í Hallgrímskirkju kl. 11. Allir hjartanlega velkomnir.
Dr. Sigurður Árni Þórðarson mun prédika og þjóna fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Hörður Áskelsson. Umsjón með barnastarfinu hefur Inga Harðardóttir. Þennan dag mun vera tekinn samskot til Samhjálpar. Kaffisopi eftir messu.
Verið velkomin.
Lexía: Jer 29.11-14a
Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.
Pistill: 1Tím 2.1-6a
Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.
Guðspjall: Jóh 16.23b-30
Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.
Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.
Lærisveinar hans sögðu: Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.