Messa og barnastarf sunnudaginn 17. janúar kl. 11

15. janúar 2016


Séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Barnastarfið er í umsjá Ingu Harðardóttur. Kaffisofi eftir messu.

Verið hjartanlega velkomin.

Sálmar:

214 Gakk inn í Herrans helgidóm

850 Hver stýrir veröld styrkri hönd

848 Allt sem Guð hefur gefið mér

-------------------------------------------------------------------------------

Kórsöngur: Ég hef heitið , Jesús. M. Valpius-Johann Sebastian Bach raddsetti/Sigurjón Guðjónsson.

47 Gegnum Jesús helgast hjarta

Undir útdeildingu: Christus, der ist mein Leben, eftir Max Reger.

367 Eigi stjörnum ofar.

Eftirspil: Marche-Sortie, í G-dúr, eftir Théodore Dubois.

Textar:

Lexía: 5Mós 18.15, 18-19
Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða.

Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistill: 2Pét 1.16-21
Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga.
Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall: Matt 17.1-9
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“