Messa og sögustund 17. júlí kl. 11

15. júlí 2016


Dr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngur. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Umsjón með sögustundinni hefur Rósa Árnadóttir. Kaffisopi eftir messu.

Verið hjartanlega velkomin til messu!

Textar: 

Lexía: Jer 23.16-18, 20-21
Svo segir Drottinn hersveitanna:
Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“
En hver hefur staðið í ráði Drottins,
séð hann og heyrt orð hans?
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?

Reiði Drottins slotar ekki
fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
fyrirætlanir hjarta síns.
Síðar meir munuð þér skilja það.
Ég sendi ekki þessa spámenn,
samt hlaupa þeir,
ég talaði ekki til þeirra,
samt spá þeir.

Pistill: Róm 8.12-17
Þannig erum við, systkin,
í skuld, ekki við eigin hyggju
að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar
munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Guðspjall: Matt 7.15-23
Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.