MIKLAR VÆNTINGAR TIL KÓRORGELSINS

21. maí

MIKLAR VÆNTINGAR TIL KÓRORGELSINS - Ávarp formanns sóknarnefndar, Einars Karls Haraldssonar,  við hátíðarmessu á Hvítasunnudag 19. maí 2024

Kæri söfnuður, góðir áheyrendur.
Þann 27. október næstkomandi eru 350 ár liðin frá andláti Hallgríms Péturssonar.
Hallgrímskirkja heiðrar arfleifð skáldsins með fjölbreyttum hætti á yfirstandandi ári undir yfirskriftinni Minningarár 350. Á dagskrá eru tvær myndlistarsýningar, útgáfa tveggja bóka með textum Hallgríms, fræðsla um ólíkar hliðar höfundarverks hans og ný uppfærsla á Jólunum hans Hallgríms, sem þúsundir barna hafa heimsótt síðastliðin tíu ár. Þá verður Hallgrímshátíð haldin í lok október þar sem verða meðal annars flutt ný og nýleg tónverk sem tengjast sálmum Hallgríms.
Sóknarnefnd Hallrímssafnaðar féllst á þá tillögu Björn Steinars Sólbergssonar, organista okkar og tónlistarstjóra, að láta endurbyggja og stækka Frobenius- kórorgelið sem þjónað hefur kirkjunni frá því í desember 1985. Endurbyggingin er framlag sóknarinnar og gefenda úr hópi kirkjugesta í tilefni af Minningarári 350.

Við höfum nú endurheimt orgelið eftir heilsubótardvöl þess hjá Frobenius orgelsmiðjunni í Birkeröd nálægt Kaupmannahöfn. Orgelsmiðirnir þar hafa farið um það sínum völundarhöndum. Eskild Momme forstjóri og Henrik Paludan stjórnarformaður sýna okkur þann heiður að vera viðstaddir þessa hátíðarmessu og vígslutónleika Frobenius orgelsins sem haldnir verða kl. fimm síðdegis.

Sóknarnefndin og starfsfólk Hallgrímskirkju kunna hinum dverghögu orgelsmiðum bestu þakkir fyrir frábæra fagvinnu og einstakt samstarf.
Kórorgelið var áður tíu radda en kemur til baka frá Danmörku sem mikilfenglegt og hljómmikið tuttugu radda orgeldjásn. Það var gleðistund fyrir okkur að heyra hér áðan stóra Klais-orgelið bjóða kórorgelið velkomið aftur til leiks, í nýju inngönguverki Hreiðars Inga Þorsteinssonar, og orgelin tvö sameinast síðan í sterkum samhljómi ásamt Kór Hallgrímskirkju. Söfnuðurinn væntir þess að kórorgelið nýtist til þess að auka fjölbreytni í tónlistarflutningi, efla almennan kirkjusöng og skapa innileika og nánd í athöfnum og helgihaldi. Við fáum að njóta þess hér á eftir þegar frumflutt verður tónverkið Veni sancte spiritus, sérpantað hjá Báru Grímsdóttur tónskáldi af þessu tilefni.

Sóknarnefndin afhendir kórorgelið hér með organistunum okkar Birni Steinari og Steinari Loga Helgasyni kórstjóra til umsjár og notkunar og óskar starfsfólki, kór, söfnuði og gestum til hamingju.