Klassíkin okkar var á dagskrá sjónvarpsins 4. september. Sinfóníuhljómsveitin flutti verk úr ýmsum áttum og söngvararnir komu úr ýmsum tónlistargáttum líka. Eini kórinn sem söng var Mótettukór Hallgrímskirkju og söng Ruht wohl úr Jóhannesarpassíu Bachs. Og söng með ástríðu sem var hrífandi.
Passían var fyrst flutt á Íslandi á stríðsárunum, 1943, og þá undir stjórn Victors Urbancic. Hann vildi að Íslendingar skildu boðskap verksins og lét því flytja það á íslensku. Aríur og kórar voru í þýðingu Jakobs Jóh. Smára, en sálmalögin felldi hann að erindum úr Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Þótti það mikið afrek að þessir miklu söngmeistarar hefðu verið samþættaðir. Þessi íslenska gerð verksins var flutt síðar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1950. Síðan hefur Jóhannesarpassían verið flutt á þýskunni hér á landi. En nú var sungið á íslensku að nýju.
Stjórnandi Sinfóníunnar þetta kvöld var Daníel Bjarnason. Hann hlaut hluta af sínu tónlistaruppeldi í Mótettukórnum og lærði af kirkjukantornum. Á sínum tíma söng hann í Mótettukórnum og lifði undur kirkjutónlistarinnar. Hann var skemmtilegur félagi í söngnum, rífandi músíkalskur og alltaf líflegur. Kirkjukórar hafa ekki aðeins þjónað helgihaldi þjóðarinnar heldur líka menningarlífi hennar. Upp úr æfingum og af himinundrum kóranna rísa tónsnillingar þjóðarinnar.
Takk Mótettukór, Daníel, Hörður, Hallgrímur og Bach.