No problem

12. júlí 2021
Ekkert prestsverk er skemmtilegra en að skíra börnin. Það er svo undursamlegt að horfa í augu þeirra, ausa þau vatni og sjá viðbrögðin, finna fyrir straumi umhyggju, gleði og ást foreldra og vina. Vatnið glitrar í fontinum, tárin í augnakrókum fólksins og droparnir eru fagrir á hári barnanna. Í skírninni verða skírnarþegarnir meira en fólk tímans. Þau verða líka borgarar eilífðar - guðsríkis. Með tvöfalt ríkisfang. Vatnsflóð veraldar og vatnsflóð eilífðar renna saman í flaum lífs og gleði. Tími og eilífð kyssast.

Aðalskálin

Fyrir mikilvæga athöfn er það fallegasta eða besta tekið fram og notað. Í heimaskírnum er tekin fram aðalskál heimilisins eða fjölskyldunnar, stundum kristalsskál ömmu og afa eða einhver fallegur hönnunargripur. Vatni er hellt varlega í skálina og gætt að hitanum til að hvorki verði barni kalt eða illt af hita. Stundum er í upphafi athafnar vatnið borið í karöflu eða könnu til stofu og hellt í skálina. Það markar upphaf með ákveðnum hætti. Ofast hafa skálar sem notaðar eru tilfinningagildi í fjölskyldunum. Þær hafa verið á borðum á stærstu hátíðum og mikilvægu stundum fjölskyldunnar. Sumar þeirra hafa oft verið notaðar í skírnum og hafa orðið helgigripir á heimilum, tákn um samhengi ættar eða fjölskyldu.

Skírnarker í kirkjunum eru eins ólík og skírnarskálar heimahúsanna. Í kirkjum fyrri tíðar var skálin stundum fat sem hékk á vegg en var tekið ofan þegar skírt var. Oft voru ílátin úr tini eða mjúkum málmi. Meiri sundurgerð hefur orðið í gerð skírnarfonta á síðari árum. Frægasti fonturinn á Íslandi var skírnarsár Bertels Thorvaldsens í Dómkirkjunni sem var vígður árið 1839. Merkilegir fontar eru í kirkjum landsins og margir eiga sér merkilega tilurðar- eða gjafasögu. Í Neskirkju í Reykjavík er skírnarfontur sem Þór Sigmundsson, steinsmiður, gerði. Á sama tíma og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, kona Þórs, bar sveinbarn undir belti klappaði steinsmiðurinn grjótið og gaf kirkjunni gripinn. Þegar drengurinn, Kolbeinn Flóki, var kominn í heiminn var Neskirkjufonturinn í fyrsta sinn notaður þegar hann var skírður.

Hallgrímskirkjufonturinn

Svo er það skírnarfontur Hallgrímskirkju, sem er einn merkasti dýrgripur í íslenskum kirkjum. Fonturinn var gefinn af kvenfélagi kirkjunnar og af velunnurum. Það mun óumdeilt að fonturinn hefur mesta útgeislun allra fonta hérlendis. Þegar himinljósið skín í kirkjunni sést litadýrð þegar ljósið brotnar í kristalnum og myndar friðarboga, jafnvel fleiri en einn. Oft er litadýrð á gólfi kirkjunnar og bekkjum þegar ljósið brotnar og teiknar marga friðarboga. En fonturinn varpar ekki aðeins ljósi út heldur hefur inngeislun, dregur til sín athgyli. Þegar bjart er sjást líka stafir og orð bæði á dökka fletinum á fontinum en líka ljósa hlutanum. Á dökka hlutanum er bæn Hallgríms Péturssonar sem við fórum með áðan:
„Vertu Guð faðir, faðir minn

í frelsarans Jesú nafni.

Hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.“

Það er við hæfi að setja bænina á skírnarsáinn, því það er lífsháttur kristins fólks að endurnýja tengslin við skapara og lífgjafann með því að ávarpa ástvin eilífðar, helst á hverjum degi og á hverri tíð. Biðja Guð um að vera faðir, vinur, nánd. Og að við verðum náin í tengslum og lifum í anda guðstengslanna.

Svo sést líka texti inn í fontinum. Hægt er að lesa í gegnum þykkan kristalinn biblíuvers. Þar stendur: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Þetta vers er í 16. kafla Markúsarguðspjalls. Það eru orð guðspjalls dagsins, sem var lesið frá altarinu áðan.

Við megum þakka fyrir og gleðjast yfir fonti kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð og Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari, eru hinir miklu sjónlistamenn Hallgrímskirkju. Ef Hallgrímur er fimmti guðspjallamaðurinn er Leifur Breiðfjörð okkur einn af postulum Jesú. Leifur hefur gert aðaldyr kirkjunnar, stóra gluggann yfir innganginum, glermyndir inngangsdyra inn í kirkjuna, einnig unnið prédikunarstólinn og svo hannað skírnarfontinn.

Leifur og Sigríður, kona hans, voru einu sinni í Sydney í Ástralíu. Þar hittu þau tékkneskan kristalssérfræðing og spurðu hvort hægt væri að steypa stóran kristalsklump í skírnarfont Hallgrímskirkju. „No problem“ sagði Tékkinn. Þá var stefnan mörkuð og Leifur ákvað lag og mótun fontsins. Svo byrjaði merkilegt ferli. Tékkarnir í Železný Brod sem gerðu tilraunir með kristalssteypuna lentu í miklum vandræðum. Kristalsklumpurinn, um 270 kílógramma, sprakk hvað eftir annað í kælingunni. Orðspor kristalmannanna var í hættu! Góð ráð voru dýr. „No problem“ varð „a big problem – a very big problem!“ Leifur ákvað því að skipta kristalsblokkinni í tvennt. Kælt var í marga mánuði og verkið tókst loks. Orðspori kristalsmanna var borgið, hægt var að setja stykkin saman, slípa út fjórblaðsskálina og sandblása versið úr Makúsarguðspjalli í kristalinn með Leifsletri. Úr varð hið mikla listaverk efnis, ljóss og anda sem skírnarfonturinn er. Fyrsta sunnudag í aðventu árið 2001 var fonturinn tekinn í notkun. Í ár er því tuttugu ára vígsluafmæli.

Trúir og skírist – hólpinn

Trú, skírn og blessun eru lífleg þrenna. Í versi skírnarfontsins er fólgið ferðalag fólks og frumkirkjunnar í tíma. Tengslin við Jesú Krist, reynslan af veru hans, orðum og gerðum sannfærði fólk um að hann væri traustins verður, Guð meðal manna. Þegar tengslin urðu – trúin - vildu vinir Jesú merkja sig honum og innvígjast guðsríkinu með sama hætti og hann sjálfur – með skírn. Vatn er efni lífsins. Vatnsbaðið er tákngjörningur sem varð siður kristninnar til lífs og tjáir ást Guðs. Í skírninni var og er miðlað að skírnarþeginn væri elskaður og virtur.

Guð er ekki háður skírn en kristin kirkja ber börnin til skírnarlaugarinnar til blessunar. Fontur merkir lind, uppspretta. Guðspjallstextinn er ekki neikvæður. Hann merkir ekki að sá sem trúir og er óskírður fari á mis við blessun. En eins og við njótum sífellt nýrrar blessunar með að neyta vatns njóta mannabörn blessunar í þessari uppsprettu hins góða. Skírnin er ekki eins og að fá sér vegabréf inn í eilífðina heldur er hún ástartjáning Guðs gagnvart börnum heimsins. Ekki lögmál heldur ást, tilboð en ekki skylda. Að vera hólpinn merkir að njóta samvista við Guð. Sú blessun verður ekki aðeins þegar fólk deyr, heldur kemur fram í öllum undrum lífsins sem við njótum, þessa heims og annars.

Gerð skírnarfonts Hallgrímskirku tjáir vel margar víddir Guðsblessunarinnar. Kristall og grjót kyssast rétt eins og tími og eilífð. Hluti fontsins er dökkur og hinn er ljós. Annar er gegnsær en hinn ekki. Í fontinum eru andstæður sem tákna víddir lífsins í gleði og sorg, vonbrigði og von, ljós og myrkur, dauða og líf. Fontur Hallgrímskirkju tjáir dauða og upprisu, langan föstudag en líka dansandi sól páskanna. Við erum ekki bara felld við dimma mold, af jörðu og til jarðar, heldur erum við, mannfólkið, ljósgeislar úr ljóslind eilífðar. Við eigum okkar upphaf í efni en erum meira. Við erum kölluð til að vera bæði tíma og eilífðar, veita elsku eilífðar inn í líf barna tímans. Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða. Þessi boðskapur brosir við öllum sem vilja sjá og blessunin umvefur skírnarbörnin sem eru ausin vatni.

Það er hægt að fara að skírnarfonti Hallgrímskirkju og sjá kristalinn og dást að formi hans og sjá litadýrð brotins ljóss. Friðarbogar himins og fonts minna okkur á að rækta frið við menn, Guð og okkur sjálf. Þegar við beygjum okkur niður sjáum við textana, sem tjá hið guðlega samhengi og við erum fullvissuð um að trú og skírn eru staðfesting á þegnrétti okkar manna í tíma og eilífð. Kærleikur kristninnar er hógvær, hlýr, umlykjandi og ríkur að birtu og fegurð. „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“

Amen.

Messa 11. júlí, 2021. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð. Prédikun og mynd SÁÞ.