Nýtt upphaf

10. janúar 2022
Prédikanir og pistlar, Fréttir

Skírnin nýtt upphaf

Matt 3.13-17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

 

Á bökkum Jórdan

Það má kallast nokkuð viðeigandi að í upphafi nýs árs þá sé þessi texti okkur gefinn til íhugunar. Jesús kemur að ánni Jórdan þar sem frændi hans Jóhannes Sakaríasson er tekinn að prédika og bíður fólki að skírast eins konar iðrunarskírn að láta hreinsast á táknrænan hátt af fyrri misgjörðum og óhreinindum og stefna þaðan í frá að betra og guðrækilegra lífi. Athöfnin þessu til staðfestingar var að vaða úr í ánna Jórdan ásamt prédikarnanum og láta hann dýfa sér á bólakaf í ána. Að vera þannig skírður og hreinsaður og ganga síðan inn í nýjan veruleika.

Upphaf boðunarferils

Þegar Jesús Kristur stígur inn á svið sögunnar þá gerir hann það með því að láta skírast af Jóhannesi. Hann fyrir sitt leyti virðist hafa gert sér grein fyrir því að Jesú væri ætlað mikið hlutverk og tregðast við í fyrstu. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti. Ekki er gott að átta sig á því hvað Jesús hefur átt viðmeð þessum orðum en það má til dæmis láta sér það til hugar koma að þarna sé vísað til einhvers konar sögulegrar samfellu.

Spámenn

Jóhannes var vissulega búinn að skipa sér í flokk með þeim sem kallaðir voru spámenn. Við þekkjum nöfn þeirra sumra og rit þeirra eru varðveitt í hinu gamla testamenti. Án nokkur vafa hafa þeir verið margfallt fleiri sem risið hafa upp og gagnrýnt ríkjandi valdhafa og lifnaðarhætti samferðafólks síns. Án efa hafa þeir flestir verið gerði höfðinu styttri því sjaldan hefur það verið vel séð að gagnýna þá sem völdin hafa. Þessi varð eins og þekkt er einmitt raunin í tilfelli Jóhannesar. Jesús stígur upp úr vatninu og tekur til við að prédika og safna um sig lærisveinum og áhangendum..

Kærleiksríkt samfélag

Þannig er skírnin tákn um upphaf, nýtt upphaf, og þegar síðar tóku að myndast söfnuðir í nafni Jesú Krists þá varð skírnin að vígsluathöfn við inntöku nýrra meðlima. Páll postuli er óþreytandi að lýsa því í bréfum sínum hvernig trúin á Jesú Krist hafi umbreytandi áhrif á líf þeirra sem meðtaka hans boðskap. Sá eða sú sem meðtekur heilagan anda og boðskap frelsarans hann eða hún finnur að það hefur umbreytandi áhrif. Þú segir skilið við þitt fyrra líf þín fyrri viðmið og gengur nýjum veruleika á hönd. Og þannig mun þetta einmitt hafa verið að fólk sá að þau sem tilheyrðu þessum nýja trúarhóp þau lifðu á margan hátt öðruvísi en aðrir. Breytingin fólst fyrst og fremst í auknum kærleika og umhyggju, meiri samhjálp og samábyrgð. Þess vegna fjölgaði fólki í hinum kristnu söfnuðum þótt þeir væru illa séðir af valdhöfum og hefðu jafnvel sætt ofsóknum.

Hefð verður til

Öldum síðar þegar heilu þjóðríkin voru orðin kristin þá tekur að skapast hefð um að skíra ómálga börn og vígja þau þannig inn í þann sið sem allir í þeirra umhverfi játast undir. Táknmáli samt það sama, nýtt upphaf.

Alltaf hefur þó verið eitthvað um það að fullorðið fólk láti skírast, hér á landi sömuleiðis æ algegnara að unglingar láti skírast þegar þau hafa tekið ákvörðun um að fermasst. Allt er þetta jákvætt og fullkomlega eðlilegt að skírn komi í kjölfar meðvitaðrar ákvörðunar um að gangast kristinni trú á hönd.

Siðir ekki lengur sjálfsagðir

Margt af því sem fyrir tiltölulega stuttu síðan taldist sjálfsagt og eðlilegt að allir tækju þátt í er það ekki lengur. Gamlir siðir og hefðir eru góðir og gildir en það er aldrei jákvætt að gangast undir eitthvað hugsunarlaust og gagnrýnislaust. Lífið og tilveran í nútímanum er þannig á margan hátt flókin, fátt er tekið sem gefið enda má sjá og heyra alls kyns mismunandi viðhorf og lífskoðanir. Það er engan veginn einfallt að leggja niður fyrir sér hvaða grunn maður eigi að leggja fyrir lífsviðhorfum sínum og skoðunum.

 

Það er dýrmætt að láta skírast og stíga þannig inn í nýjan veruleika á vissan hátt en mest er þó um vert að það gerist á meðvitaðan hátt.