París hefur sinn Eiffelturn, London Big Ben og Reykjavík Hallgrímskirkju. Þannig var Reykjavík uppteiknuð í ferðakynningu og tjáir hlutverk kirkjunnar í borgarlandslagi Reykjavíkur. Hallgrímskirkja er orðin einkenni borgarinnar, lógó ferðamennskunnar. Auglýsingabransinn notar hana, sem bakgrunn til að staðfæra og sannfæra. Hallgrímskirkja teiknar sjóndeildarhring Reykjavíkur og Íslands. En svo hefur það nú ekki verið um aldir.
Hvar er Hallgrímskirkja?
Gamlar myndir frá Reykjavík eru skrýtnar því á þeim er enginn gnæfandi kirkja á Skólavörðuholti, turnspíra hálfa leið til himins, kirkjuskip og nettur kórkúpull. Það, sem nú er nauðsyn í auglýsingum ferðaþjónustunnar og sjónrænn stimpill vitundar okkar, er ekkert sjálfsagt heldur ávöxtur starfs stórmenna. Þegar byrjað var á byggingu kapellunnar, neðri hluta kirkjukórsins, var á holtinu braggabyggð stríðsáranna. Það var erfitt að afla heimilda fyrir lóð fyrir kirkjuna. Svo hafði hernámsliðið ekki mikla þolinmæði fyrir eitthvert kirkjurask í miðri heimsstyrjöld. Miðað við fátækt fólks var fáránlegt að láta sig dreyma svona stóra byggingu, hvað þá að fara af stað. Byggingaráform Hallgrímskirkju voru órar, enda var enginn skortur á andstæðingum, úrtölumönnum og glefsandi uppistöndurum. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að Hallgrímskirkju á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar. Þökk sé þeim einbeittu konum. Þær eru meirihluti ofurhugaliðsins.
Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. Við skulum fara til og byggja var prédikað á Skólavörðuholti. Hetjur heyrðu. Þær voru stórhugar Íslands, sem við stöndum í þakkarskuld við. Þær voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags, þjóðfélag og kristni. Það var farið til að byggja. Milli bragganna í Skipton Campá Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Sjötug kapella, sjötíu náðarár.
Kapellan og fólkið
Við höfum notið náðar Guðs. Sum ykkar voru fermd hér og önnur gift. Hvað eru mörg ykkar, sem voru skírð í Hallgrímskirkju? Gerið svo vel að rétta upp hönd! Hvað eru mörg í þessum söfnuði, sem voru fermd hér? En gengu í hjónaband? Já og öll hafið þið komið til messu í þessari kirkju. Og við erum í stórum söfnuði fólks, sem hefur lagt lið, notið og verið í liði himinsins.
Í fjölskyldu minni var alltaf talað með mikilli elsku um kapellu Hallgrímskirkju. Foreldrar mínir stóðu með framtíðarfólkinu á Skólavörðuholti og sóttu oft messur hingað. Og svo þegar ég var nýkominn frá Guði fóru foreldrar mínir upp á holtið og sr. Sigurjón Þ. Árnason skírði mig. Og ég var með foreldrum mínum í guðsþjónustum síðar. Eins og mörg önnur börn starði ég heillaður á Kristsmynd Einars Jónssonar og pálmann, sem Guðrún og Karl Ryden gáfu kirkjunni. Bæði voru í kapellunni, síðar í Suðursalnum og eru enn í kirkjuskipi Hallgrímskirkju nú. Eins og tákn um hið lífræna samhengi hins lifandi boðskapar í sjötíu ár. Og mörg munum við líka hve gluggarnir voru hátt uppi í kapellunni og hve stór hún var. Í minni fjölskyldu var börnum kennt að tala þessa kirkju upp en ekki niður. Hún væri á ábyrgð okkar allra. Erindið væri aðalatriðið og það varðar: Að lífið væri ekki bara stríð, braggar, ógnanir og búralegt hyggjuvit heldur dásamlegt, fullt af möguleikum, fagnaðarefnum og opinni framtíð. Því var svona kirkja byggð. Við njótum stórhuga Anda.
Það sem rætist
Kirkja á sér fortíð. Kirkja er líka saga og þessi kirkja á sér langa sögu. Hvers virði er minning og saga? Í guðspjalli dagsins er Jesús kominn í heilan hring og inn í sögu þjóðar og fjölskyldu. Hann hafði verið í langferð og var loksins kominn heim. Hann fór í sína kapellu á sínu holti á helgidegi. Og tók las orð úr ritasafni þjóðmenningar sinnar, orð um hlutverk, gleðilegan boðskap, hinum þurfandi lausn, nýja og heilbrigða sýn. Þetta voru stærri orð en braggamenn heimsins gætu skilið. Og allir viðstaddir gerðu sér grein fyrir að orð þessa manns voru þvert á allar hugmyndir hagnýts hyggjuvits: Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar. Orð úr fortíð, sem opnuðu framtíð. Söguleg samtíð. Allt stórt, allt nýtt, allt opið. Jesús Kristur, sem veruleiki nýrrar nálgunar alls. Samstaða með hinum kúguðu, líðandi og hömluðu. Já, það væri einkenni þess samfélags, sem Guð kallaði fram, að bæta líf fólks, kalla það til samúðar og samheldni. Og þetta með fagnaðarerindið væri ekki bara að búa til ræðupall fyrir hnyttna uppistandara, heldur opna tímann. Lífið væri meira en matur og frumskógarlögmál. Lífið væri skapað af elskandi Guði. Síðan varð til kristni og alls konar kirkjur. En erindið er alls staðar hið sama, fagnaðarerindi fyrir fólk, heim og framtíð.
Staður tengingar
Saga Hallgrímskirkju er lykilsaga. Hún hófst í andófi og í miðju braggahverfi. Þar voru gleðimálin túlkuð og iðkuð, samfélagið ræktað, fátækir virtir og náðarár kunngerð. Sjötíu árum síðar er Hallgrímskirkja eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. The Guardianhefur fellt þann úrskurð vegna þess að hér hafa milljónir ferðalanga lífsins fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra, náð sambandi við himininn. Ritningin hefur ræst. Byggingunni er ætlað að vera hlið himins, benda upp, teikna landslag menningar og samfélags, vera athvarf hinum jaðarsettu, vettvangur fegurðar, vörn gilda, farvegur skapandi listar, stefnumótastaður tíma og eilífðar. Staðurinn þar sem Jesús Kristur er, stendur upp, opnar bókina og segir skýrt og klárt: Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.
Til hvers kirkja?
Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. Hvernig á að túlka vinsældahrun kirkjunnar? Er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó fólk og samfélög ruglist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Kirkjustofnanir fremur en kristni eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkja sé ónauðsynleg - heldur að kirkja sé að breytast. Við, sem viljum hlusta á Jesúboðskap daganna, megum vita að Guð kallar alltaf með raunhæfum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar, en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa. Hvernig eigum við að þjóna öllu þessu fólki sem hingað kemur? Hvernig getum við verið farvegur fyrir gleði Guðs, fagnaðarerindi, fyrir alla?
Nunnurnar
Þær þúsundir, sem koma í Hallgrímskirkju á hverjum degi, eru á lífsferð sinni, pílagrímagöngu frá fortíð til framtíðar. Allt sálir, fólk í leit að merkingu fyrir líf sitt. Fyrir nokkrum dögum var hér á ferð hópur af nunnum. Reyndar voru tveir karlar í nunnubúningi og annar þeirra var með yfirvaraskegg. Nunnurnar íslensku og þmt þessir klæðskiptu munkar eru að ljúka framhaldsskóla. Þau voru uppáklædd vegna dimissjónar. Tímum er lokið og stúdentsprófin eru framundan. Hópnum var boðið inn í kirkjuna og þegar búið var ræða við þau sagði einn í hópnum: Ég vissi ekki, að þjóðkirkjan væri svona opin og skemmtileg. Eða er þetta kannski fríkirkja? Nei, var svarið. Þjóðkirkjan er svona opin og skemmtileg. Og svo kom niðurstaða stráksins: Ég þarf nú að fara endurskoða fordóma mína gagnvart þjóðkirkjunni. Presturinn sagði amen.
Svo tók ég mynd af nunnuhópnum við kór kirkjunnar. Þegar ég skoðaði myndina síðar um daginn og setti hana á vef Hallgrímskirkju varð mér hugsað til allra þúsundanna, sem hafa verið skírð, fermd og gift í þessum kór, í þessum helgidómi. Til þeirra líka, sem hafa verið kvödd með tárum. Og ég hugsaði til eldhuganna, sem þvert á efnisást, fóru til að byggja þetta risahús hinum mesta Guði. Og ég fylltist þakklæti til hugsjónafólksins, sem byggði þessa kirkju og hefur þjónað henni. Er hlutverkinu lokið, nei þetta sjötuga hlið himins er á bernskuskeiði, er vissulega í andlistlyftingu, aðgerð, þessa dagana og framtíðin er opin. Kirkjan er að breytast og þjónusta okkar þar með. Fólkið, sem kemur hingað, þarf að heyra að Jesús Kristur er staðinn upp og talar. Þann dag rætist ritningin.
Prédikun Sigurðar Árna Þórðarsonar í messu fyrsta sunnudag í aðventu, 2. desember, 2018. 70 ára afmælis Hallgrímskapellu minnst.
Lexía
Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. Jer. 33. 14 -16
Pistill
Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Op. 3. 20-22
Guðspjall
Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:
Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar. Lk. 4.16-21