Orgelsumar - Björn Steinar frumflytur verk Steingríms Þórhallssonar
17. ágúst 2021
Lokatónleikar Orgelsumarsins í Hallgrímskirkju verða haldnir sunnudaginn 22. ágúst næstkomandi. Á laugardögum í sumar hafa organistar sem starfa við kirkjur víða um land leyft Klais-orgeli Hallgrímskirkju að hljóma á vel sóttum hádegistónleikum. Orgelið hefur skipað stóran sess í tónleika- og helgihaldi kirkjunnar allt frá vígslu þess á aðventunni árið 1992.
Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju, lýkur Orgelsumrinu að þessu sinni með glæsilegri orgeldagskrá þar sem flutt verða verk eftir íslensk tónskáld. Meðal annars verður frumflutt nýtt verk Steingríms Þórhallssonar sem Félag Íslenskra Organleikara pantaði af tónskáldinu til að heiðra Hauk Guðlaugsson níræðan.
Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 og standa í um klukkustund. Miðaverð er 3500 krónur en hægt er að fá miða á tix.is og við innganginn. Ókeypis er fyrir börn 16 ára og yngri.