Pamela De Sensi og Steingrímur Þórhallsson leika á flautu og orgel á fimmtudagstónleikum, 12. júlí kl. 12

10. júlí 2018
Fimmtudaginn 12. júlí kl. 12 leika Pamela De Sensi flautuleikari og Steingrímur Þórhallsson organisti Neskirkju nýleg verk eftir Steingrím fyrir þverflautu, altflautu, bassaflautu, kontrabassaflautu og orgel, þar á meðal er einn frumflutningur.

Miðaverð er kr. 2000.

Miðasala hefst í anddyri Hallgrímskirkju klukkutíma fyrir tónleika og á www.midi.is.

      

Pamela De Sensi stundaði nám í flautuleik á Ítalíu og lauk MA í flautuleik árið 2000 og MA í kammertónlist frá listaháskólanum S Cecilie í Róm árið 2003, sama ár og hún flutti til Íslands. Hún hefur sótt fjölda meistaranámskeiða og tónleikar hafa borið hana víða um heim, til margra landa Evrópu en einnig til Bandaríkjanna og Mexíkó. Hér á Íslandi hefur hún komið reglulega fram m.a. á tónlistarhátíðum í Skálholti, á Menningarnótt og Listahátíð. Þá hefur henni verið boðið að halda tónleika á vegum bandarísku flautuleikarasamtakanna í New York, þrisvar á alþjóðlegu flautuhátíðinni Flautissimo í Róm, síðast 2015 og í ár á International Low Flute Festival í Washington DC þar sem hún flutti íslenska tónlist við góðan orðstír. Pamela lék með flautuhóp á nýjustu plötu Bjarkar UTOPIA.

 

Steingrímur Þórhallsson hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun á Húsavík. Í Reykjavík lauk hann píanókennaranámi við Tónlistarskólann í Reykjavík og kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1998 með Martein H. Friðriksson sem aðalkennara. Sama haust fór hann til framhaldsnáms til Rómar og hann tók þar lokapróf, Magistero di organo, sumarið 2001 frá Kirkjutónlistarskóla páfagarðs.

Árið 2002 var Steingrímur ráðinn til Neskirkju þar sem hann er organisti og kórstjóri jafnframt því að starfa með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi.

Seinni ár hefur Steingrímur einbeitt sér meira að tónsmíðum. Vorið 2012 lauk hann námi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og núna í vor lauk hann M.mus í tónsmíðum frá skólanum og var lokaverkefni hans, Hulda, tónverk fyrir sópran, barnakór, kór og hljómsveit frumflutt í maí. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika, bæði hér og erlendis, t.d. á Alþjóðlegum orgelsumrum í Hallgrímskirkju þar sem hann hefur m.a. frumflutt eigin tónverk.