Saga páskamorgunsins er sagan úr hversdeginum, þetta er alveg eins saga úr ógn samtíma okkar. Þetta sem festir sig í huga þeirra sem verða fyrir og sjá hræðilega atburði. Þeirra sem hlaupa í ofboði og ótta og flýja.
Dauði og upprisa. Þetta er svo samofið allri hugsun okkar, tilveru okkar og tilvist, náttúrunni, manneskjunni. Þetta varðar ekki bara okkur heldur veröldina. Endurnýjun allra staðinna gilda, sjá náungan í nýju ljósi, skapa nýja hugsun, nýja samferð, sjá umhverfi okkar og náttúru í ljósi upprisunnar sem kallar að nýju á líf. Í því ljósi hljótum við að vilja vernda, gæta og sýna umhyggju.
Upprisan er ekki bara guðfræðilegur orðastaður fyrir vangaveltur um látinn sem rís til lífs að nýju andstætt öllum lögmálum náttúrunnar heldur breyting á nálgun manneskjunnar við sitt daglega líf, við umhverfi sitt, við afstöðu til samtímans . Þetta er frétt dagsins í dag um von. Veröld sem breytist ekki nema við þorum að hugsa öðruvísi og og kíkjum inn um grafarmunnann og sjáum að undur gerast. Kristin kirkja sem þarf að horfa frá eigin illvirkjum, fordómum og misgjörðum og öllu því sem hefurverið gert á hluta barna, unglinga og fullorðinn. Upprisa í stað dauða, kærleikur í stað valds, von í dauða
Vilborg Dagbjartsdóttir túlkar upprisuna í ljóði sínu „Páskaliljur:
“Morguninn eftir komu konurnar
til þess að gráta við gröfina.
Og sjá þær fundu gul blóm
sem höfðu sprungið út um nóttina.
Vorið var komið
þrátt fyrir allt.”
..og vorið er komið þrátt fyrir allt í upprisu lífsins. Þegar við horfum til heimsins á þessum páskamorgni erum við ekki alveg viss kannski en það er allt í lagi því þó að við fylgjum ekki eftir þá er vorið komið. Það gerist án okkar fyrirhafnar – Það kemur til okkar í hlaupum vinkvennann þriggja sem lögðu af stað á vit þess ókunna og óttalega..
Við höfum ekkert með það að gera. Breytum engu, bætum engu við. Frekar en vinkonurnar þrjár. Þær mættu til að ganga frá eftir voðaverk föstudagsins þar sem vinur þeirra og vonarstjarna gaf upp andann í mikilli kvöl.
Það er hlýja í þessum félagsskap, samræður, ráðaleysi, samtakamáttur en kærleikur. Smátt og smátt verðum við ein,einn, eitt af hópnum.
Sláumst í för með þeim. Morguninn er svalur, hvíldardagurinn að baki sem bannaði þeim allar bjargir og verk en nú var hægt að fá ilmjurtirnar, smyrslin og annað sem til þurfti og þær tilbúnar að ganga til verksins – gera og græja.
María Magdalena, Salóme og María móðir Jakobs. Eru þær ekki bara við ?
Frásöguna af atburðum páskamorguns má finna í Markúsarguðspjalli
„Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“
Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar.“ (Mark.16 1-6)
Hallgrímskirkja — Þinn staður á páskum!