Heildarlestur Passíusálmanna í 35 ár

04. apríl 2023
Fréttir

Um þessar mundir eru 35 ár síðan Passíusálmar Hallgríms Péturssonar voru fyrst fluttir í heild sinni á föstudaginn langa í Hallgrímskirkju. Frumkvæði að flutningnum hafði Eyvindur Erlendsson leikari og leikstjóri, sem jafnframt var eini flytjandinn. má finna á sound-cloud framúrskarandi inngangserindi Eyvindar að frumflutningnum, sem allur var tekinn upp og gefinn út á spólum á sínum tíma. Þar talar hann um hina mjúku rödd skáldsins í „hávaðahafi nútímans“ og gildi hennar.

Með heildarflutningi Passíusálmanna á föstudaginn langa 1988 lagði Eyvindur Erlendsson grunninn að hefð sem hefur haldist nær óslitin síðan í Hallgrímskirkju og breiðst þaðan út til annarra kirkna í landinu. Og það verður ekki tölu komið á alla þá lesara sem hafa síðan reynt sig við Passíusálmana að hluta eða í heild og „lagt á sig erfiði þeirra vegna“, þótt aðeins örfáir hafi flutt bálkinn einir, líkt og Eyvindur gerði.

Flytjendur Passíusálmanna í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa, 7. apríl, verða fimm að þessu sinni: Jakob Þór Einarsson, Halla Guðmundsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttur, sem hefur umsjón með flutningum.

Passíusálmarnir eru dramatískt, trúarlegt skáldverk, samið af sjaldgæfri leikni og valdi á viðfangsefninu. Þeir urðu fljótt eitt helsta íhugunar- og huggunarrit íslensku þjóðarinnar, nánast frá því þeir tóku að birtast í uppskriftum og á prenti á seinni hluta 17. aldar og fram undir okkar daga. Passíusálmarnir urðu tæki Íslendinga til að eiga samtal við sál sína.

Samsetning flytjendahópsins að þessu sinni er hugsuð sem vísun til þess hvernig Passíusálmarnir héldu innreið sína í þjóðlíf Íslendinga. Karllesarinn er hugsaður sem fulltrúi skáldsins, en konurnar fulltrúar fyrir þær fjórar konur sem Hallgrímur sendi fyrstu eiginhandarritin af Passíusálmunum. Þær hétu Ragnhildur Árnadóttir frá Ytra-Hólmi, Helga Árnadóttir í Hítardal, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti. Hallgrímur gerði þessar konur að fyrstu kynningarfulltrúum sínum fyrir skáldverkið.

Flutningur Passíusálmanna í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa hefst kl. 13.00 og lýkur um það bil 18.20. Flutningnum er skipt í sex hluta og á milli þeirra er leikið á orgel kirkjunnar. Tónlistin er í höndum organista Hallgrímskirkju og kórstjóra, þeirra Björns Steinars Sólbergssonar og Steinars Loga Helgasonar

Umsjónarmaður með flutningum, Steinunn Jóhannesdóttir, er rithöfundur, leikkona og leikstjóri. Hún hefur oft áður stjórnað flutningi Passíusálmanna, bæði í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, Hallgrímskirkju í Saurbæ og víðar. Steinunn flutti Passíusálmana í Ríkisútvarpinu árið 2021.

 

Ritgerð eftir Steinunni Jóhannesdóttur:

Svoddan ljós mætti fleirum lýsa
Passíusálmarnir til valinna kvenna