Við Hallgrímskirkju - utan dyra - er slétt, ferhyrnd steinplata. Hún er á áberandi stað sunnan kirkjunnar en lætur þó lítið yfir sér. Á hellunni stendur Praesens historicum. Hvað þýða þessi latnesku orð? Hver er merkingin og varðar hún þig?
Þetta er mynd sem Kristinn E. Hrafnsson, myndilistarmaður, gerði fyrir sýningu í Skálholti. Heiti verksins snarað á íslensku er Söguleg samtíð og varðar sögu í samtíma. Og það var við hæfi að þetta verk var gert fyrir Skálholtssýningu því saga biskupsstólsins er höfuðstóll íslenskrar sögu og Skálholt samtíðar er einn glugganna að drama Íslendinga. Hvernig lifir saga? Kristinn fékk Sigurbjörn Einarsson til að skrifa latneska heitið á blað. Svo stækkaði Kristinn áritunina og verkið var innrammað og hékk lengi í setustofu Skálholtsskóla og hefur orðið mörgum íhugunarefni. Svo var Sigurbjörnsáletrunin klöppuð á steinhellu.
Árið 1998 barst Hallgrímskirkju boðsbréf frá Kjarvalsstöðum um að setja listaverkið niður við kirkjuna. Því var fagnað og þegið. Og síðan hefur þetta hógværa og lágstemda verk kúrt sólarmegin við kirkjuna og hvíslar spurningum um tengsl sögu og samtíðar, þeirra sem farin eru og okkar sem lifum í nútíðinni, milli vefs menningar og spunagerðar samtímans.
Við búum til okkar eigin sögu. Sum okkar segjum hana með gleði og í frelsi en önnur eiga í erfiðleikum með að greina sögu sína, túlka hana jafnvel bara í neikvæðum tengslum við aðra. Þau sem eru kúguð eða meðvirk eiga t.d. oft erfitt með að segja sögu sína af því þau hafa verið bæld eða þvæld í samskiptum. En öll reynum við þó að greina merkingu í eigin lífi hversu köflótt sem ævin er. Verkefni margra presta, sálfræðinga, geðlækna, markþjálfa, góðra vina og jákvæðs fólks er m.a. að vera til staðar svo fólk geti orðað sögu sína - eða endursagt hana ef þarf að umtúlka t.d. vegna áfalla eða neikvæðrar upplifunar af einhverju tagi. Við eigum sögu sem er meiri en vitund okkar. Ekkert okkar man fæðingu og frumbernsku. Og ekkert okkar er til frásagnar um lok lífs okkar. Önnur segja þá sögu. Svo eru stærri sögur samfélaga, hópa, þjóða og menningar.
Hvernig lifir þú? Er þín saga algerlega sjálfstæð, engu og engum háð? Eða megnar þú að lifa í samfélagi annarra og þar með hlusta og reyna að skilja líf, veru, sögu samferðafólks þíns?
Við lifum á tíma þegar söguminjum er skutlað inn í stofnanir sem varðveita, sýna og túlka sögu. Svo hafna margir einhverju úr sögunni, misvirða eða rangtúlka. Margir trúlausir afneita veigamiklum þáttum trúarsögunnar og vilja endurskilgreina menningartúlkun. Þverrandi áhugi á fortíð og sögutáknum fortíðar breyta sýn einstaklinga, hópa og jafnvel þjóða. Þú ert veruleiki innan þíns eigin hrings sem er saga þín og líf. Til að þú þroskist vel skarast þinn merkingarhringur við veruleika annarra, hring annarra. Og það er trú mín að til að fólk og hópar nái miklum þroska verði sagan að hafa áhrif - ekki stýrandi eða kúgandi áhrif - heldur lífgefandi áhrif. Í sögunni er líf, fortíð og nútíð. Heimspekingurinn H. G. Gadamer talaði um að sjóndeildarhringir deildust þegar skilningur yrði.
En hvað þá um sögu kristninnar? Er hún þér lifandi veruleiki sem hefur áhrif á þig - og er lífi þínu til eflingar? Verk Kristins, rithönd Sigurbjörns, saga og verk Hallgríms, veruleiki þessar kirkju, þjónusta alls þess fólks sem hér hefur starfað og verið - allt áhrifasaga sem varðar samtíð. Þú átt þér líka sögu og samtíð.
Stærsta sagan sem er til er saga Guðs. Hún er erkisaga - lykilsaga. Trúmenn sjá í þeirri sögu túlkun á eigin smásögu. Hver ertu? Aðeins fortíðarsnauð nútíð - eða nútíð sem sagan litar og er til framtíðar? Jesús Kristur er í sögu, en er einnig söguleg samtíð og á erindi við þína sögu - við þig. Þess vegna er praesens historicum við og í Hallgrímskirkju - öllum kirkjum - ekki dautt grjót heldur erindi um líf og fögnuð.
(Praesens historicum varðar einnig málvísindi. Þegar nútíð er sett inn í fortíðaratburði í ræðu, leikhúsi eða kirkjulegri prédikun er það praesens historicum, sbr. Jesús segir en ekki aðeins sagði)