Prédikunarstóllinn - 11. apríl / Fórnarlömb fyrr og nú

23. apríl
Prédikanir og pistlar


Lexía: 4Mós 21.4-9

Ísraelsmenn héldu frá Hórfjalli í átt til Sefhafsins til þess að sneiða hjá Edómslandi. En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“
Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“
Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.

Pistill: Heb 9.11-15
En Kristur er kominn sem æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð sem ekki er með höndum gerð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa heldur með eigið blóð inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gerst, á að helga þá svo að þeir verði hreinir hið ytra. Hve miklu fremur mun þá blóð Krists, þegar hann hefur í krafti eilífs anda borið sjálfan sig fram fyrir Guð sem lýtalausa fórn, hreinsa samvisku okkar af dauðum verkum svo að við getum þjónað lifanda Guði.
Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum til þess að þau sem Guð hafði kallað mættu öðlast hina eilífu arfleifð sem heitið var.

Guðspjall: Jóh 8.46-59
Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“
Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“
Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“
Þá sögðu þeir við hann: „Nú vitum við að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir og þú segir að sá sem varðveitir orð þitt skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir okkar, Abraham? Hann dó og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“
Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn og hann sá hann og gladdist.“
Þá sögðu þeir við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur og hefur séð Abraham!“
Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist er ég.“
Þá tóku menn upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og hvarf úr helgidóminum.

Fórnarlömb fyrr og nú

Flest þekkjum við orðið þrætubók og jafnvel þrætubókarlist. Við sjáum þetta og heyrum kannski oftast frá útsendingum frá alþingi. Einfaldara orð sem að vissu leyti nær yfir það sama er einfaldlega rifrildi. Og það þekkjum við flest úr okkar eigin ranni. Gjarnan gerist það í rifrildum, einkum þegar reiðin kemur til sögunnar að innihaldið tekur að skipta minna máli en það sem sagt er. Orðræðan tekur að líkjast skylmingum þar sem leitast er við að koma höggi á andstæðinginn. Það sem við ekki skiljum, það vekur oft ugg í brjósti og það síðan vekur upp reiðina og reiðin vekur ofbeldið.

Satt að segja þá kom þetta orð, þrætubók, upp í hugann þegar ég las guðspjallstexta dagsins. Þarna má kannski segja að guðspjallamaðurinn sviðsetji umræður sem án efa hafa hvað eftir annað átt sér stað á fyrstu árum eftir upprisu Jesú Krists þar sem tekist er á um það hvers eðlis Jesús hafi verið og hvert hans hlutverk varð og umræðan sett í samhengi hins eldra átrúnaðar sem fyrir var, þeirrar trúar og þess táknheims sem við lýði var á dögum Jesú. Hann gengur vissulega inn í þá túlkunarhefð og þau trúarlegu minni sem gamla testamenntið fræðir okkur um og endurspegla þá menningu og hugsun sem þjóð hans þekkti. En um leið má segja að hann sprengi þennan ramma og setji ný viðmið og grunn sem hann innleiðir. Þetta var auðvitað byrjað á hans dögum og var ástæða þess að trúarleiðtogar þjóðarinnar brugðust svo harkalega við boðskap hans, einkum þegar þeir sáu að orð hans og athafnir töluðu til fólksins og opnaði um leið augu þeirra fyrir því að margt sem tekið hafði verið sem gott og gilt var engan veginn rétt eða í anda hins trúarlega grundvallar.

Þessi orðræða guðspjallsins bendir okkur líka á þann vanda sem skapast þegar fólk með ólíkan bakgrunn og ólíkar lífsskoðanir tekst á og vill kannski ekki gefa sér tíma til að skilja hvort annað og þann bakgrunn sem talað er útfrá. „ þú ert enn ekki orðinn fimmtugur og þú þykist hafa séð Abraham. Þeir láta sem þeir skilji ekki það sem Jesús er að segja. Sjaldan hefur það verið mikilvægara en einmitt í nútímanum að við gefum okkur tíma til að reyna að skilja ólíkar nálganir og túlkunarleiðir. Hversu heimskulegt og stórfurðulegt margt af því sem við sjáumog heyrum bæði úti í hinum stóra heimi og reyndar líka hér heima á okkar litla landi, þá má eiginlega fullyrða að hlutirnir eru aldrei eins einfaldir og þeir líta út í fyrstu. Og eins og þeir eru oft settir upp af hálfu fjölmiðla sem þó hafa oftast nær það yfirlýsta markmið að stunda vandaða fréttamennsku.

Stundum er eins og markmiðið sé það að eitt að ná athygli og fá fólk til að taka andann á lofti og hrista hausinn af vandlætingu. Raunar er og verður að segjast að það er stutt í þann þátt í okkur mannfólki sem rómverjarnir fornu spiluðu á þegar þeir buðu fólkiupp á brauð og leiki. Leiki sem snérust um að horfa á skylmingarþræla drepa hver aðra eða jafnvel að láta villidýr elta uppi og rífa í sig saklaust og varnarlaust fólk.

Fórnarlömbin eru sannarlega mörg bæði í nútíð og fortíð og samúðin er ekki alltaf mikil með þeim.

En fórnarlambið sem slíkt á sér sína sögu og sitt baksvið. Fórnir eru fjarlægar hugsun okkar í nútímanum. En eins og við vitum voru þær miðlægar í öllum að heita má hinum fornu trúarbrögðum. Hugsunin að öllum líkindum sú að færa guðinum gjöf og þannig að blíðka hann og fá hann til að gefa regn og árgæsku, og með einhverjum hætti að leggja áformum mannanna lið.

Og þannig var það einnig í trúarsiðum hinna fornu Hebrea og síðar þeirra sem við köllum Ísraelsmenn. Á þeim tíma sem Jesús var uppi og raunar um langa hríð þar áður þá var musterið í Jerúsalem miðlægt í þeirra trúarsiðum, þótt samkunduhús væru í hverju þorpi. Þetta var og er lítið land og eins og við þekkjum úr guðspjöllunum þá fóru foreldrar Jesú með hann í musterið á páskahátíð þegar hann var tólf ára, þótt þau byggju í litlu þorpi töluvert frá .

Í musterið fór fólk og færði sínar fórnir, misstórar og misdýrar, það var fórnað dúfum og lömbum og jafnvel nautgripum. Blóðið flæddi í musterinu alla daga. Þetta skapaði ákveðinni prestastétt sem þar þjónaði vissa forréttindastöðu og um leið töluverð auðæfi.

Ein af þekktustu táknsögum þjóðarinnar var frásögnin af brottförinni úr Egyptalandi. Páskahátíðin var til þess að minnast þessa viðburðar. Þá var hefð fyrir því að slátra lambi og hafa það til matar meðan fjölskyldufaðirinn sagði söguna af því þegar Móses leiddi þjóð sína burt úr þrældómi. Og nóttina áður en lagt var af stað þá sagði hann þjóð sinni að slátra lambi og baka ósýrð brauð. Blóði lambsins skyldu þau svo rjóða á dyrastafi húsa sinna því þessa nótt færi engill dauðans um landið en hann myndi þyrma þeim húsum þar sem blóðið var. Lambið sem fórnað var gaf öðrum líf.

Í huga þeirra fyrstu kristnu verður Jesús Kristur að hinu eina algilda fórnarlambi. Honum er fórnað eða hann fórnar sér og sú fórn er í eitt skipti fyrir öll. Hann er lamb guðs sem gefur líf sitt svo allir aðrir megi hafa líf. Hann færir sig fram sem fórn og sættir guð við menn í eitt skipti fyrir öll. Vegna þessarrar fórnar var það mat hinna kristnu að ekki þyrfti lengur að færa neinar fórni. Kristur hefur myndað nýtt samband við Guð.

Margt í orðfæri og atferli til dæmis messunnar okkar og ýmsu fleiru sem tengist okkar kristnu arfleifð verður illskiljanlegt nema þetta baksvið sé haft í huga. Orðið fórnarlamb lifir hins vegar góðu lífi, við verðum oft fórnarlömb ýmissa aðstæðna sem við ráðum oft ekkert við. Svo gerist það oft að einstaklingum og orðspori þeirra er fórnað í þágu pólitískra hagsmuna eða annars konar hagsmuna sem láta sér í léttu rúmi liggja þótt eitt og eitt smálamb verði undir, liggi óbætt hjá garði.

Fyrri ritningarlesturinn birtir mynd hins vandláta og oft reiðigjarna guðs. Það fýkur í hann þegar þjóðin fer að kvarta og sér eftir öllu saman að hafa yfirgefið heimili sín þótt í ánauð væri og býður við léttmetinu sem boðið er til matar, en Móse gengur á milli og eirormurinn er smíðaður og með því að líta hann þá nær fólk að halda lífi þótt það fái banvænt bit. Þannig má líta á þennan eirorm sem eins konar spádóm um Krist. Þótt höggormar hafi alla tíð haft illt orð á sér þá höfðu menn frá fornu fari séð í þeim tákn um endurnýjun lífsins. Þeir ganga úr hamnum og eiginlega endurnýja sig þeir vöktu því bæði ótta og aðdáun og tilvist þeirra fylgdi ákveðin mystík. Til gamans má nefna að á hinu forna læknistákni er einmitt ormur.

Í hefð kristninnar verður krossinn að þessu lífgefandi tákni. Hér á landi er vel þekkt sagan af krossinum í Kaldaðarnesi í Flóa. Á honum var slíkur átrúnaður að fólk trúði því að það eitt að fá að líta hann augum, þótt í fjarlægð væri, gæti veitt lækningu meina. Við siðaskiptin var hann tekinn niður, í óþökk fólksins, margir vildu jafnvel meina að dauði fyrsta Lútherska biskupsins langt um aldur fram hafi verið refsing fyrir þennan gjörning.

Fórnarlömb hafa því sannarlega verið til bæði að fornu og nýju. Kannski er raunveruleg þekking og yfirveguð hugsun þau fyrirbæri sem helst er fórnað nú til dags. Í allri ofgnótt upplýsinga er eins og gagnrýnin hugsun og rannsókn á réttmæti og gildi verði algerlega útundan. Þegar tíminn hefur liðið og tóm hefur gefist til að ígrunda þá er athyglin komin annað og enginn gefur gaum að því lengur hvað var rétt og rangt. Lambinu blæðir út í vegkantinum, allir keyra fram hjá eitthvað nýtt er framundan.

Það sem mestu skiptir fyrir okkur í þessu samhengi öllu er sú niðurstaða að Jesús Kristur setur fyrir okkur samband við Guð sem ekki mótast af ótta við refsingar eða reiði. Það samband sem hann birtir okkur með lífi sínu og verkum er samband sem byggist á kærleika og umhyggju, fyrirgefningu og umburðarlyndi, endalausum vilja til að gefa ný tækifæri. Reisa upp þau sem falla. Það er því í þeim anda sem okkur er bent á að lifa og starfa og umgangast hvert annað. Það er ekki alltaf auðvelt og enginn verður nokkru sinni fullnuma en Jesús bendir hvert við eigum að stefna. Fylgjum þeirri stefnu þá mun að endingu vel fara.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir anda amen.

Sr. Eiríkur Jóhannsson.