Prédikunarstóllinn - 16. mars 2025 / Hvað verður til í tómarúmi?

07. apríl
Prédikanir og pistlar

Hvað verður til í tómarúmi?

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Nú eru þrír dagar liðnir frá vorjafndægrum og því eru nú dagarnir orðnir lengri en næturnar. Þetta minnir okkur á orð Jóhannesar skírara þegar hann sagði um Jesú: „hann á að vaxa en ég að minnka“, en það er einmitt um jól sem dag tekur að lengja og síðan um jónsmessu sem dag tekur aftur að styttast. En jónsmessan er eins og margir vita messa Jóhannesar skírara.

En nú hefur birtan semsagt náð yfirhöndinni og við finnum svo vel hve gott er að fá að vakna til nýs dags í morgunbirtu. Stíga út í svalann og finna vorilm í loftinu.

Eins og endranær bjóða textar ritningarinnar okkur kjarngóðan boðskap og efni til hugleiðingar og í ljósi þess sem hér var nefnt um birtuna þá er gaman að í pistli dagsins er þetta sett í samhengi lífsins og þess lífsstíls sem postullinn telur ávöxt trúarinnar á Jesú Krist. „ Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni.“ Rauður þráður í orðum hans er einmitt þetta að ávöxtur trúarinnar á Jesú Krist sé betra og göfugara líf, siðferðilegt líf, þar sem einkennisorðin eru gleði og birta. Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni.

Í texta guðspjallsins ber margt á góma sem vert er íhugunar. Jesús segir þar til dæmis þessi orð um að hvert það ríki sem sé sjálfu sér sundurþykkt það leggist í auðn. Hann er þarna að veita andlega veikum manni líkn og eiginlega nýja tilveru og hlýtur samt af sumra munni gagnrýni og útúrsnúning. Í þessu eins og víðar, má sjá glögglega hvernig boðskapur Jesú beinist í senn að einstaklingnum sem hann horfist í augu við og síðan samfélaginu og þeim lögmálum siðum og venjum sem þar er haldið á lofti. Reglum sem stundum þjóna hagsmunum sumra en annarra ekki.

Mörgum þykir það mest um vert í frásögnum ritningarinnar af orðum og athöfnum Jesú Krists, að hann er stöðugt í tengslum við fólk af öllum mögulegu tagi ef svo má segja. Hann virðist ekki gera sér nokkurn mannamun sem var þó að líkindum enn sterkara fyrirbæri á hans dögum en nú. Hann mætir þannig hverjum og einum einstaklingi einmitt þar sem hann er á vegi staddur.

Hitt er ekki síður mikilvægt að orð hans vísa sömuleiðis til samfélagsins og þannig þess ramma sem fólk lifir í. Þar þurfa líka að ríkja réttlátar reglur, reglur sem gerðar eru til að þjóna lífinu og kærleikanum og réttlætinu og þannig skapa frið manna í millum. Enginn maður er eyland öll erum við í samskiptum á einn og annan hátt.

Jesús Kristur var þannig alls ófeiminn að gagnrýna ríkjandi reglur og venjur og eiginlega þvinga fólk til að horfast í augu við hvers kyns ranglæti og sérhagsmuni sem sannarlega viðgengust á hans tíma, líkt og á öllum tímum. Þess vegna er það sorglegt þegar fólk lítur svo á að kirkjan standi fyrir íhaldssemi og tregðu til breytinga og jafnvel tregðu til að efla jafnrétti og frelsi fólks til að lifa lífi sínu. Það er ekki hægt að segja annað en að Jesús hafi verið byltingarmaður enda voru örlög hans í samræmi við örlög svo margra bæði í nútíð og fortíð sem stigið hafa fram í nafni réttlætis og kærleika og goldið fyrir með lífi sínu.

Þótt öll þessi ár séu liðin frá því að Jesús var á dögum þá er það svo merkilegt að það sem hann segir og gerir talar ekki síður inn í aðstæður okkar í dag og það gerði á hans tíma.

Í guðspjallinu sem við heyrðum áðan talar hann um hvað gerist þegar við skiljum eitthvað eftir opið og án innihalds rétt eins og þegar illur andi er rekinn út og hann fer og reikar um og snýr svo aftur þá er hans aðsetur sópað og prýtt en þar er enginn til staðar. Svo hann fer og býður sínum líkum til dvalar með sér og ástandið verður enn verra en áður var.

Þessi lýsing kallast átakanlega á við ákveðið, ef svo má segja menningarástand sem haldið hefur verið á lofti í nafni mannréttinda að ekki megi halda að börnum neinu sem kalla mætti gildishlaðið. Þar á allt að vera opið og autt.

En hvað er það sem gerist? Er það ekki einmitt það sem Jesús er að segja, þar sem engin fyrirstaða er, þangað leitar hvað sem er og oft einmitt það sem ekki er af besta taginu. Hvergi er hættan meiri en einmitt í opnum og næmum huga barnanna. Það er því mikils um vert að börnin fái andlega næringu rétt eins og hina líkamlegu.

Það er ekki einungis á sviði einstaklingsins sem hætta er á ferðum heldur ekki síður í samfélagi sem ákveður að þar eigi eiginlega engin grundvallarviðhorf að gilda. Engin hugsjón um betra mannlíf, allt er lagt að jöfnu, jafnvel svo að margs konar réttindabarátta fólks sem árangur hefur náðst í með mikilli baráttu er nú víða í uppnámi.

Jesús bendir líka á þá ef svo má segja augljósu staðreynd en um leið mikilvægu, að hvert það ríki sem sé sjálfu sér sundurþykkt það fái ekki staðist. Sáttmáli er stórt og mikið hugtak í biblíunni, sáttmálinn milli Guðs og manna og þannig um leið sáttmáli milli manna. Við köllum slíka undirstöðu gjarnan stjórnarskrá þar er einmitt kveðið á um réttindi og frelsi einstaklingsins og ábyrgð hans og sömuleiðis um leikreglur stjórnvalda skyldur þeirra og ábyrgð og hversu langt þau megi ganga gagnvart frelsi einstaklinganna.

Mikið væri það nú dýrmætt ef orð spámannsins mættu rætast þegar hann segir þessi orð: Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu.

Já og ekki bara þar heldur um heiminn allan.

Við lifum á margan hátt viðsjárverða tíma, þá er gott að eiga góða að og þar er trúin á kærleiksríkan guð og leiðsögn frelsarans Jesú Krists það dýrmætasta sem í boði er. Allar breytingar þurfa að byrja í brjósti okkar sjálfra. Hann stendur við dyrnar og knýr á. Bjóðum heilögum anda til búsetu hjá okkur og þá mun hann standa vörð og veita styrk. Að það verði ekkert óvarið tómarúm.

Okkar kalda heimskaut fær nú stöðugt meira sólarljós og birtu og svo er einnig með okkur sem hér lifum og hrærumst. Biðjum þess að birta Drottins flæði inn í okkar sál og glæði og efli þau kærleiksblóm sem þar hefur verið sáð fyrir.

Þá verður fagurt um að litast í heimi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Sr. Eiríkur Jóhannsson

 

 

3. sunnudagur í föstu.

Lexía: Sak 12.10
En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.

Pistill: Ef 5.1-9
Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þakkið miklu fremur Guði. Því að það skuluð þið vita og festa ykkur í minni að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn – sem er sama og að dýrka hjáguði – á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. -

Guðspjall: Lúk 11.14-28
Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.
En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.
Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“
Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“
Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“