Prédikunarstóllinn - 18. apríl / Föstudagurinn langi 2025

25. apríl

Föstudagurinn langi

Pistill: Heb 4.14-16
Er við þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum við halda fast við játninguna. Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi.

Guðspjall: Jóh 19.16-30
Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.
Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

 

Náð og friður sé með okkur öllum.

Á þessum degi er ekkert fagnaðarerindi flutt, hvorki hér né í nokkurri annarri kristinni kirkju. Á þessum degi erum við minnt á það hversu stutt er í hið dýrslega eðli mannsins, grimmd hans og eigingirni. Við erum minnt á það og hvött til að hugleiða og horfast í augu við dimmasta eðli mannlegrar hegðunar og kennda.

Við gætum jafnvel kallað þennan dag erkitýpu illskunnar í mannlegu samfélagi. Þessi illska kemur ekki úr neinu dimmu dýki með horn og hala heldur einfaldlega úr brjóstum okkar bræðra og systra og jafnvel okkar sjálfra.

Saklaus einstaklingur er tekinn af lífi á kvalafullan hátt. Hver er ástæðan? Hann ógnar hagsmunum þeirra sem fara með völd og eiga fjármuni. Brögðum er beitt og farið lymskulega framhjá formlegum reglum. Viðhorfi almennings breytt með falsfréttum. Í innstu röðum leynist svikari sem selur upplýsingar.

Nei þetta er sannarlega ekkert einsdæmi og hljómar í raun ótrúlega kunnuglega, sennilega líður ekki sá dagur að eitthvað þessu líkt eigi sér stað einhvers staðar í heiminum. Blóð saklausra fórnarlamba flæðir eins og stórfljót. Fossar á brúnum og flest stöndum við álengdar og fylgjumst með, fegin að það vorum ekki við, en aðhöfumst ekkert.

Það munar ekki miklu um eitt líf í þessu sláturhúsi grimmdarinnar.

Þetta er því miður veruleiki dagsins í dag. Agndofa og ráðalaust stendur fólk víðsvegar um heim og horfir upp á yfirgang og ofbeldi stjórnvalda sem láta sér í léttu rúmi liggja allar leikreglur, alla samninga og sáttmála. Nú hefur tæknin fært þeim tól í hendur sem gerir kleift að sjá og heyra allt sem hver einasti þegn segir. Og ef það hugnast ekki þá er sá hinn sami hljóðlega látinn hverfa eða sendur úr landi. Spádómurinn um Stóra bróður er sem óðast að rætast

Þetta er staðan í heiminum í dag þegar tækni og þekking hefur náð hápunkti sínum. Mannkynið hefur fallið á prófi, siðferðisþroskinn heldur ekki í við tæknina.

Það er auðvelt að hneykslast á því sem gerist nógu langt í burtu en þessi dagur er einmitt fyrst og fremst dagurinn þar sem okkur er gert að horfa í eigin barm og spyrja hvar stend ég, gagnvart eigin tilfinningum eigin skoðunum og eigin getu og vilja til að láta gott af mér leiða. Hvað geri ég til að rækta hið góða sem í mér býr. Hugsa ég kannski bara mest um mig sjálfan og læt annað í léttu rúmi liggja.

Við sjáum það æ betur hversu mikilvægur boðskapur Jesú Krists var og er. Boðskapur um frið og kærleika, viðleitni til að lifa í sátt. Árétting þeirrar staðreyndar að ofbeldi elur ávalt af sér meira ofbeldi, meira hatur. Þau brennandi skilaboð um virði hvers einstaklings, réttar hans til að lifa lífi sínu og njóta virðingar. En ekki síður orðræða hans um hlutverk valdhafa og þeirra sem njóta forréttinda, áminningu hans til þeirra að standa fyrir sanngjörnum og réttlátum leikreglum, forðast að upphefja sig á kostnað annarra og hvatningu hans til að leggja mælistiku kærleikans við allar reglur sem settar eru. Með samstöðu og meðvitund er hægt að vinna kraftaverk.

Því miður gerist það alloft að þegar samviskuspurningar koma upp, þá er það ekki samviskan eða réttlætiskenndin sem látin er ráða heldur veskið. Ég vel þá leið sem kostar mig minnst. Hvaða máli skiptir þó ég striki út einhverja mannréttindayfirlýsingu á blaði ef ég held í góðan viðskiptavin?

Á þessum degi sjáum við fyrir okkur nöturlega hauskúpuhæðina og krossana hryllilegu sem fundnir voru upp til að láta andstæðinga deyja á sem kvalafyllstan og mest niðurlægjandi hátt og mögulegt væri. Fámennur hópur aðstandenda stendur hnípinn og grátandi og varnalaus. Móðirin harmþrungin og lömuð af sorg, sá sem þjáist á krossinum neytir sinna hinstu krafta til að til að huga að velferð hennar. Tengja þau saman sem honum eru kær.

Brynjuklæddir hermenn með sverð og spjót rigsa sperrtir og halda þeim í hæfilegri fjarlægð. Hann er sannarlega langur þessi dagur, nær ofan í dýpstu dali, niður í eimyrju vítis.

Það er ekki bara hver sem er sem þarna er að deyja það er sá sem er af Guði sendur til að boða frið, vísa veg til betra lífs, kenna fólki að hjálpast að og vinna saman. Flytja þau mikilvægu skilaboð að það sé ekkert að óttast. Reiðin, gremjan, hatrið, afbrýðisemin, öfundin, græðgin sem býr í mannskepnunni er ástæðulaus, það er ekkert að óttast. Við þurfum ekki að vígbúast hvert gegn öðru, við þurfum ekki að hrifsa hvert af öðru, það er til önnur leið. Leið samninga sáttmála, friðar og virðingar. Ef við deilum með okkur gæðunum þá er nóg handa öllum.

Jörðin skelfur og dagsbirtan hverfur um stund. Það er myrkur, ekki bara táknrænt heldur raunverulegt, sköpunarverkið allt þjáist og stynur. Þetta er glæpur allra glæpa. Sá sem kom til að frelsa er settur í fjötra.

Blóð og tár falla til jarðar í myrkrinu en þrátt fyrir allt þá glittir í bjarma í fjarska og hann nálgast. Nær hann alla leið og hvað merkir það í þessum aðstæðum? Við bíðum og nú erum við farin að vona, getur það verið að allt fari á endanum vel. Hver veit. Frá botninum liggur leiðin uppávið.

Við bíðum og vonum, við þraukum og þreyjum. Við höldum áfram, þrátt fyrir þjáningu og ranglæti við gefumst ekki upp. Senn mun birta á ný og það verður meira en nokkurn gæti grunað.

Vökum og biðjum.

Sr. Eiríkur Jóhannsson.