Prédikunarstóllinn - 20. apríl 2025 / Páskadagur

28. apríl

Páskadagur

Guðspjall: Mrk 16.1-7
Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Það er páskadagur, sigurhátíð kirkjunnar um veröld víða. Í hverjum einasta kristnum söfnuði í heiminum kemur fólk saman í dag til að fagna og biðja og byggjast upp af orði Drottins.

Það var frost í nótt og kaldast var augnablikið fyrir birtingu. Um leið og sólin kom upp tóku að klökna klakaböndin, héluð stráin reistu sig upp og náttúran smám saman fór að losna úr viðjum og nú leika sér geislar sólarinnar og birta myndir inni í þessum fagra helgidómi. En hann eins og raunar allir kristnir helgidómar eru einmitt til orðnir og byggðir vegna þessa boðskapar sem við heyrum í dag og fögnum.

Atburðir þeir sem minnst er í aðdraganda þessa dag og ná hámarki á föstudaginn langa eru dramatísk atburðarás, það eru átök og deilur, það eru svik og dauði og þá er eins og allt sé tapað en svo kemur að lokum hinn mikli sigur.

Það mætti halda að þetta væri næstum eins og amerísk hollýwood mynd með dæmigerðum happy ending. Þannig var það líka í ævintýrunum í gamla daga. Þau lifðu hamingjusamlega í góðu hjónabandi til æviloka og áttu börn og buru. Köttur út í mýri setti upp á sig stýri úti er ævintýri.

Hér er þó hins vegar mikill munur á, nú er ekki úti ævintýri, hér er ekki um að ræða endi heldur miklu fremur nýtt upphaf. Kaflaskil,vendipunkt.

Í táknrænu ljósi má kannski segja að páskadagurinn standi fyrir ákveðinn núllpunkt. Frásagnir ritninganna af Jesú Kristi, þessi stutta saga í sögulegu ljósi en samt svo rík og djúp að enn er hún eftir tvö þúsund ár fullgild leiðsögn í andlegum og raunar líka veraldlegum efnum. Án páskadagsins, án upprisunnar væri þó vægi hennar allt annað, vafamál hvort nokkur hefði þá vitað um þennan Jesú frá Nasaret. .

Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að þennan dag gerðist eitthvað sem var svo stórkostlegt og hafði svo djúpstæð áhrif að þessi tiltölulega fámenni hópur virkra fylgismanna Jesú var reiðubúinn að leggja allt í sölurnar til að boða trú á Jesú Krist og segja frá stórvirkjum hans svo vítt sem mögulegt var. Og víst er um það að á fyrstu öldum kristninnar var engin formleg valdastofnun sem hafði hag af framgangi kristninnar. Hún breiddist út sem leynifélag um borgir og bæi, fram með ströndum Miðjarðarhafsins í óþökk valdhafa. Forsenda þess alls var sannfæringin um upprisu Jesú Krists frá dauðum, staðfesting á hans Guðlega umboði, sú vonarríka brú sem þannig varð til milli himins og jarðar. Sjálfur Guð hefur litið til okkar í náð sinni.

En nú erum við stödd uppi á Íslandi árið 2025, að sumra dómi er hvergi betra að búa. En samt eru blikur á lofti á ýmsan hátt og margar koma þær til okkar utan frá, mörgu í mannlífinu hér má þó breyta og þarf að breytast, alltof margir verða undir og týnast og gleymast.

Reynsla undanfarinna ára hefur kennt okkur betur en nokkuð annað að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Eldgos og heimsfaraldur eru skýr og góð dæmi um það.

Páll postuli talar um súrdeigið og segir okkur að við eigum ekki að nota súrdeig vonsku og illsku heldur ósýrt brauð hreinleikans og sannleikans. Nú er súrdeigsbrauð aftur orðið vinsælt og mikið notað og á mörgum heimilum er geymd súrdeigsmóðir og jafnvel verið sú sama árum saman. Þannig er það sami grunnurinn í hverju nýju brauði.

Þetta er auðvitað það sem gerist í lífi okkar á svo mörgum sviðum. Við erum stöðugt að baka úr alls konar gömlu súrdeigi. Það eru siðir og venjur jafnvel líka ósiðir og óvenjur sem við höfum tekið í arf, það eru gömul deilumál sem hafa áhrif á samskipti barna og jafnvel barnabarna. Meðvitað og ómeðvitað eru ótal strengir sem toga okkur og teygja í ýmsar áttir, svo teljum við okkur trú um að við séum frjáls.

En það er samt hægt að skera á strengina, það er mögulegt að henda gamla súrnum og baka nýtt gerbrauð. Það er mögulegt að rjúfa vítahring neikvæðra samskipta, það er hægt að kasta frá sér byrði leiðinda í fortíð og byrja upp á nýtt. Þetta er það sem páskahátíðin stendur fyrir hún stendur fyrir nýtt upphaf sem ekki er háð því sem áður var.

Þetta þurfum við að læra, þetta þarf svið stjórnmálanna að læra þegar við sjáum eina æðstu stofnun okkar breytast í hálfgert leikhús þar sem menn gera sér leik að því að tefja og halda aftur af merkingarbærri umræðu og eðlilegum framgangi verkefna. Eiginlega til þess eins að spilla og tefja fyrir.

Hvernig getur nokkur haldið því fram að boðskapur Krists eigi ekki erindi inn í nútímann. Ef eitthvað á erindi þá er það einmitt hann. Við erum menguð og gegnumsýrð af gömlu súrdeigi, við erum föst í viðjum hugsunar sem ýtir undir flokkadrætti og togstreitu, átök og spennu.

Aðdragandi páskadagsins, þessir dagar í Jerúsalem þegar rætt var manna á milli um þennan Jesú sem þorði að gagnrýna, sem þorði inn í forgarða musterisins og hrinti það um koll borðum fjárplógsmannanna. Þar fór fram spennuþrungið uppgjör manna á milli og þetta uppgjör snérist um hagsmuni og völd. Þeir sem höfðu komið sér vel fyrir í kerfinu, nutu góðs af ríkjandi ástandi þeir vildu engu breyta. Það var langt frá því að réttlæti ríkti það var langt frá því að allir gyðingar væru jafnir og svo stæði hið rómverka vald og ógnaði öllum. Það var mikil stéttaskipting mikill munur manna á milli og margir sem síst af öllu vildu sjá nokkra breytingu.

Jesús ögraði öllu þessu kerfi, þannig er frelsunarboðskapur hans enn í dag ögrun við þá sem vilja tryggja völd sín og yfirráð, vilja hafa allt eins og það hefur alltaf verið. Þannig er krossfesting Krists pólitískur atburður og verður um eilífð alla tákn um ofbeldi ranglátra yfirvalda, tákn um hagsmunagæslu ríkjandi valdhafa, tákn um íhaldssemi og ótta við breytingar.

Í þessu ljósi verður að skoða upprisuna, hún er samstaða við þau öll sem sæta kúgun og ranglæti, hún segir að það sé ávalt von þótt aðstæður geti verið erfiðar. Hún er ljósið við enda ganganna sem stendur fyrir raunverulega breytingu á aðstæðum og þó umfram allt á viðhorfi því þar byrja allar breytingar.

Hið ótrúlega getur gerst hið ómögulega getur gerst, það er því alltaf von Kristur reis upp frá dauðum. Hvað getur verið ótrúlegra en einmitt það en samt þá byggjum við trú okkar á einmitt því. Með trú okkar á Jesú Krist gefum við hinu ómögulega tækifæri við höldum því opnu að breytingar geti orðið, breytingar sem öllu skipta.

Án þess væri vonin einskis virði, vonin sem oft á tíðum er það eina sem hægt er að styðja sig við. Vonin um að það sem jafnvel er ólíklegast af öllu, það gerist. Án vonar hvar værum við þá.

Upprisa Jesú Krists segir okkur að hið ólíklegasta af öllu, það getur gerst, það segir okkur að við eigum að halda í vonina, hafa augun föst á takmarki sem kannski er mörg ljósár í burtu. Draumsýn um betra líf, réttlæti, frið og kærleika lifir.

Nei það er enginn happy ending hér, enginn veit hverjir lifa hamingjusamlega saman til æviloka en það er að byrja ný mynd, hún lofar góðu það er von og frelsi í henni, leikararnir eru reyndar misjafnir og ekki allir útlærðir en þeir ætla sér langt og það er fátt sem getur stoppað þá því þeir hafa von, þeir hafa styrk, þeir vita að ekkert er ómögulegt. Þetta er leiksvið lífsins og við höfum þar öll hlutverk.

Sólin er komin hátt á loft á heiðum himni. Menn og skepnur, grös og plöntur drekka í sig sólarkossa. Frjóangar teygja sig upp. Lífið blívur. Því Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.

Þetta er sá dagur sem Drottinn gjörði, fögnum og verum glöð á honum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda amen.

Sr. Eiríkur Jóhannsson.