Freistingar valdsins
Fyrsti sunnudagur í föstu, 9. mars 2025
Nú er fastan gengin í garð og hinir hefðbundnu upphafsdagar að baki, bolludagur, sprengidagur og öskudagur.Ekki er nú víst að fólk almennt taki mikið mark á þessu dagatali kirkjuársins yfirhöfuð eða breyti mikið sínum lífsstíl á þessum tíma, þessum fjörutíu dögum fram að páskum sem við köllum föstu og var hér fyrr á öldum tekið alvarlega, ekki aðeins hér á landi heldur ekki síður í kaþólskum löndum suður við Miðjarðarhaf.
Svona sem innskot má nefna að þessi siður hafði mikil áhrif á viðskiptahagsmuni Íslendinga því um langt skeið fyrir daga frystingar þá var saltfiskur ein verðmætasta útflutningsvara okkar, það kom ekki síst til vegna þess að á föstunni var bann við neyslu á kjöti þá varð hinn saltaði fiskur mikilvæg fæða. Áfengisbannið sem sett var á í byrjun tuttugustu aldar rann út í sandinn þegar Spánverjar neituðu að kaupa af okkur fiskinn nema við keyptum af þeim rauðvín.
En nú í aðra sálma. Við höfum heyrt hér mikla lestra úr hinni helgu bók, lestra sem eru mikilvægir og skipta miklu fyrir skilning okkar á trúnni og stöðu mannsins í sköpunarverkinu. Frásögnin úr fyrstu Mósebók af syndafallinu er mikil grundvallarsaga, enda hafa fáar sagnir verið túlkaðar jafn oft af listafólki, eiginlega alveg fram á okkar daga og verið undirliggjandi leiðarstef í ljóðum og skáldskap.
Þarna kemur fram að forfeður okkar, einhver þúsund ára aftur í tímann hafa áttað sig á því að í manninum sem sannarlega býr yfir miklum hæfileikum og getu, býr líka einhver brestur. Hann gerir ekki alltaf það góða sem hann etv innst inni vildi gera. Hann sættir sig ekki við ramma og girðingar og leitar alltaf lengra en honum er sagt að gera. Hann át af skilningstrénu og varð líkari Guði en áður og öðlaðist reyndar um leið samvisku og vitund um rétt og rangt. Hann vissi að þau höfðu gert það sem þau áttu ekki að gera og þau skömmuðust sín en samt um leið og upp um þau komst þá stóðu þau ekki saman og notuðu í staðinn skynsemi sína til að reyna að vísa frá sér sökinni. „Konan sem þú gafst mér, hún gaf mér af trénu…“
Þaðan í frá þurftu þau að lifa erfiðu lífi og máttu hafa sig öll við til að komast af. Þannig hefur það verið allar götur síðan.
Þessi formáli kemur vel inn í samhengi frásagnarinnar af freistingu frelsarans Jesú Krists. Eftir að hafa verið skírður í ánni Jórdan þá liggur leið hans út í óbyggðirnar þar sem hans er freistað. Hann þarf að takast á við hinar stóru spurningar sem varða valdið sem honum var gefið. Alla þá möguleika sem slíkt vald gæti fært honum. Hann gæti séð öllum fyrir sínu daglega brauði og útrýmt hungri, hann gæti fyllt alla slíkri aðdáun að þau vildu allt fyrir hann gera og þannig gæti hann stjórnað öllum lýðnum eins og strengjabrúðum, engin myndi hreyfa andmælum allt væri vandræðalaust og fullkomið. Má ekki segja að í þessu felist draumur allra þeirra sem vilja láta aðra kenna á valdi sínu. Einræðisherrar, bæði fortíðar og nútíðar beita öllum brögðum til að losna við þá sem andmæla og vilja gera hlutina öðruvísi, þeir eru settir til hliðar eða jafnvel slegnir af. Stjórnarherrarnir gera sig guði líka. Úr gjallarhornum glymur þeirra sannleikur þeirra reglur. Í skjóli óttans ríkir friður, allt er kyrrt á yfirborði. Ef einhvers staðar sést grunsamlega hreyfing þá er hleypt af skoti.
Svo ótrúlegt sem það ætti að virðast þá er samt staðreynd að þetta er í mörgum löndum, enn í dag raunveruleikinn sem fólk lifir við. Ógnarstjórn, ógnarfriður, viðhaldið með ofbeldi og dauða. Draumur allra þeirra sem svona vilja stjórna er að ráða yfir hugsun fólks, geta þannig stýrt vilja þess og hegðun. Gera lýðinn að viljugum vélum.
Ógnvekjandi er öll sú tækni sem nú er til kominn, til þess að hlusta, sjá, skynja, lesa allt sem hver einasti þegn gerir og lætur frá sér fara. Þá er fljótlegt fyrir „stóra bróður“ að kippa þeim úr umferð sem ekki falla að gefnum viðmiðum. Það vofir sannarlega mikil hætta yfir víða um heim og raunar er engin þjóð óhult fyrir slíkum ógnum.
Mörg hver þekkja hina frægu smásögu Dostojevskís um Krist í Sevilja en hún gengur í stuttu máli út á það að í borginni Sevilla á Spáni á dögum rannsóknarréttarins þá birtist Jesú skyndilega á strætunum. Og umsvifalaust skynjar fólkið að þetta er eitthvað stórkostlegt og fólkið laðast að honum og gengur með honum. Þá er það rannsóknardómarinn sem lætur umsvifalaust handtaka hann og færir hann til yfirheyrslu. Framhaldið er svo ræða hans yfir Jesú þar sem hann ásakar Jesú harðlega fyrir þau miklu mistök að gefa fólkinu frjálsan vilja, fyrir það að segja nei við freistarann á sínum tíma,. Og nú séu þeir að berjast við að bæta fyrir brot hans með því að setja fólkinu strangar reglur og refsa þeim og taka úr umferð þau sem ekki hegða sér rétt. Það þarf að þeirra dómi að hafa vit fyrir lýðnum og segja þeim hvernig eigi að lifa og starfa.
Þarna kemur fram hjá höfundinum sá skilningur að trúin á Jesú Krist feli óhjákvæmilega í sér viðurkenningu á því að maðurinn hafi frjálsan vilja og enginn sé þvingaður til fylgdar við hann og þannig hefur hver einstaklingur val um að lifa góðu lífi eða ekki, val um að gangast undir þá leið sem Jesús bendir á. Þessi leið er sannarlega ekki alltaf auðveld og sagan kennir okkur að mennirnir og mannkynið allt hefur farið endalaust út af sporinu, gertmistök stór og smá.
Stöðugt spretta upp hópar og einstaklingar sem telja sig þess umkomna að stjórna öðrum og hafa vit fyrir þeim. Sagan kennir að oft byrjar þetta í smáu, maður réttir fram litlafingur en fyrr en varir þá er það allur handleggurinn og jafnvel meira.
Jesús sjálfur kom fram á tímum ofbeldis og ógnarstjórnar. Hann stóðst freistingar valdsins og skilaboð hans voru þau að hans ríki væri ekki af þessum heimi og umfram allt að ofbeldi verði aldrei kveðið niður með nýju ofbeldi. Ofbeldi elur af sér ofbeldi og af því verður til vítahringur sem enginn endir er á. Þetta höfum við séð svo sorgleg dæmi um einmitt á söguslóðum biblíunnar. Ástand sem varað hefur áratugum saman og engin endir virðist vera á.
Við getum talað um stóru myndirnar en allt þetta á líka við í hinu smáa, í samskiptum í fjölskyldum þar sem einhver einn lætur aðra finna fyrir styrk sínum umfram aðra og kallar eftir því að aðrir lúti vilja hans.
Þannig má segja að freistingar valdsins séu alls staðar til staðar. Orsökin er oft á tíðum djúpstæður ótti, ótti við að verða undir, verða skilinn eftir og þess vegna þurfi að vera fyrri til og taka frumkvæðið og tryggja sig. Jesús segir við allt það fólk sem þannig hugsar. Óttist ekki, mér er allt vald falið á himni og á jörðu, ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar. Líkamsdauðinn er ekki hin algeru endalok, dæmið er stærra og flóknara en svo. Þessi nálgun skapar manninum frið í hjarta og af slíkum frið sprettur meiri og stærri friður, söfnuður, samfélag þar sem hver og einn þegn fær að vera hann sjálfur og fær að hugsa og skapa að vild, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Umhverfi sem hefur þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart ólíkum leiðum, ólíkum lífsstíl en er samt samstíga um grundvöllinn, leið kærleika og friðar. Guð hefur gefið manninum skapandi hugsun og frjálsan vilja. Það er sannarlega áhætta og sagan kennir að oft er farið í ranga átt. Hins vegar er einmitt þetta það sem skapar möguleikann á öllu því stórkostlega sem við erum fær um að gera og hugsa og framkvæma. Okkur er treyst og við erum elskuð og þegar við skynjum og finnum þetta frá Guði og heilögum anda þá geta góðir hlutir gerst, gott líf þar sem hver og einn hefur frið til að vera hann sjálfur og sömuleiðis hluti af samfélagi þar sem enginn er skilinn útundan. Þar sem öllum hlotnast stuðningur og umhyggja bæði frá Guði og mönnum.
Sr. Eiríkur Jóhannsson
Lexía: 1Mós 3.1-24
Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“
Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“
Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.
Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“
Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: Af því að þú gerðir þetta skaltu vera bölvaður meðal alls fénaðarins og meðal allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skaltu skríða
og mold eta alla þína ævidaga. Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá í hælinn.
Við konuna sagði hann: Mikla mun ég gera þjáningu þína er þú verður barnshafandi. Með þraut skaltu börn fæða, samt skaltu hafa löngun til manns þíns en hann skal drottna yfir þér.
Við Adam sagði hann: Vegna þess að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af trénu sem ég bannaði þér að eta af, þá sé akurlendið bölvað þín vegna. Með erfiði skaltu hafa viðurværi af því alla þína ævidaga. Þyrna og þistla skal landið gefa af sér og þú skalt lifa á grösum merkurinnar. Í sveita þíns andlitis skaltu brauðs þíns neyta þar til þú hverfur aftur til jarðarinnar því af henni ertu tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa.
Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa. Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim.
Og Drottinn Guð sagði: „Nú er maðurinn orðinn sem einn af oss fyrst hann ber skyn á gott og illt. Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“
Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré.
Guðspjall: Matt 4.1-11
Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“
Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“
Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er:
Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“
Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“
Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“
En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“
Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.