Áramótakveðja frá Hallgrímskirkju

31. desember 2020


„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.“ Þessi upphafsorð í áramótasálmi Valdimars Briem hljóma fyrir mörgum óvenju vel nú undir lok ársins 2020. Þetta ár hefur verið óvenjulegt og undarlegt. Það hefur reynt á og það hefur kennt okkur margt. Það hefur fátt verið í eðlilegum skorðum og sést það ekki síst á því að handspritt og andlitsgríma er orðinn staðalbúnaður hjá okkur öllum utan heimilis.

Árið hefur reynt á þolinmæði, umburðarlyndi, aðlögunarhæfni, hugmyndaflug, þrautseigju, útsjónarsemi og margt fleira. Það hefur kennt okkur að vera þakklát fyrir og meta það sem við höfum í hinum hefðbundna veirufría hversdagsleika. Það hefur líka kennt okkur að njóta lífsins á annan hátt en við erum vön og meta alla litlu hlutina sem færa okkur gleði og ánægju. Við höfum lært að nýta fleiri leiðir til boðunar og miðlunar en áður. Þar hafa orðið miklar framfarir sem munu vafalaust nýtast okkur áfram þegar veruleikinn fellur í skorður að nýju.

Aðlaganir hafa verið miklar á árinu. Starfsfólki hefur fækkað og við hugsum með þakklæti og hlýju til þeirra sem hafa horfið til annarra starfa í þeim niðurskurði sem við höfum þurft að ráðast í. Helgihald hefur verið af skornum skammti, rétt eins og annað viðburðahald í kirkjunni en vonandi líður ekki á löngu þar til við megum koma saman aftur.

Með hækkandi sól á nýju ári standa vonir til þess að lífið færist smám saman í eðlilegt horf á ný. Framundan eru þó enn áskoranir og uppbygging að nýju í Hallgrímskirkju. biðjum almáttugan Guð að leiða okkur, styrkja og styðja í lífi og starfi á árinu 2021.

Gleðilegt nýtt ár!

Sigríður Hjálmarsdóttir