Kórtónleikar í Hallgrímskirkju
Kammerkórinn Schola cantorum syngur
Stjórnandi Hörður Áskelsson
Sigurður Sævarsson: REQUIEM (frumflutningur)
Hugi Guðmundsson: Fyrir ljósi myrkrið flýr (frumflutningur)
Kjell Mørk Karlsen: Missa defunctorum (Requiem)
Líkt og undanfarin ár mun Schola cantorum halda tónleika á allra heilagra messu. Þessir tónleikar eru jafnan vel sóttir. Minning látinna ástvina er umvafin hlýjum logum frá kertaljósum sem loga undir fagurri og áhrifamikilli tónlist sem kórinn flytur.
Á efnisskránni eru tvær nýjar sálumessur eftir Sigurð Sævarsson og Kjell Mörk Karlsen auk mótettu eftir Huga Guðmundsson.
Sálumessurnar tvær eru samdar við hinn hefðbundna latneska texta Requiem og eru báðar ætlaðar til flutnings án undirleiks. Requiem eftir Sigurð Sævarsson, sem nú heyrist í fyrsta sinn, er um 30 mínútna löng. Hún er skrifuð til minningar um föður tónskáldsins. Sigurður, sem er meðlimur Schola cantorum, hefur á undanförnum árum sérstaklega sinnt sköpun kórverka, sem fallið hafa í góðan jarðveg, bæði hjá flytjendum og áheyrendum. Stíllinn er hægferðugur og mínimalískur og fellur sérlega vel að endurómi stórkirkna á borð við Hallgrímskirkju.
Verk Huga Guðmundssonar Fyrir ljósi myrkrið flýr er tileinkað minningu föður hans, Guðmundar Hallgrímssonar og Björgvins Ingimarssonar sem létust með tveggja daga millibili í febrúarmánuði 2013. Ljóðið sem sungið er í verkinu samdi eftirlifandi eiginkona Björgvins, Vilborg Davíðsdóttur rithöfundur.
Sálumessa hins norska Kjell Mörk Karlsen Missa defunctorum, var frumflutt fyrir einu ári í Osló. Verkið er 20 mínútna langt og er skrifað til minningar um eiginkonu tónskáldsins, sem hann missti fyrir tveimur árum. Kjell Mörk hefur verið afkastamikill á sviði kirkjutónlistar í Noregi. Hann hefur skrifað mikið af kórverkum, bæði stórum og smáum, svo og orgeltónlist og hljómsveitarverk.
Útgáfufyrirtækið BIS í Svíþjóð hefur nýlega gefið út disk með Schola cantorum þar sem kórinn flytur kórverk undir yfirskriftinn Meditatio, en flest verkin á diskinum hafa verið á efnisskrám kórsins á tónleikum hans í Hallgrímskirkju á allra heilagra messu undanfarin ár. Diskurinn hefur fengið mjög góðar undirtektir.