Reynsla sem breytir lífi.

13. febrúar

Reynsla sem breytir lífi.

Síðasti sunnudagur eftir þrettánda – Ummyndun
Lexía: 5 Mós 18.15 - 19
Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Hann mun að öllu leyti uppfylla það sem þú baðst Drottin, Guð þinn, um á Hóreb daginn sem þið komuð þar saman og þú sagðir: „Lát mig ekki heyra aftur þrumuraust Drottins, Guðs míns, né líta aftur þennan mikla eld svo að ég deyi ekki.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Það sem þeir segja er rétt.
Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistill: 2 Pét 1.16-21
Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga.
Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall: Matt 17.1-9
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Reynsla sem breytir lífi.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Sérhver nýr dagur mætir okkur með nýja reynslu og viðfangsefni. Reyndar er það svo að oft finnst okkur hver dagurinn öðrum líkur og lítið markvert hafi gerst. En er það endilega svo, getur ekki verið að okkur yfirsjáist og stundum sé það meira hvernig við sjálf hugsum og fylgjumst með, hvort eitthvað hefur skeð sem skiptir máli.

Roskinn maður sem ég þekkti var ekki alltaf glaður með lífið eftir að hann fór á eftirlaun og hafði jafnan við orð að það gerðist ekki neitt og það kæmi heldur enginn í heimsókn til þeirra hjóna. Seinna gafst mér tækifæri til að líta í dagbókina hans sem hann hélt samviskusamlega fyrir hvern dag. Með hefðbundnum hætti þ.e.a.s fyrst um veðrið og síðan um það sem gerst hafði. Þá sá ég svart á hvítu það sem mig hafði reyndar sterklega grunað að lífið var langt frá því eins tilbreytingarlaust og honum fannst sjálfum. Það leið varla sá dagur að einhver liti ekki við eða að þau hjón færu einhverra erinda út af heimilinu. Hann fór í sína daglegu göngu um hverfið og oft bar þar eitt og annað á góma, skólabörn sem hann skiptist á orðum við, fólk að viðra hundinn og eitt og annað óvænt. Ástæðan var, að ég held sú að af því að hann var ekki lengur í mikilvægu starfi þá fannst honum hann ekki hafa neitt hlutverk og hann fann sig ekki í nýrri stöðu, fann ekki nýjan takt.

Í dag heyrðum við frásögn af atburði sem án efa hefur haft mikil áhrif á þá sem þar urðu vitni. Þessi raunar stórfurðulega og allt að því absúrd saga af ummynduninni á fjallinu. Maður fær á tilfinninguna að orðin sem notuð eru nái ekki alveg að fanga það sem fyrir augu og eyru bar. Lærisveinarnir stara í forundran og berjast við að reyna að skilja það sem þeir sjá. Hljóta þetta ekki að vera spámenn fortíðar hinir miklu sem þarna standa hjá Jesú? Hljóta þetta ekki að vera skilaboð um að hér sé helgur staður? Og Pétur tekur af skarið, hér þarf eitthvað að gera. Reisum þrjár tjaldbúðir.

Greinilegt er að þessi atburður hefur haft mikil áhrif, ekki bara á þá sem þarna voru vitni heldur einnig þau sem fengu fregnir af honum og áfram eftir að kristin trú er orðin til og kirkja þá verður þessi frásögn ein af þeim sem staðfesta hina einstöku stöðu Jesú. Að hann og hans hlutverk var annað og meira en nokkurs annars. Rödd af himnum gengst við honum og því sem hann hefur að segja.

Í Pistli dagsins heyrðum við úr bréfi Péturs þar sem hann áréttar sannleiksgildi þessa atburðar og orð hans vitna um að hann hefur oft fengið að heyra það að þetta ásamt fleiru sem sagt var um Jesú, sé ekkert annað en, eins og hann orðar það sjálfur, uppspunnar skröksögur. Þannig er það ekkert nýtt í sögunni að leitast sé við að kasta rýrð á boðskapinn um Jesú Krist efast um hann og gefa í skyn að allt sé þetta innantómur tilbúningur.

Lærisveinar Jesú urðu vissulega fyrir því að verða vitni að hverjum umbreytandi viðburðinum á fætur öðrum en samt kemur það víða fram að lengi vel gekk þeim ekki vel að skilja samhengið í því sem Kristur hafði í huga og stefndi að. Jafnvel þótt hann segði þeim aftur og aftur hvernig endalokin yrðu og þau færu að nálgast þá skelltu þeir skolleyrum. Það gat ekki verið að svo færi þetta, það fór einfaldlega í bága við vonir þeirra og hugarheim. Það er eiginlega ekki fyrr en eftir upprisuna og varla þá heldur, jú þau sem þekktu Jesú skynjuðu vissulega mikilvægi þessa. Jesús birtist þeim í holdi og talaði við þau en steig svo upp til himna. Við úthelling heilags anda fimmtíu dögum síðar þá fyrst vaknar með þeim vitund um, ekki einvörðungu hversu umbreytandi þessi atburðir voru og einstakir í veraldarsögunni heldur væru þau sjálf kölluð til þess hlutverks að gera eitthvað með þetta allt. Miðla því áfram segja frá og skýra fyrir fólki merkingu hans og mikilvægi þess sem Jesús sagði og gerði.

Frægasta umbreytandi lífsreynsla sem nýja testamentið geymir er þegar Sál verður Páll postuli, þegar Jesús vitrast honum sem ekki var lærisveinn hans og hafði aldrei heyrt hann né séð í lifanda lífi og var raunar í hópi þeirra sem vildu kveða niður þessa að þeirra dómi, röngu og óþægilegu túlkun á vilja Guðs. Í kjölfar atburðarins þar sem hann var á leið sinni til Damaskus þá verður hann mikilvirkasti og áhrifamesti boðandi trúar á Jesú Krist og bréf hans vitna um það hversu mikið honum er niðri fyrir. Með Jesú er eiginlega komið nýtt viðmið já nýtt upphaf nýr adam er fæddur og hans afkomendur eru lausir undan klafa erfðasyndar.

Í blöðum og tímaritum og ýmsum miðlum er mikið um frásagnir og viðtöl við fólk sem fengið hefur nýja sýn á lífið. Oft er það í kjölfar erfiðrar lífsreynslu, lífsógnandi veikinda eða slysa eða vegna dauðsfalls eða veikinda einhvers þeim nátengdum. Að hafa horfst í augu við dauðann verður þannig oft til þess að lífið og gildismatið er endurmetið. Það lýkst upp að margt af því sem keppst var eftir og mikið lagt á sig fyrir var eftirsókn eftir vindi. Það vekur vitund um að hver dagur er dýrmæt gjöf sem vert er að fara vel með.

Það væri óskandi að fleiri gætu fengið þessa sýn án þess að þurfa að ganga í gegnum slíka erfiðleika. Lærisveinum Jesú og Páli postula þeim tókst að miðla nýrri sýn á lífið með sínum eldmóði og sannfæringu og líf og kærleikurinn og samheldnin sem ríkti í hinum fyrstu söfnuðum smitaði útfrá sér þannig að stöðugt fjölgaði hinum kristnu þótt ógn steðjaði að frá yfirvöldum í fyrstu.

Rétt eins og gamli maðurinn sem minnst var á í upphafi og kom ekki auga á hversu margt var þegar allt kom til alls dýrmætt í lífi hans og raunar gleðiefni þá er ekki víst að við þurfum endilega að lenda í hörmungum, standa á brún hyldýpis til þess að sjá líf okkar í nýju ljósi, átta okkur á því hvað það er sem raunverulega skiptir máli og hvað gerir það ekki.

Kannski þarf ekki annað en gefa gaum að orði Drottins, opna augun og hjartað og leyfa heilögum anda að hreyfa við okkur og gefa okkur nýjan skilning og einlæga gleði og umfram allt löngun til að láta gott af okkur leiða, vera á einhvern hátt gefandi og miðlandi í stað þess að vilja draga allt til okkar. Að gefa í stað þess að þiggja.

Þá getur venjulegur dagur orðið að mikilvægum degi sem skiptir máli, ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir náungan sem á leið okkar verður.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda amen.

Sr. Eiríkur Jóhannsson