Schola cantorum hádegistónleikar miðvikudaginn 8. ágúst
06. ágúst 2018
Miðvikudaginn 8. ágúst kl. 12 syngur kammerkór Hallgrímskirkju, Schola cantorum íslenskar og erlendar kórperlur. Tónleikagestum er boðið í kaffi og spjall við meðlimi kórsins að tónleikunum loknum. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.
Miðaverð er 2.500 kr.
Miðasala hefst í anddyri kirkjunnar klukkustund fyrir tónleikana, en einnig er hægt að kaupa miða á midi.is.
Schola cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn var valinn Tónlistarflytjandi ársins 2016 á Íslensku tónlistarverðlaununum í mars 2017 og hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Sviss og Bandaríkjunum. Schola cantorum var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Hallgrímskirkju (áður Den Haag), Björk, Sigurrós o.fl. Kórinn kom einnig fram á 5 tónleikum á tónlistarhátíðinni Reykjavík Festival í Walt Disney Hall í Los Angeles í apríl 2017, þ.s. söngur kórsins hlaut einróma lof í allri umfjöllun stórblaða svo sem New York Times, LA Times o.fl. Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.