Sigurður Árni kveður Hallgrímssöfnuð

21. mars 2023
Fréttir

Dr. Sigurður Árni Þórðarson lætur af opinberum störfum og kveður söfnuð Hallgrímskirkju í messu sunnudaginn 26. mars, kl. 11:00. Eftir stúdentspróf frá MR hóf Sigurður Árni nám í kristinfræði Noregi og lauk guðfræðinámi á Íslandi frá HÍ. Hann lauk doktorsprófi í guðfræði og hugmyndasögu frá Vanderbiltháskóla í Tennessee í Bandaríkjunum. Í doktorsritgerðinni skrifaði hann um myndmál í trúarhefð Íslendinga. Sigurður Árni hefur starfað sem rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum, verkefnisstjóri guðfræði og þjóðmála á Biskupsstofu og stundakennari við HÍ. Hann hefur verið prestur í Ásaprestakalli, Staðarfellsprestakalli, Neskirkju og síðast sóknarprestur Hallgrímskirkju frá 2014. Um feril og fræði hans má lesa á sigurdurarni.is. Þar eru einnig mataruppskriftir, áhugaefni, greinar, ræður og hvað Sigurður Árni áformar á þriðja æviskeiðinu. Síðar á þessu ári verður prédikanasafn hans gefið út. Allir eru velkomnir til kveðjumessu og messukaffið í boði sóknarnefndar Hallgrímskirkju verður ríkulegt.