Björn Steinar Sólbergsson leikur á upphafstónleikum íslensks orgelsumars 2020 fimmtudaginn 25. júní kl. 12.30.
Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir hádegistónleikum með íslenskum organistum alla fimmtudaga í sumar frá 25. júní 20. ágúst undir heitinu Orgelsumar í Hallgrímskirkju 2020.
Íslenskir organistar munu sjá til þess að Klais-orgel Hallgrímskirkju þagni ekki og á tónleikum sumarsins gefst áheyrendum kostur á að heyra 9 íslenska organista sem starfa við kirkjur víða um land leika listir sínar í Hallgrímskirkju.
Á fyrstu tónleikum Orgelsumarsins fimmtudaginn 25. júní kl. 12.30 leikur Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju og helgar hann tónleikana franska orgelsnillingnum Louis Vierne í tilefni af því að í ár eru 150 ár síðan Vierne fæddist. Á efnisskránni eru m.a. tveir þættir úr fyrstu orgelsinfóníu hans. Auk verka Vierne verður flutt nýtt orgelverk Himnafaðir eftir Sigurð Sævarsson tónskáld. Tónleikarnir eru rúmlega hálftími að lengd.
Björn Steinar Sólbergsson hefur starfað sem organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík um árabil, en hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna. Hann er einnig skólastjóri við Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik. Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.
Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima og erlendis og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar. Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002.
Aðgangseyrir er 1500 krónur fyrir fullorðna, ókeypis fyrir félaga í Listvinafélaginu og börn yngri en 16 ára.