Á árlegum Sálmafossi á Menningarnótt streyma þúsundir gesta í kirkjuna til að upplifa sálmasöng, kórsöng, einsöng og hrífandi tóna Klaisorgelsins, bæði í einleik og samleik. Fossinn streymir samfellt í sex klukkutíma, gestum er velkomið að koma og fara að vild.Á hverjum heilum tíma sameinast allir í sálmasöng með orgelinu.
Sálmafossinn í ár hefst að venju klukkan 15.00 með söng Mótettukórs Hallgrímskirkju og orgelleik Mattiasar Wager, dómorganista í Stokkhólmi. Í upphafi fá kirkjugestir að taka undir sálma með Mótettukórnum. Sálmafossinn flæðir síðan samfellt til klukkan 21.00. Auk Mótettukórsins koma fram Kór Akraneskirkju undir stjórn Sveins Arnar Sæmundssonar, Det Unge Vokalensemble undir stjórn Poul Emborg, Kammerkórinn Hljómeyki undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar, Dómkórinn undir stjórn Kára Þormar og Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar. Barítónsöngvarinn Fjölnir Ólafsson syngur einsöng.
Auk Mattiasar Wager leika Björn Steinar Sólbergsson og Kári Þormar á Klaisorgel Hallgrímskirkju!
Kynnar eru prestar Hallgrímskirkju dr. Sigurður Árni Þórðarson Hallgrímskirkju og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir.
Í suðursal Hallgrímskirkju býður kaffihús Guðríðar upp á rjúkandi vöfflur og kaffi. Ágóði af kaffisölunni rennur til Listvinafélags Hallgrímskirkju, sem skipuleggur Sálmafoss.