Sýningarspjall við sýningarlok 11. nóvember kl. 16:30

08. nóvember 2018
RÓSA GÍSLADÓTTIR RÆÐIR VIÐ LISTAKONUNA.

 

ALLIR ERU HJARTANLEGA VELKOMNIR.

 

 

   

 

 

 

Sýningu Ingu S. Ragnarsdóttur myndhöggvara - ÁHEIT / VOTIV -  í forkirkju Hallgrímskirkju, lýkur með sýningarspjalli nk. sunnudag 11. nóvember kl. 16.30 og ræðir Rósa Gísladóttir myndlistarfulltrúi Listvinafélags Hallgrímskirkju þar við listakonuna.

Allir eru hjartanlega velkomnir og eru léttar veitingar í boði Listvinafélagsins.

Sýningin fjallar um það hvernig fólk hefur í aldanna rás heitið á Maríu guðsmóður og kirkjuna til þess að biðja um hjálp. Áheit eða fórnargjafir hafa verið hluti ólíkra menningarheima í aldanna rás og þær fyrstu sem vitað er um í Evrópu eru frá steinöld. Sýningin opnaði 20. maí og var framlengd til 11. nóvember. Tugþúsundir ferðamanna hafa séð sýninguna í forkirkju Hallgrímskirkju og nýtur sýningin sín afar vel í rýminu.

Um sýninguna:

Áheit / Votiv

Á þýsku er orðið Votiv notað yfir áheit eða fórnargjöf en það er líka til í mörgum öðrum málum, t.d. í ensku votive og í frönsku votif; orðin eru komin úr latínu votivus ‘lofaður’. Fórnargjafir hafa verið hluti ólíkra menningarheima í aldanna rás, þær fyrstu sem vitað er um í Evrópu eru frá steinöld. Í kristindómi náðu venjurnar í kring um fórnargjafir hámarki á barokktíma.

Það er í þeirri birtingarmynd sem Inga S. Ragnarsdóttir kynnist þessum venjum. Fyrir ungan myndhöggvara frá Íslandi virkuðu ofhlaðnar barokk-kirkjur Suður-Þýskalands rétt eins og framandi hof í fjarlægum heimi. Hún tengdi við hefðir votiv-gjafanna þar sem áheit eru ríkur þáttur í íslenskum menningararfi, til dæmis áheitin á Strandakirkju í Selvogi. Kirkjurnar urðu fljótt innblástur fyrir Ingu en þar kynntist hún efnivið sem hún hefur unnið í alla tíð siðan. Um er að ræða stucco-marmara, sem er í raun gervimarmari búinn til úr blöndu af gipsi, beinalími og litadufti. Nú á dögum hefur arfleifð handverks og listsköpunar sem spratt af hinum manngerða efniviði nánast horfið. Í höndum Ingu S. Ragnarsdóttur fær hann þó nýtt líf. Sem myndhöggvari tekst hún á við efnið og litinn og mótar í form. Þessi form eru nú til sýnis í forrými Hallgrímskirkju. Stucco-skúlptúrarnir sem eru festir þar á veggi taka mið af fórnargjöfunum fyrri alda.

Inga hefur í verkum sínum glímt við spurningar um hringrás náttúrunnar, samband mannsins og umheimsins og velt fyrir sér samhenginu þar á milli. Á tímum barokksins, í tíð séra Hallgríms Péturssonar sálmaskálds, voru kirkjurnar frjósamur vettvangur listanna. Inga tengist þessari hefð með nýstárlegum hætti og leggur út frá fórnargjöfum sem eru táknmyndir innsta kjarna mannsins sem og þess veraldlega, en velferð alls er háð heilun jafnt efnislegri sem andlegri.

(úr grein Dorothée Kirch um sýninguna)

Sýningin hefur staðið í allt sumar og lýkur 11. nóvember. Opið er alla daga frá kl. 9-17  og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Inga S. Ragnarsdóttir myndlistarmaður (f. 1955) ólst upp í Reykjavík, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Akademíuna í München, Diplóma 1987.Starfandi myndlistarmaður bæði í Þýskalandi og á Íslandi frá 1987. Hefur verið gestakennari við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands og haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða bæði í Þýskalandi og á Íslandi.Hefur auk þess starfað sem sýningarstjóri og unnið að rannsóknum sem tengjast upphafi nútímamyndlistar í íslensku samfélagi. Efni þessara rannsókna vann hún í samstarfi við Krístínu G. Guðnadóttur listfræðing og var það gefið út 2017 í bók sem heitir Útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1973. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar víða um heim og útilistaverk hennar eru m.a. á opinberum svæðum í München og Düsseldorf í Þýskalandi.